Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 16:19:55 (2482)

2000-11-30 16:19:55# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[16:19]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla S. Einarssyni fyrir mjög málefnalega ræðu. Hann koma víða við í máli sínu og talaði um öryrkja og ellilífeyrisþega. Við erum sammála um að mjög mismunandi kjör eru hjá þessu fólki og það á að koma til móts við þá sem minnst hafa. Í minni tíð höfum við verið að auka t.d. endurgreiðslukerfið varðandi lyf og læknisþjónustu einmitt til þeirra sem minnst hafa. Það var með fyrstu verkum mínum í ráðherrastól að koma til móts við þá sem þurfa á fúkalyfjum að halda, því þau voru tekin úr greiðslu í tíð Alþfl. en því var sérstaklega breytt í tíð minni varðandi endurgreiðslur til þeirra sem eru mjög tekjulágir.

Ég vil líka minna á að við höfum verið að lækka þjónustugjöld. Nú ætla ég að biðja hv. þm. að taka eftir, við höfum verið að lækka þjónustugjöld. Í tíð Alþfl., í ráðuneyti heilbrigðismála, var svokölluðum ferliverkum komið á. Og ferliverkin voru þannig að sjúklingur gat borgað allt upp í 25.000--30.000 kr. fyrir eina aðgerð. Þetta höfum við lækkað niður í 5.000 kr., hv. þm.

Ég ætla einmitt að koma inn á lyfin sem hv. þm. talaði um. Vísitala lyfja hefur lækkað. Og af því hv. þm. kom líka inn á öryrkja og ökutækjastyrki, þá hækkuðum við í haust ökutækjastyrki verulega og við breyttum einnig reglugerð um bílana í fyrra þar sem öryrkjar sem eru að fá bíla í fyrsta skipti fá miklu hærri upphæð greidda en nokkru sinni fyrr. Áður var hámarkið í kringum 500.000, en það fór upp í 1.000.000 fyrir öryrkja sem er að fá bíl í fyrsta skipti.

Ég vildi að þetta kæmi fram. En við vorum sammála í meginatriðum um að koma til móts við þá sem minnst hafa.