Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 14:27:46 (2462)

2000-11-30 14:27:46# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[14:27]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo að fjármagnið til framhaldsskólanna er veitt að meginhluta sem ein heildarupphæð til menntmrn. en það er alveg hárrétt sem hæstv. menntmrh. greinir frá að síðan er því deilt af hálfu ráðuneytins út til einstakra skóla. Æ stærri hluti af fjárveitingum til framhaldsskólakerfisins fer samt inn sem ein heildarupphæð óskipt til ráðuneytisins til útdeilingar. Misjöfn staða framhaldsskólanna vítt og breitt um landið er umhugsunarefni og alvarlegt vandamál. Eins og hæstv. menntmrh. gat um getur það verið breyting á nemendafjölda og öðru slíku en það er samt sú tilhneiging að skólar viti ekki hvað að þeim snýr og eigi þar að sækja allt sitt undir menntmrn. sjálft. Verulega hefur dregið úr aðkomu Alþingis sem slíks gagnvart framkvæmd og stefnu í framhaldsskólakerfinu en ég tek undir þau sjónarmið hæstv. ráðherra að framhaldsskólann þarf að efla og styrkja og hann þarf að geta tekist á við verkefni sín eins og lög kveða á um.