Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 14:30:00 (2463)

2000-11-30 14:30:00# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[14:30]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Formaður fjárln., hv. 3. þm. Austurl., hefur í ítarlegri ræðu gert grein fyrir tillögum meiri hluta fjárln. við 2. umr. fjárlaga. Þannig ætti að vera óþarft að fara yfir það mörgum orðum frekar. Þó er rétt að benda á og undirstrika að meginþemað í þessum tillögum er að styrkja að stærstu leyti ákveðin menningarverkefni, sérstaklega úti um landið, ferðatengd verkefni. Þetta eru styrkir og að mestum hluta er aukningin ekki bundin við rekstur ríkisins. Þetta er gert í eitt skipti með tilliti til ástandsins núna, að fjárhagur ríkisins leyfir það. Það er ekki verið að skuldbinda ríkið til lengri tíma og auka þannig rekstrarkostnaðinn. Það er megineinkennið á þessum tillögum.

Ég tek eftir því að talsmenn stjórnarandstöðunnar sem talað hafa á undan mér, talsmenn Samfylkingarinnar og vinstri grænna, hafa kosið að gera þessar tillögur ekki að umræðuefni. Við það er svo sem ekkert að athuga. Ég reikna með því og geng út frá því, af því að ég veit það af störfum nefndarinnar, að stjórnarandstaðan sé í megindráttum sammála meiri hlutanum um þennan tillöguflutning, að hann sé bæði góður og skynsamlegur, enda stefnir hann að því að bæta stöðu landsbyggðarinnar að mörgu leyti. Þessi verkefni munu hafa áhrif á ferðamennskuna sem er mjög þýðingarmikill atvinnuvegur í uppbyggingu og bæta stöðu Íslendinga til langs tíma litið vegna þess að menningarverðmætin verða metin til fjár.

Ég tek eftir því að talsmenn stjórnarandstöðunnar hafa, í stað þess að ræða tillögur meiri hluta fjárln., kosið að ræða fyrst og fremst um fjármál þjóðfélagsins og efnahagsmál. Það er skiljanlegt og ekkert við því að segja. Skylt er skeggið hökunni þannig að það er eðlilegt undir þessum kringumstæðum þegar við ræðum ríkisfjármálin, að ræða efnahagsmálin almennt. Ég tek undir það og nota tækifærið einmitt til að fara yfir þau mál. Ég fagna því að umræðurnar snúist um efnahagsmálin því að mér finnst oft og tíðum erfitt að skilja hvernig stjórnarandstaðan vill haga þeim málum þessa stundina.

Hv. 7. þm. Reykv., formaður Samfylkingarinnar, ræddi mjög um viðskiptahallann og stöðuna um þessar mundir. Hann ræddi um ríkisfjármálin, um að það væri slaki á ríkisfjármálum og þyrfti að taka þau fastari tökum. Hann sagði líka að horfur í verðbólgunni væru nú verri en áður vegna þess gengissigs sem orðið hefði. Hann bætti við að að hans mati þyrfti eflaust að grípa til óyndisúrræða, eins og hann orðaði það, í efnahagsmálum. Við skulum athuga þetta dálítið nánar.

Fyrir ári síðan þegar við ræddum fjáraukalögin var vakin athygli á, í greinargerð stjórnarandstöðunnar um efnahagsmál, þessum mikla viðskiptahalla. Menn fóru þar nokkuð skynsamlegum orðum um þá vá. Ég sá ástæðu til að taka undir það og gerði það sem ekki er algengt hér á Alþingi, að hæla stjórnarandstöðunni fyrir skynsamlegan málflutning. Það er alveg rétt að viðskiptahalli Íslendinga eins og hann er í dag er auðvitað vandamál sem á þarf að taka.

