Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 17:56:45 (2496)

2000-11-30 17:56:45# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[17:56]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Við ræðum í dag um fjárlagafrv. við 2. umr. tíu dögum fyrr en við gerðum í fyrra. Þetta sýnir að vinnan við fjárlagafrv. hefur gengið alveg óvenjuvel. Ber að þakka öllum þeim sem komu að þeirri vinnu, þingmönnum og starfsmönnum Alþingis og ráðuneyta.

Verkinu er þó fjarri því að vera lokið. 3. umr. er enn eftir og mikið verk er eftir varðandi tillögugerð fyrir þá umræðu. Það á eftir að ræða tekjuhliðina og er það afar mikilvægt og auk þess heilbrigðisstofnanir og ýmsar stofnanir í B- og C-hluta og svo auðvitað 7. gr. B-hluta stofnanir eru óræddar, þar á meðal Byggðastofnun. Einnig eru óræddir ýmsir þættir byggðaáætlunar svo sem jöfnun húshitunarkostnaðar og fjarnám á landsbyggðinni. Ég sit í nefnd sem fjallar um niðurgreiðslur til húshitunar og er henni ætlað að útfæra þær áherslur sem koma fram í byggðaáætluninni sem samþykkt var á Alþingi í mars 1999. Ég ætla að lesa upp það ákvæði er snýr að jöfnun lífskjara en það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Áfram verði unnið að því að lækka kostnað við hitun íbúðarhúsnæðis. Verð á orku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði á næstu þremur árum fært til samræmis við meðaldýrar hitaveitur með aukinni þátttöku Landsvirkjunar og ríkissjóðs. Heimilt verði að nýta fé sem ætlað er til niðurgreiðslu rafhitunar í fimm ár til þess að lækka stofnkostnað nýrra hitaveitna og stuðla þannig að aukinni notkun á jarðvarma til húshitunar. Áhersla verði lögð á að upplýsa þá sem nota mikla orku til að hita hús sín um leiðir til að draga úr orkunotkun, meðal annars með fræðslu og ráðgjöf.``

Skemmst er frá því að segja að mikill árangur hefur náðst varðandi jöfnun húshitunarkostnaðar. Á fjárlögum eru sérstök framlög til hitaveitna á köldum svæðum. Iðnrh. hefur auk þess sett reglur um úthlutun styrkja til lagningar nýrra hitaveitna á svæðum sem njóta niðurgreiðslu á rafmagni til húshitunar. Rafhitun hefur verið niðurgreidd um árabil en niðurgreiðsla var aukin á árinu 1999 til að ná því markmiði að hvergi verði dýrara að kynda með rafhitun en sem nemur kostnaði við að kynda með meðaldýrum hitaveitum.

Á árinu 1999 fóru 600 millj. kr. til þessarar niðurgreiðslu en samkvæmt núgildandi fjárlögum fyrir árið 2000 er varið 760 millj. kr. til þessa verkefnis en reiknað er með að 870 millj. kr. þurfi til verkefnisins árið 2000 þannig að markmiðum þess verði fullnáð. Miðað er við að þessar áherslur verði að fullu komnar inn við 3. umr.

[18:00]

Hvað erum við að tala um þarna, hæstv. forseti? Við erum að tala um að kostnaður þeirrar fjölskyldu sem notar 35--36 þús. kwst. á ári til húshitunar verði í kringum 6 þús. kr. á mánuði við að hita upp þetta meðalhús sem talið er vera. Þetta er það markmið sem við erum að reyna að ná og teljum að allir séu orðnir nokkuð jafnsettir hvað þetta varðar. Ljóst er að fólk velur sér mismunandi hitastig í húsum, fólk hefur mismunandi stór hús þannig að við erum ekki að tala um að þessi tala nái yfir alla heldur að þetta verði nokkurn veginn meðaltalið. (KLM: Hvað með hitaveituhúsin?)

