Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 16:27:59 (2486)

2000-11-30 16:27:59# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[16:27]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Austurl., formaður fjárln., Jón Kristjánsson, hefur gert ítarlega grein fyrir tillögum meiri hluta fjárln. og þeim forsendum sem þar liggja að baki. Það er í raun óþarfi að fara yfir þær aftur. Hv. þm. hefur stýrt starfi nefndarinnar með miklum ágætum og vil ég þakka fyrir það starf.

Óhætt er að segja að byltingarkenndar breytingar hafa átt sér stað bæði í efnahagsmálum og atvinnumálum í stjórnartíð Framsfl. og Sjálfstfl. frá árinu 1995. Áður reið atvinnuleysisvofan yfir, vonleysi ríkti í samfélaginu og fyrirtæki og fjölskyldur römbuðu á barmi gjaldþrots. Hagvöxtur var í sögulegu lágmarki en í stjórnartíð Framsfl. og Sjálfstfl. hefur hagvöxtur verið að meðaltali u.þ.b. 4,5% sem er hærra en í flestum OECD-löndum. Atvinnuleysi hefur farið úr liðlega 5% niður í 1% og allar vinnufúsar hendur hafa nú atvinnu. Kaupmáttur hefur stóraukist og enginn minnist lengur á kosningaloforð Framsfl. um 12.000 störf fyrir aldamót enda urðu þau störf 15.000.

Við framsóknarmenn höfum í rauninni staðið við fyrirheit okkar í fjárlagatillögum um að verja 1 milljarði til fíkniefnavarna á kjörtímabilinu, í annað skiptið sem við leggjum fram fjárlagatillögur á þessu kjörtímabili, þannig að óhætt er að segja að við höfum staðið við þau loforð.

[16:30]

Fjárln. hefur fjallað um frv. til fjárlaga frá 1. umr., en útgjöld milli umræðna hafa aukist um 3,7 milljarða, þ.e. 3 milljarða sem koma í beinum tillögum frá ríkisstjórn og um 700 millj. sem eru tillögur fjárln. Að baki liggur í raun mikið starf, miklu meira starf en fólk gerir sér grein fyrir. Við hittum fólk alls staðar að af landinu og má í raun segja að fjárln. hafi býsna mikla yfirsýn yfir það sem er að gerast vítt og breitt um landið.

Vinnan verður æ faglegri með nýrri tækni og nýjum vinnubrögðum og það er vert að þakka starfsmönnum Alþingis fyrir frábært starf í þessum efnum. Fyrir bragðið gengur vinnan hraðar og ég hygg að sjaldan hafi umræðan farið fram jafnsnemma og einmitt nú.

Fjárln. setur alltaf sitt mark á fjárlögin þó grundvallarramminn komi frá fjmrh. í nafni ríkisstjórnarinnar. Frá árinu 1995 höfum við ávallt beitt okkur fyrir ákveðnum verkefnum. Þar má t.d. nefna jöfnun námskostnaðar, niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar á köldum svæðum, fjarkennslu, fíkniefnavarnir, styrki til verkefna sem tengjast menningartengdri ferðamennsku, landshlutabundin skógræktarverkefni og margt fleira mætti telja.

Öll þessi verkefni tengjast landsbyggðinni og hafa mjög mikið að segja varðandi búsetu í landinu. En auðvitað snerta fjárlögin einnig þéttbýlið. Við eigum að kappkosta að tengja saman þéttbýli og dreifbýli. Við eigum að vera ein þjóð í einu landi.

Samkeppnin um búsetu er ekki einungis milli landsbyggðar og höfuðborgarinnar, heldur Íslands og útlanda. Ungir vel menntaðir Íslendingar hugsa gjarnan mjög út fyrir landsteinana. Þess vegna þurfum við að skapa og vera samkeppnisfær við útlönd á sem allra flestum sviðum. Það á við um efnahagsmál. Það á við um menntamál. Það á við um samfélagsþjónustu og margt fleira.

Í ríkisstjórnartillögunum munar mest um tekjuskiptalögin þar sem sveitarfélögin fá um 1,8 milljarða í sinn hlut sem leiðir m.a. til þess að fasteignagjöld á landsbyggðinni lækka. Álagningarstofn fasteignagjalda hefur verið mjög ósanngjarn á landsbyggðinni. Hann verður nú leiðréttur.

Það er dálítið sérkennilegt þegar við skoðum tillögur stjórnarandstöðunnar um verulegar skattahækkanir að þeir hafa barist mjög gegn því að sveitarfélögin hafi möguleika á því að hækka útsvar árið 2002 og ræddu það hér margsinnis meðan við fjölluðum um tekjuskiptalögin. En í dag aftur á móti leggja þeir fram tillögur um stórauknar skattahækkanir. Það er því ákveðinn tvískinnungur í þessum málum.

