Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 15:03:41 (2465)

2000-11-30 15:03:41# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[15:03]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef alltaf litið þannig á að andsvör væru ekki beint til að leggja fyrir spurningar svona út og suður um hitt og þetta, um hvað þeir vildu selja til Afríku eða hvað þeir vildu gera. Ég vil hins vegar spyrja hv. þm.: Hvað var svona óskaplegt við ræðu mína? Eru menn sem vanalega koma hér upp í púltið yfirleitt flaggandi einhverjum umboðum? Ég hef ekki vitað til þess að menn væru spurðir að því hingað til. Mér þætti fróðlegt að vita hvað andmælandinn hefur um ræðuna að segja. Hvað var svona voðalegt við þessa ræðu? Hví var hún svona skelfileg?