En hvað getur leiðrétt viðskiptahalla? Hvað gerist í markaðssamfélagi eins og okkar? Hvernig förum við að því að leiðrétta viðskiptahallann? Við gerum það ekki öðruvísi en að markaðurinn gerir það. Það er markaðurinn sem fellir krónuna. Það er vegna tiltrúarinnar á þennan gjaldmiðil sem hann fellur. Það er ekki neinn einstakur, ekki einhver Pétur eða Páll sem ákveður það úti í bæ. Það er markaðurinn sjálfur sem metur verðgildi þessa gjaldmiðils. Það hefur gerst. Gengið hefur fallið af ýmsum ástæðum. Það er bæði af utanaðkomandi ástæðum og okkar eigin vanda. Ég nefni hér þrjár ástæður fyrst og fremst:

Við höfum orðið fyrir miklum áföllum, þjóðarbúið, vegna olíuverðshækkana. Allar þjóðir Vestur-Evrópu standa frammi fyrir því vandamáli. Það hefur minnkað tekjur okkar og skert samheppnishæfni sjávarútvegsins. Þetta er hlutur sem mun með einum eða öðrum hætti, seint eða snemma, koma niður á lífskjörum þjóðarinnar. Við komumst ekki frá þessu.

Við stöndum líka frammi fyrir því vandamáli að fiskveiðiráðgjöfin á Íslandi er algerlega háð einu ríkisfyrirtæki, einu rannsóknarfyrirtæki á vegum ríkisins sem hefur gefið okkur ráð nú um nokkuð langan tíma. Ráðin hafa hins vegar dugað skammt þó markmiðið hafi verið það að auka hér fiskstofnana, gera okkur kleift að veiða meira. Það hefur gengið alveg öfugt. Við höfum ekki náð nokkrum árangri og í ár hefur verið ákveðið að veiða minna en áður og var þó lítið fyrir miðað við það sem hefur verið síðastliðin 70 ár við veiðar á þorski á Íslandsmiðum. Við erum bara staddir í þeirri gildru. Þeir sem hafa haldið því fram hér að lítið væri að marka þessa ráðgjafa, hafa fengið að heyra að þeir væru mjög óábyrgir menn og það margsinnis ítrekað. Áfram ætla menn að halda og það virðist þverpólitísk samstaða um það meðal Íslendinga að áfram skuli fylgt ráðum þessara ráðalausu manna. Þetta er önnur ástæðan. Þetta hefur grafið undan okkur og hefur veikt krónuna. Frammi fyrir því stöndum við.

Hv. 7. þm. Reykv. spurði í ræðu sinni áðan og vildi fá skýr svör við því frá mér hvort ég teldi það rétt hjá fyrrv. ráðgjafa ríkisstjórnarinnar og fyrrv. innsta koppi í búri í Seðlabankanum, Yngva þessum Erni sem oft er vitnað til, hvort hann teldi rétt að það væri vegna stefnunnar í ríkisfjármálum sem við værum í vanda eða hvort það væri vegna stefnu Seðlabankans í peningamálum. Mér er bæði ljúft og skylt, herra forseti, að svara þessari spurningu. Ég þakka fyrir hana því að hún er mjög kærkomin.

Ég ætla að fyrir þremur árum hafi ég fyrst kveðið upp úr um það í efh.- og viðskn. þingsins, þar sem staddir voru báðir bankastjórar Seðlabankans, að ég efaðist mjög um peningapólitík þeirra. Ég efaðist mjög um að rétt væri að keyra svo upp vextina á Íslandi umfram viðskiptaþjóðirnar til þess eins að halda uppi hærra gengi en ella væri til þess að toga upp kaupmátt. En það var hins vegar gert þannig að kaupmátturinn var hér í tvö ár meiri en við hafði verið miðað við gerð kjarasamninga. Ég efaðist mjög um það. Ég lýsti því yfir fyrir þremur árum og hef margsinnis bæði innan þings og utan látið þetta í ljós. Ég hef efast mjög um þessa ráðgjafa. Ég tel það líka sýnt að í ljós hafi komið að þetta hafði ekki neitt gott í för með sér.