Ég vildi gjarnan sjá samning á hverju ári um tekjuskipti ríkis og sveitarfélaga og ég hyggst leggja fram tillögur í þeim efnum á þessu þingi. Slíkt samkomulag er t.d. gert við fjárlagagerð í Austurríki og víðar því það er í raun og veru óþolandi að á hverju ári skuli koma upp misklíð milli ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar um tekjuskipti.

Ég ætla nú að víkja að málefnum sem fjárln. hefur beitt sér sérstaklega fyrir í þessari fjárlagagerð og reyndar á síðustu árum. Fyrst vil ég nefna jöfnun námskostnaðar. Það má í raun segja að í þessum málaflokki hafi orðið bylting frá árinu 1995. Það hefur mjög mikið að segja fyrir íbúa dreifbýlisins að auka fjármagn til jöfnunar námskostnaðar og getur skipt sköpum fyrir unglinga í dreifbýli að fá þennan svokallaða dreifbýlisstyrk. Ég hef setið í nefnd á vegum hæstv. menntmrh. um jöfnun námskostnaðar. Fyrirhugað er að rýmka eilítið reglurnar í þessu sambandi þannig að við stýrum ekki endilega í hvaða skóla nemendur fara. Einnig þarf að kappkosta að koma í veg fyrir að fólk geti skipt um heimilisfang og í raun leikið á kerfið og það er verið að vinna að úrbótum í þessum efnum.

Í öðru lagi vil ég nefna jöfnun húshitunarkostnaðar. Við höfum beitt okkur mjög fyrir niðurgreiðslu á rafmagni til húshitunar á köldum svæðum. Spurningin er um aðferðafræði í þessum efnum. Mér finnst stundum í þessum þingsölum eins og stjórnarandstæðingar hafi ekki áttað sig á því að þarna er um verulegar niðurgreiðslur að ræða. Það er spurning hvort sé betri leið að þessar niðurgreiðslur kæmu fram á innheimtuseðlum þegar er verið að rukka fyrir rafmagn eða með því hreinlega að senda því fólki sem fær niðurgreiðslurnar ávísanir heim þannig að það sjái bókstaflega í hverju niðurgreiðslurnar eru fólgnar.

Nú er í bígerð að koma til móts við dýrustu hitaveitur landsins vegna þess að með þessum niðurgreiðslum hefur komið í ljós að nokkrar hitaveitur í landinu orðnar dýrari en rafveiturnar þar sem um niðurgreitt rafmagn er að ræða.

Í þriðja lagi vil ég nefna fjarkennslu sem færist mjög í vöxt hér á landi sem og erlendis. Fjárln. hefur beitt sér fyrir aukinni fjarvinnslu í landinu og þau mál munu verða tekin fyrir á milli 2. og 3. umr. Nú stunda t.d. um 125 nemendur fjarnám við Háskólann á Akureyri. Yfir 500 nemendur stunda fjarnám við Kennaraháskóla Íslands og við Viðskiptaháskólann í Bifröst er boðið upp á framhaldsnám í fjarkennslu þannig að mjög margir skólar hér á landi bjóða upp á fjarkennslu. Ég veit líka til þess að Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri býður bændum upp á fjarkennslu svo dæmi séu nefnd. Fræðslunetin víða um land bjóða upp á fjölbreytt nám í fjarkennslu og t.d. stendur til að bjóða upp á hjúkrunarnám við fræðslunet Suðurlands á næsta ári.

Í fjórða lagi vil ég nefna fíkniefnavarnir. Á þessu kjörtímabili sem enn er ekki hálfnað höfum við varið yfir 1 milljarði í þennan málaflokk. En það voru einmitt áform Framsfl. að segja sölumönnum dauðans stríð á hendur. Við höfum þokast áfram í þeim áformum okkar. A.m.k. höfum við staðið við þessi loforð okkar og stjórnarandstaðan er einnig hætt að rukka okkur um þetta kosningaloforð.

Talið er að fíkniefni og fíkniefnaneysla sé ein mesta ógn næstu aldar og þess vegna verðum við að kappkosta við að ráðast að rótum vandans og við verðum að gera enn betur en við gerum nú.

Í fimmta lagi vil ég nefna landshlutabundin skógræktarverkefni. Milli umræðna höfum við tekið mjög hressilega á í þessum málaflokki. Árið 1991 voru samþykkt lög um Héraðsskóga. Árið 1997 voru samþykkt lög um Suðurlandsskóga og á síðasta ári voru samþykkt lög um önnur landshlutabundin skógræktarverkefni. Þessi verkefni hafa haft gríðarleg áhrif í dreifbýlinu, þetta eru jákvæð verkefni og tengja saman íbúa þéttbýlis og dreifbýlis.

Nú er svo komið að á Suðurlandi taka yfir 200 bújarðir þátt í þessum verkefnum. Það er mjög gaman að fylgja með áhuga fólksins. Það er gaman að fylgjast með félögum skógarbænda sem hafa verið stofnuð vítt og breitt um landið.