Það er alveg ljóst eins og ég las upp úr í byggðaáætluninni, hæstv. forseti, og er þá að bregðast við frammíkalli, að gert er ráð fyrir því eins og textinn er í þingsályktuninni að verið sé að tala um niðurgreiðslu til rafhitunar. Hins vegar var sett á stofn nefnd sem m.a. hv. þm. Kristján L. Möller, sem kallaði hér fram í, átti sæti í. Nefndin var sett á stofn til að fjalla um byggðamál og fást við breytingar sem yrðu í tengslum við breytingu á kjördæmaskipan og setja fram tillögu varðandi það og starfsaðstöðu þingmanna í breyttum og stærri kjördæmum, eins og segir á forsíðu skýrslunnar, en þar er textinn þessi:

,,Húshitnarkostnaður verður lækkaður í jöfnum áföngum á næstu þremur árum þannig að hann verði hvergi meiri en hjá meðaldýrum hitaveitum.``

Bæði þessi texti og sá texti sem er í byggðaáætluninni lýsir því markmiði okkar að húshitunarkostnaður verði jafnaður á landinu. Hins vegar er alveg ljóst að það verður ekki einfalt hvað varðar hitaveiturnar. Fyrir liggur að heilmikið starf þarf að vinna til þess að ná niðurstöðu um það efni. Það starf, eins og ég sagði áðan, er í fullum gangi og væntanlegar niðurstöður úr því nefndarstarfi.

Hæstv. forseti. Áfram skal haldið og ég vil þá segja það varðandi menntun og menningarstarf að það sem stjórnvöld hafa verið að gera á undanförnum árum er að auka framlög til háskólamenntunar og rannsóknarstarfsemi. Það hafa verið aðaláhersluatriði stjórnarmeirihlutans undanfarin ár og því er enn haldið áfram. Við eigum eftir að komast að niðurstöðu um hvernig við stöndum að háskólamenntun á landsbyggðinni. Í byggðaáætlun er lögð sérstök áhersla á háskólamenntun á Vestfjörðum og Austurlandi. Áhugaefni okkar sem þingmanna er að við stöndum við þau fyrirheit sem gefin eru í byggðaáætlun og að við gerum það með sem vitrænustum og skynsamlegustum hætti þannig að það nýtist nemendum á landsbyggðinni og að verkefnið hafi byggðaleg áhrif.

Tillögur meiri hluta fjárln. við 2. umr. fjárlaga sýna framsækni í byggðamálum í þeim hluta sem skiptir ekki minnstu máli en það eru menningarmálin og menntamálin varðandi framlög til stofnkostnaðar framhaldsskóla. Í tillögum meiri hlutans er verið að byggja upp framhaldsskólastarfsemi á Norðurlandi vestra, í Verkmenntaskólanum á Akureyri þar sem er verið að huga að heimilisfræði, handavinnu og rafiðnaðargreinum en til stofnkostnaðar við það verkefni eru 50 millj. kr. í tillögu meiri hlutans.

Í Menntaskólanum á Egilsstöðum er einnig hafinn undirbúningur við viðbyggingu og til þess ætlaðar 5 millj. kr. Í framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu hefur orðið til samningur um nýtt húsnæði og til þess verkefnis eru ætlaðar 38 millj. kr. Haldið er áfram við Menntaskólann á Laugarvatni þar sem er gert ráð fyrir 30 millj. kr. og Fjölbrautaskólans á Suðurlandi þar sem eru ætlaðar 7 millj. kr.

Menningarstarfsemi er mjög atvinnuskapandi í sínum ýmsu myndum og þarf ekki annað en að líta til þess hversu margir starfa við menningarmál á höfuðborgarsvæðinu til að sjá hve stóran hluta vinnumarkaðarins er hér um að ræða.

Ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem vex hvað hraðast hér á landi um þessar mundir, menningartengd ferðaþjónusta á þar stóran þátt. Þess sjást nú ánægjuleg merki í tillögu meiri hluta fjárln. að þar á bæ höfum við góðan skilning á þessu. Þetta á bæði við um framlög til safna, endurbyggingar gamalla húsa, framlög til einstakra sýninga og listviðburða. Hv. þm. Árni Johnsen fór mjög nákvæmlega yfir þær tillögur og hefur gert þeim tillögum sérstaklega góð skil í ræðu sinni næst á undan mér.

Við stjórnarþingmenn höfum legið undir ámæli vegna þess að ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki hafa ekki sinnt því af nógu miklum krafti að flytja verkefni út á land. Sem betur fer eru ánægjuleg dæmi um að það hefur verið gert og stundum með sérstökum tilstyrk frá Alþingi þegar um sérstök og ný verkefni er að ræða. Ég nefni í því sambandi fjárveitingar til að skrá upplýsingar í gagnagrunn Þjóðminjasafnsins, Sarp. Það verkefni er unnið hjá fyrirtækinu Landvist á Húsavík og það verkefni hefur tekist sérstaklega vel.