Fyrir hinn almenna launamann, fyrir launþegann í landinu gildir fyrst og síðast að treysta megi því að kjör hans batni varanlega og hann fái ekki bakslag. Það er það versta sem við gerum launamanni. Þess vegna er mjög hættulegt að toga upp gengið eins og raun ber vitni, hækka þannig kaupmáttinn umfram framleiðslugetu atvinnuveganna. Það gerðist enda hefur einkaneysla aukist mjög óeðlilega. Hún hefur aukist gríðarlega og meira en í nokkru öðru landi Vestur-Evrópu á síðustu árum. Það er því miður einkaneyslan sem stendur fyrst og fremst undir þessum halla. Það eru ekki fjárfestingar eins og kannski hefði verið æskilegra við þennan viðskiptahalla. Hann skýrist kannski að mörgu leyti af fjárfestingum en ekki nægjanlega. Þetta ógnar okkur í dag. Þetta er vandamál okkar í dag.

Við verðum að horfast í augu við að viðskiptahallinn minnkar ekki nema með því að breyta verðgildi krónunnar. Markaðurinn gerir það og hefði gert það strax fyrir tveimur árum og hálfu hefði Seðlabankinn ekki fiktað í vöxtunum. Fikta, segi ég því að þetta er bara fikt. Það var enginn grundvöllur fyrir þessum vaxtahækkunum. (Gripið fram í.) Seðlabanki Íslands er ráðgefandi stofnun. Það kann vel að vera að það sé meira mark tekið á þeim ráðgjöfum en sjónarmiðum einstakra þingmanna og við því er ekkert að segja. Hins vegar er mjög ankannalegt þegar einhver þessara aðalráðgjafa hættir störfum og er farinn að vinna annars staðar, að þá birtast þeir allt í einu í fjölmiðlum og fara að senda þinginu kveðju guðs og sína um ríkisfjármálin.

Ég ætla að halda því fram, herra forseti, að ríkisfjármál Íslands séu miðað við allar aðstæður mjög góð. Ég skal nefna tvennt til vitnis um það. Getur nokkur bent mér á annað ríki Vestur-Evrópu sem hefur bætt hag ríkisins meira en hið íslenska? Er það einhvers staðar annars staðar í Vestur-Evrópu sem hagur ríkisins er jafngóður og hér? Hefur nokkurri annarri þjóð í Vestur-Evrópu tekist að bæta hag ríkisins meira en okkur hefur tekist síðustu fimm ár? Ég veit ekki um neina einustu.

Í öðru lagi bendi ég á það að í sögulegu samhengi hefur staða íslenska ríkisins aldrei verið betri. Auðvitað er hægt að koma og segja eftir á: Það hefði átt að vera meiri afgangur. Það hefði átt að vera betri staða. Auðvitað hefði það verið betra fyrir Íslendinga hefði afkoman verið betri á síðustu fimm árum og við skilið meira eftir. Hver getur ekki tekið undir það? Auðvitað geta allir tekið undir það. En hvað var ríkið að gera? Ríkið var að semja fyrst og fremst við launþegasamtökin í landinu til að reyna að ná þar friði og fórnaði til þess gríðarlegu af tekjum sínum, taldi rétt að gera það til að fá samninga sem gætu verið í takti við greiðslugetu atvinnuveganna.

Eigi að síður skulu menn minnast þess að kauphækkanir á Íslandi síðustu árin hafi verið meiri en í samkeppnislöndum okkar. Þegar aðrar þjóðir hafa hækkað kaup sitt um 1% þá höfum við hækkað það um 2 og 3% og samkvæmt þeirri stærðfræði sem menn kjósa að nota hér, alla vega stjórnarandstaðan, þá er það 200--300% munur. Það sígur í fyrir íslenska atvinnuvegi þegar við, ár eftir ár, hækkum kaup meira en aðrar þjóðir. Þannig er staðan í dag og fróðlegt að heyra þegar stjórnarandstaðan kemur hér og segir: Það er slaki á ríkisfjármálunum. Það þarf að taka harðar á og kannski að grípa til óyndisúrræða.

