Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 17:49:47 (2492)

2000-11-30 17:49:47# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[17:49]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sannarlega rétt sem kom fram í yfirgripsmikilli ræðu hv. 1. þm. Suðurl. að það sem við sjáum í brtt. meiri hluta fjárln. varðandi ýmis söfn og menningarviðfangsefni, sem flest eru á landsbyggðinni, er vel gert. Ég hika ekki við og hef oft komið í þennan ágæta ræðustól til að gagnrýna ýmislegt í byggðastefnu stjórnvalda þar sem mér finnst lítið hafa verið gert, en verð ég að segja alveg eins og er að mér sýnist töluvert vera gert í þessum málum. Það er sannarlega svo að varðveisla gamalla skipa eða fara og varðveisla hinna gömlu minja sem íslensk þjóð byggðist á tekur í og kostar mikla peninga.

Eitt safn sem ég þekki ákaflega vel og mér er ákaflega kært er Síldarminjasafnið á Siglufirði sem tókst að varðveita á síðustu stundu þegar áhugamenn komu að því. Nokkrum árum áður stóð jafnvel til að setja jarðýtur á það húsarusl, eins og menn orðuðu það en sem betur fer tókst að breyta því. Þessi félagsskapur gekk á fund fjárln. og kynnti drög sín en hafði þá ekki tilbúnar fjárhagsáætlanir. Nú er þær tilbúnar er mér kunnugt um og þær hljóða upp á byggingu næsta áfanga upp á tæpar 70 millj. en hér er þeim aðeins ætlaðar 6 millj. sem er að vísu sama tala og þeir óskuðu eftir en ég ítreka að þá voru þær tillögur ekki til.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þm. sem svo vel hefur farið gegnum þetta mál hvort hann teldi ekki að ástæða væri til milli 2. og 3. umr. að við mundum skoða það að hækka þetta framlag til að þetta verkefni megi takast. Ég minni á að árið 2003 verður ansi sögulegt, herra forseti, í Íslandssögunni því að þá verða 100 ár liðin frá því að Íslendingar hófu síldveiðar.