Auðvitað hafa einstaka sérvitringar horn í síðu þessara verkefna. Alltaf eru til menn sem geta fundið eitthvað neikvætt við hvert og eitt verkefni. Á dögunum heyrði ég t.d. að ágætur vísindamaður var að fjalla um að jarðyglan hefði komið með þessum skógræktarverkefnum og sjálfsagt er það hárrétt hjá honum. Á móti getum við sagt að grasmaðkurinn kom auðvitað þegar menn fóru að rækta tún. Við getum því alltaf fundið eitthvað neikvætt í sérhverju verkefni. En landshlutabundnu skógræktarverkefnin hafa gríðarlega mikið að segja fyrir landsbyggðina og nú er svo komið að við erum farin að nýta íslenskan við í byggingariðnaði.

Í sjötta lagi vil ég nefna málaflokk sem kallast fyrirhleðslumál. Fjárln. hefur tekið á þessum málaflokki. Það er óþolandi að horfa upp á gróið land brotna niður og okkur ber að kappkosta að leggja meiri peninga í þennan málaflokk. Landgræðslan fæst einnig við spennandi verkefni sem kallast Bændur græða landið. Í þetta verkefni leggjum við aukið fé með tillögum okkar.

Í sjöunda lagi vil ég nefna menningartengda ferðamennsku. Komið hefur í ljós að yfir 300 þús. ferðamenn hafa komið til landsins nú á þessu ári sem er nýtt met. Styrkir til ýmissa menningartengdra verkefna hafa stundum af neikvæðum aðilum verið kölluð gæluverkefni. En styrkir þessir skipta sköpum við uppbyggingu ýmissa verkefna. Ég nefni dæmi um Vesturfarasafnið á Hofsósi, Sögusetrið á Hvolsvelli, Stríðsminjasafn á Reyðarfirði, Síldarminjasafn á Siglufirði, Samgöngusafn Íslands við Byggðasafnið að Skógum, Geysisstofu í Haukadal, Jöklasafn á Höfn í Hornafirði, Galdrasýningar á Ströndum o.s.frv. Það hefur líka verið kappkostað að dreifa þessum verkefnum sem allra mest um landið og fjárframlög eru í raun lífsnauðsynleg fyrir þessi verkefni.

Í áttunda lagi vil ég nefna að fjárln. hefur beitt sér fyrir verndun gamalla húsa, ekki einungis með því að verja peningum til Húsafriðunarsjóðs, heldur í ákveðin verkefni. Sem dæmi má nefna um slík verkefni Brydebúð í Vík í Mýrdal sem er gamalt verslunarhús og í raun að verða menningarmiðstöð í Vík. Ég nefni Duushús í Reykjanesbæ, en það hús er fyrirhugað að gera að menningarsetri í Reykjanesbæ. Ég nefni Faktorshúsið á Ísafirði, Kaupvangshúsið á Vopnafirði og fleiri dæmi gæti ég nefnt.

Við erum einnig með þessum fjárlögum að leggja fé í mjög marga mikilvæga málaflokka. Ég nefni barnabætur. Það var einnig eitt af því sem Framsfl. barðist fyrir og var eitt af stefnumálum okkar í síðustu kosningum. Ég nefni vaxtabætur. Ég nefni peninga til sjúkraflugs. Ég nefni peninga til æskulýðs- og íþróttamála og til fjölmargra félaga og líknarsamstaka. Styrkir sem þessir skipta félagasamtök gríðarlega miklu máli.

Herra forseti. Ég hef einungis bent á fáein verkefni sem ríkisstjórnin og fjárln. hafa verið að beita sér fyrir. Eins og ég sagði áðan er kappkostað að dreifa peningum í verkefni sem allra víðast á landsbyggðinni og reyndar á höfuðborgarsvæðinu.

Ég gleðst mjög yfir áformum heilbrrh. um uppbyggingu sjúkrahúss Suðurlands á Selfossi. Til uppbyggingar hjúkrunarheimilis og heilsugæslustöðvar þar er fyrirhugað að verja 50 millj. kr., en heildarkostnaður við það verkefni er um 500--600 millj. Hér er um afar brýna og nauðsynlega framkvæmd að ræða.

Einnig gleðst ég yfir þeim breytingum og endurbótum sem unnið er að við Sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum. Í þessum tillögum er gert ráð fyrir 30 millj. kr. framlagi, en heildarkostnaður við það verkefni er um 150 millj. Það stendur til að breyta deildaskiptingu, laga og endurbæta Sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum sem er líka brýnt verkefni.

Við 3. umr. ræðum við síðan um heilbrigðisstofnanir. Þá ræðum við einnig um Byggðastofnun og tökum fyrir tekjuþátt fjárlagafrv.

Í stórum dráttum er ég ánægður með þessi fjárlög. Þau verða til góðs fyrir land og þjóð.