Skoði menn, herra forseti, fjárlagafrv. sem liggur fyrir. Fletti menn upp á bls. 277. Ég bið menn að gera það, þar sem við greinum A-hlutann. Hvað stendur þar? Jú, í rekstrarkostnaðinum: Launakostnaður ríkisins upp á 62,7 milljarða, ef ég man rétt. Lífeyrissjóðirnir, 10% af því, 6,5 milljarða. Rekstrargjöldin eru samtals um 90 milljarðar. Það er launakostnaður í öðrum þáttum ríkisútgjaldanna. Það eru laun í rekstrar- og neyslutilfærslunum, verulegur kostnaður. Það eru mörg fyrirtæki og launin eru óbein inn í hina þættina tvo, viðhaldið og fjárfestinguna. Launin eru langstærsti liðurinn sem við fjöllum um ríkisfjármálin hér í dag. Laun. Allt annað er hégómi sem við erum að fjalla um nema launin. Launin ráða þessu öllu. Þau eru kannski 45% af heildarútgjöldum ríkisins.

[14:45]

Við skulum þá athuga viðhorfið, svo ég reyni að átta mig á vilja og viðhorfi stjórnarandstöðunnar til þeirra vandamála sem við er að glíma. Hvert er viðhorf stjórnarandstöðunnar til launamála? Hér hafa verið a.m.k. tvisvar síðustu tvær vikur utandagskrárumræður vegna þeirra verkfalla sem standa yfir í þjóðfélaginu. Ég hef reynt að hlusta á umræðuna. Stjórnarandstöðuþingmenn hafa komið upp hver eftir annan, átalið ríkisstjórnina harkalega fyrir að ljúka ekki við samninga við framhaldsskólakennara, talið það mjög mikinn vansa af hálfu ríkisvaldsins að vera ekki búnir að semja við framhaldsskólakennara. Þetta er sama fólkið, herra forseti, og er að ræða um að það sé slaki á ríkisfjármálunum, það þurfi eflaust að grípa til óyndisúrræða til þess að við komumst út úr þessu.

Hverjar eru kröfurnar? Hverjar eru kröfurnar sem eru settar upp við þessar aðstæður þegar þjóðartekjurnar hafa orðið fyrir þessum áföllum, þegar spáin um hagvöxt liggur fyrir að hefur lækkað verulega, hverjar eru kröfurnar? Jú, þeir sem riðu á vaðið, hið ágæta fólk, framhaldsskólakennarar, fóru með kröfur á milli 70 og 80%. Menn segja að það eigi ekki að taka það alvarlega, þeir meini eitthvað allt annað, bara kannski 40 eða 50, skipir þó ekki máli.

Allar starfsstéttir ríkisins hafa sagt lausum samningum sínum. Samningar eru lausir í dag, bæði BHM og BSRB. Ég tók eftir því í fréttum, ekki alls fyrir löngu, að einn hópurinn er þegar farinn að hita upp. Mig minnir að það hafi verið Félag leikskólakennara. Hann var nú ekki að fylgja félögum sínum sem kenna í framhaldsskólum eftir með einhverja 75% kauphækkun heldur fór bara fram á 100%. Það var krafan. Ég hugsaði með mér þegar ég hlustaði á þetta hvernig í ósköpunum standi á því að þetta fólk rekur ekki af sé slyðruorðið og kemur með eitthvað almennilegt eins og svona 1.000%, að vera að dudda við þetta 100%. Ég er að velta því fyrir mér. Mönnum þykir sjálfsagt að taka þessu með varfærni og vera kurteisir og ræða ekkert um þetta og menn koma svo aftur og aftur og segja: ,,Það á að semja. Það er vítavert af hálfu ríkisstjórnarinnar að semja ekki.``

Hins vegar erum við með samninga við Alþýðusamband Íslands. Gerðir voru samningar við Alþýðusamband Íslands í mars sem voru því miður kannski í efri kantinum. Við verðum kannski í vandræðum með það núna í febrúar að láta það standast. Samningar eru samt það sem talið er á Íslandi hógværar kauphækkanir þó þær þyki miklar erlendis.

