Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 15:02:12 (2464)

2000-11-30 15:02:12# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[15:02]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil sérstaklega vekja athygli þingheims og almennings á því að hér talaði varaformaður fjárln. og talsmaður Sjálfstfl. í efnahags- og fjármálum ríkisins. Eitthvert umboð hlýtur hann að hafa haft til að halda þessa makalausu ræðu. Eða er hann bara að vafra hér umboðslaus? Maður gæti haldið það, svo óskapleg voru ummæli hans.

En hann minntist ekki á eitt sem mig langar að spyrja hann að. Hann nefndi það ekki hvort hann er fylgjandi því að selja eignir úr landi til að létta á þessum viðskiptahalla. Vill hann selja Landssímann til Bandaríkjanna eða til Danmerkur, Afríku eða annars staðar þar sem einhver vill kaupa?