Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 13:58:36 (2456)

2000-11-30 13:58:36# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[13:58]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég spurði, hvernig heldur hv. þm. að staða sjávarútvegsins verði og staða gengisins við að leggja tæpar 3.000 millj. á sjávarútveginn í þessari stöðu? Ég spurði eftir því og fékk ekkert svar. Í brtt. stendur: 3.350 millj. af tekjuskatti einstaklinga, 250 millj. af tekjuskatti lögaðila. Ég held að ég lesi þetta alveg rétt. Ég held að það sé alveg óskaplegur misskilningur ef menn halda að Ísland eigi það ráð til að loka á fjármagnsflutninga milli landa. Það hafa allar þjóðir reynt og við höfum rætt þetta í tíu ár og enginn náð neinni niðurstöðu annarri en að það skipti máli fyrir efnahag einnar þjóðar að gera viðskiptaumhverfi fyrirtækjanna eins vænlegt skattalega og hægt væri. Halda menn virkilega að það sé tekjustofn fyrir ríkið að menn geti ekki selt öðruvísi en hér borguðu menn fullan skatt af söluhagnaði? Það var reynt áður. Við breyttum þessu 1996. Hvað hafði gerst áður? Það var engin sala en það voru heldur engar tekjur til ríkisins. Það stóð allt fast. Þegar við breyttum þessu komum við hringrás á þetta og jukum þannig stórlega tekjur ríkisins, ekki öfugt. Ef menn ætla að stoppa þetta, þá minnka tekjurnar vegna þess að tekjustofninn hverfur. Þetta er bara Münchhausen-aðferð til þess að búa til tekjur.