Hvað segja menn um þetta? Hver er skoðun manna á þessu? Jú, stjórnarandstaðan kemur upp æ ofan í æ, heldur utandagskrárumræður og krefst þess að ríkisvaldið semji við þessa aðila. (Gripið fram í: Það er ekki við aðra að semja.) Það er ekki við aðra að semja. Það skyldi nú ekki vera? Hvernig ætla menn að koma saman fjármálum ríkisins og fjármálum samfélagsins við þessar aðstæður? Af hverju má ekki segja þetta beint út og opinberlega að þessar kröfur séu hreint rugl? Af hverju má ekki segja sannleikann í þessu að það er enginn grundvöllur til neinna kauphækkana á Íslandi, hvorki fyrir einn né neinn, alveg sama hvað hann heitir, hvort hann er röndóttur eða bröndóttur? Það verður að segja það, herra forseti. Það verður að tala hreint út um þetta, að við höfum enga getu til þess. Stjórnarandstaða sem vill vera ábyrg í ríkisfjármálum --- og það er þakkarvert og við skulum taka undir það með henni --- verður þá líka að vera sjálfri sér samkvæm þegar hún ræðir þessi grundvallaratriði sem eru launamál. Því án þess að þau séu í lagi liggur alveg fyrir að ef einhver hlustaði þó ekki væri á nema brot af þeim körfum sem uppi eru, yrðu ríkisfjármálin náttúrlega í hreinni rúst, ekki stæði steinn yfir steini.

Ég hélt að menn myndu þetta. Ég hélt að menn vissu þetta. Ég hélt að menn myndu að sú var tíðin ekki alls fyrir löngu að kaup Íslendinga hækkaði um ein 10.000%. Það var aldeilis fínt eða flott, herra forseti. Voru ekki allir rosalega hamingjusamir? 10.000% kauphækkun. Það hefur verið mikil hamingja. Að vísu fylgdu smávandræði þessari 10.000% kauphækkun, þau litlu vandræði að kaupmátturinn lækkaði en hækkaði ekki. Það var böggullinn sem fylgdi því skammrifi. Kannski hafa allir gleymt þessu. Vilja kannski fara í þetta aftur, 10.000%. Það er ekki lakara.

Ef einhver ætlast til þess í stjórnarandstöðunni að einhver taki þá alvarlega í því að þeir vilji vera ábyrgir í ríkisfjármálum og ábyrgir í fjármálum Íslendinga og efnahagsmálum hljótum við að krefja þá um það að ræða stóra liðinn, launin, því annars stendur ekki steinn yfir steini.

Ég las fyrir nokkrum dögum æviminningar þess merka manns, Steingríms Hermannssonar, fyrrv. forsrh. Þar segir hann frá því af þeirri hreinskilni, sem ég ætla að öðrum Íslendingum sé ekki töm, að hann hefur lent í því í forsætisráðherratíð sinni að setja bráðabirgðalög. Bráðabirgðalög til að nema úr gildi hvað? Jú, til að nema úr gildi launasamninga sem hver hefði gert? Jú, hann sjálfur og ríkisstjórn hans. Hvers vegna lenti aumingja Steingrímur í þessum voða? Jú, eins og hann segir réttilega frá í æviminningum sínum, vegna þess að samningarnir voru hreint bull og vitleysa en hann hafði það af að éta grautinn og æluna með og var meiri maður af. Er það þetta sem menn vilja endurtaka? Er það þetta sem menn vilja? Ég held að menn ættu að lesa æviminningar Steingríms. Þær eru holl lesning fyrir alla þá sem um þetta fjalla. Hann lenti í þessu. Hann bjargaði sér út úr þessu þó að hart væri að honum sótt og meðráðherrar hans sem sumir eru enn meðal vor og ætti þess vegna að vera auðvelt að rifja þetta upp. (Gripið fram í.) Ég er að rifja þetta upp vegna þess að ég held að við komumst ekkert áfram í umræðum um efnahagsmál öðruvísi en við gerum okkur grein fyrir því og reynum að stilla saman strengina til að segja þjóðinni það sem flestir vita mætavel. Undir þessum kringumstæðum er ekki neinn grundvöllur til kauphækkana í landinu. Verkefnið í efnahagsstjórninni liggur fyrir að reyna að verja þann kaupmátt sem er nú uppi. Við skulum vona að okkur takist það. En við skulum líka vera svo hreinskilin að segja þjóðinni satt og rétt frá því að það er ekki gefið miðað við verðlag á erlendum mörkuðum, miðað við það sem við ætlum að fiska og miðað við það sem við vitum um stöðu okkar út í frá. Við verðum að segja það eins og er.

Ef við drögum úr viðskiptahallanum gerist það með því að gengið sígur áfram. Ég ætla ekkert að segja til um það hver hin rétta staða gengisins er. Ég veit það ekki og ég veit líka að þeir í Seðlabankanum vita það ekki heldur. Markaðurinn einn mun ráða því. Hann mun segja til um það. Við getum ekkert annað og eigum ekki að gera annað en viðurkenna að hann segi satt og rétt um efnahagsstöðu Íslands. Ég ætla að vona að menn átti sig á því að tilburðir Seðlabanka okkar til að halda uppi hærri vöxtum til langframa en í umhverfinu standast ekki. Þegar öllu er á botninn hvolft, þegar við komum að aðalatriðinu þá snýst allt um samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, samkeppnishæfni þeirra miðað við aðra. Þar ræðst hvað þessi þjóð hefur á milli handanna og hvers hún má vænta í framtíðinni. Þess vegna er með ólíkindum, herra forseti, þegar hin ábyrga stjórnarandstaða, eins og hún vill kalla sig sjálf, telur sig geta komið með tillögur um 4.000 millj. kr. hækkun á sköttum en það á ekkert að koma nálægt almenningi því að það á bara að greiðast af einhverjum vondum hlutabréfaeigendum, að mér skilst, sem hafa sloppið undan sköttum. Við verðum að gæta þess mjög vel núna, herra forseti, og fátt er nauðsynlegra við efnahagsstjórnina á næstu missirum, mánuðum og árum en gæta þess umfram allt að starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja verði ekki síðra en í nágrannalöndum okkar, helst betra. Það er leiðin til þess að atvinnulífið geti staðið undir þeim kaupmætti sem alþýða manna, hinn almenni verkamaður, hinn almenni launamaður, fer að sjálfsögðu fram á. Hann mun halda áfram að gera eðlilegar kröfur til þess að fá hlutdeild í þessu þjóðarbúi. Við eigum að geta svarað þeim kröfum ef við gætum þess að standa vel að vígi gagnvart rekstrarumhverfi fyrirtækjanna. Þar á ég við að við getum gert það, ríkissjóður getur gert það, ríkissjóður á að lækka eignarskatta til að geta staðið frammi fyrir þeim vandamálum og ofhitun sem er í efnahagslífinu. Við eigum að lækka tekjuskatta fyrirtækja. Við skulum forða okkur frá því að ímynda okkur að við getum einangrað okkur í þessu landi þegar fjármagnsflutningar eru frjálsir um allan heim. Allar smáþjóðir hafa reynt þetta og fjallað um þetta síðustu tíu árin hvernig megi forðast að fjármagn flytjist úr landi. Niðurstaða allra er á einn veg: Það eru engin ráð önnur en að gera starfsumhverfi fyrirtækjanna sem best þannig að menn vilji hafa hér starfsemi sína, þannig að menn vilji hafa hér arðsemismiðstöð sína. Menn hafa í fullu tré við öll ríkisvöld í því. Þú breytir ekki, þú snýrð ekki til baka. Það er frjáls fjármagnsleið um heim allan og við Íslendingar tökum þátt í því og munum taka þátt í því áfram.

Þetta er nefnilega viðfangsefnið sem stjórnvöld standa frammi fyrir í dag. Við eigum eftir að ná sátt á vinnumarkaðnum. Við eigum eftir að ná þeirri sátt að sýna mönnum fram á að viðleitni okkar er einlæg til að reyna að halda núverandi kaupmætti. Viðleitni okkar er einlæg og þess vegna er svo mikilvægt að skilaboðin frá þinginu séu alveg skýr þannig að enginn geti misskilið þau. Ekki er möguleiki á því að hækka laun Íslendinga á því ári sem senn tekur við. Það er enginn möguleiki til þess. Ef við látum undan þeim þrýstingi verða erfiðleikar okkar líka þeim mun meiri og þeim mun erfiðari við að glíma. Við verðum að segja þetta og við verðum að þora að tala hreint út því að þjóðin á að minnsta kosti heimtingu á því að við séum mjög hreinskilnir og segjum það sem við vitum að er satt og rétt.

Þetta verður kannski ekkert mjög auðvelt. Enginn var að halda því fram. Enginn var að halda því fram að þetta yrði auðvelt. Það fjárlagafrv., herra forseti, sem hér liggur fyrir er að flestu leyti mjög eðlilegt miðað við það efnahagsástand og þær tillögur sem hér hafa verið lagðar fram af meiri hluta fjárln. Þetta eru tillögur sem munu stuðla að því að bæta þetta land í lengd og bráð, bæta þetta land eins og við eigum kost á. Það eru fjárfestingar sem munu skila sér bæði fljótt og vera til frambúðar. En þær eru líka því marki brenndar, eins og ég benti á í upphafi, að þær hafa ekki í för með sér rekstrarkostnaðaraukningu fyrir ríkið. Það er það sem við verðum að gæta að og passa okkur á hvenær sem er að við megum ekki bæta við þetta bákn sem við erum því miður þó alltaf að gera þrátt fyrir góðan vilja. En þessar tillögur meiri hlutans eru ekki þannig. Þetta eru styrkir til menningarverkefna, styrkir til einstaklinga, sveitarfélaga, félagasamtaka sem hafa skarað fram úr og sýnt fram á að þau eru að gera mjög góða hluti sem varða allt þetta land. Þess vegna viljum við styrkja það og teljum rétt og skylt að ríkisstjórnin geri það, ríkið og ríkisfjármálin geri það nú um stundir. Það er líka þess eðlis að ef til þess þarf að grípa að tekjur ríkisins dragast saman, þá er líka mjög auðvelt að gera það. Við skulum átta og okkur á því og er rétt að ég fari yfir það að ef viðskiptahallinn minnkar, ef okkur tekst að minnka viðskiptahallann, þ.e. með því að draga úr kaupmætti --- við skulum bara orða það alveg beint --- þá minnka líka tekjur ríkissjóðs. Það er líka gott. Það er ekkert takmark í sjálfu sér að ríkissjóður sé að safna inn peningum í stórum fúlgum, alls ekki og hefur aldrei verið takmarkið. En það er rétt að gera það þegar svo árar vegna þess að ekki veitir af að eiga þá borð fyrir báru þegar þannig blæs að það þarf á því að halda að ríkið geti veitt atvinnulífinu verulegan stuðning eins og oft gerist, eins og saga Íslands sýnir fram á, eins og þegar saga efnahagslífsins í öllum ríkjum Vestur-Evrópu hefur svo oft og tíðum sýnt fram á og ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn er þá reiðubúinn til að gera það því að það er alls ekkert keppikefli og alls ekki hluti af hagstjórninni að safna alltaf óskaplegum fjármunum, langt í frá.

Ríkisfjármálin eru, herra forseti, að mínum dómi tiltölulega mjög traust og eiga að standast. Hvað ætlar þessi þjóð að skenkja sér í laun? Ég skora á stjórnarandstöðuna ef það er sem hún vill vera láta að hún hafi heilbrigða sýn á ríkisfjármálin og vilji vera ábyrg í ríkisfjármálum, ég skora á hana að tala hreint út og þora að segja Íslendingum nákvæmlega til um að ekki er neinn möguleiki á því að bæta kjör manna núna. Þeim mun meira munu þau versna því meira sem við hækkum kaupið. Besta lausnin í þessari stöðu og eina ásættanlega er að menn átti sig á því að það er ekkert að semja um, engar kauphækkanir.