En með því sem við erum að segja um verkefnatilflutning út á land og að opinberar stofnanir geti unnið ákveðin verk úti á landi erum við eingöngu að tala um tilfærslur, við erum ekki að tala um hækkanir á fjárframlögum. Þá eigum við að flytja þau verkefni sem eru þess eðlis að hægt er að vinna þau hvar sem er án tillits til staðsetningar.

Í þeirri miklu spennu sem ríkir nú á vinnumarkaði höfuðborgarsvæðinu mætti ætla að forstöðumenn ríkisstofnana væru glaðir að koma hluta starfsemi sinnar á þá staði þar sem minni spenna er á vinnumarkaði, öruggara vinnuafl og ódýrari húsnæðiskostnaður. Því miður höfum við verið að upplifa annað ástand hvað varðar ríkisfyrirtæki. Þau keppast mörg hver við að komast á dýrasta stað í Reykjavíkurborg og keppast þar um vinnuafl sem er því miður ekki til.

Ég get ekki skilgreint ástæðu þessa hugsunarháttar embættismanna og ríkisforstjóra en ég vil hins vegar vitna til reynslu Kaupþings sem flutti hluta starfsemi sinnar til Siglufjarðar með bein hagnaðarsjónarmið í huga. Skemmst er frá því að segja að reynsla þeirra er frábær og þeir íhuga nú að flytja enn fleiri verkefni til Siglufjarðar vegna þess að þeir græða á því.

Nú hlýtur maður að velta því fyrir sér af hverju ríkisfyrirtæki vilja ekki græða. Rekstur ríkisfyrirtækja gæti verið ódýrari. Sá sparnaður sem yrði til við það að flytja einstök verkefni til landsbyggðarinnar gæti nýst til aukinnar starfsemi á vegum þess ríkisaðila sem það gerir, sem gæti þá sýnt meiri árangur af starfseminni. Ljóst er að nauðsynlegt er að stokka upp í hugsanagangi rekstraraðila ríkisstofnana.

Ég vil vitna í orð Hafliða Kristjánssonar frá Kaupþingi sem hann viðhafði á atvinnumálaráðstefnu á Akureyri um síðustu helgi en það hafði einmitt verið bent á að flestir íslensku bankanna hefðu sameinað bankavinnslu sína að verulegum hluta en að þeir hefðu gert það á Reykjavíkursvæðinu og aðallega í miðborginni þar sem húsnæði var dýrt en vinnuafl óstöðugt. Þetta var reynsla sem menn þekktu ekki erlendis frá og þess vegna var farið að íhuga hvernig stæði á því og hvort Kaupþing gæti þá ekki gert betur. Spurt var hvort ekki væri nær að flytja bankavinnslu í önnur byggðarlög þar sem þegar væri fyrir hendi ódýrara húsnæði og vinnukraftur væri stöðugur.

Í þessari umræðu voru það Siglfirðingar sem áttuðu sig á þessu atriði og leituðu til Kaupþings og er skemmst frá því að segja að þessi verkefni voru flutt norður á Siglufjörð. Ég vil vitna beint í orð Hafliða Kristjánssonar, en hann segir:

,,Talsverð hagkvæmni hefur náðst út úr því að flytja gagnavinnsluna. Húsnæði er til muna ódýrara en í Reykjavík og betri nýting fæst á fastakostnaði. Hjá Kaupþingi störfuðu áður sex manns við það að skrá iðgjöld fyrir lífeyrissjóði í vörslu fyrirtækisins án þess að almennilega næðist utan um þennan þátt rekstrarins. Á Siglufirði starfa í dag sjö manns og starfsemin er eins og best verður á kosið þrátt fyrir að færslufjöldinn hafi þrefaldast á tímabilinu og að Siglfirðingar séu farnir að stemma iðgjöldin af við bókhald og því farnir að vinna bæði í lífeyriskerfi og bókhaldskerfi Kaupþings. Við erum nú að hugleiða í ljósi góðrar reynslu að flytja fleiri þætti til Siglufjarðar, svo sem útborgun lífeyrisgreiðslna og nýskráningu.``

Þetta voru orð Kaupþingsmannsins Hafliða Kristjánssonar. Ég held að í fjárlagaundirbúningi framtíðarinnar verði óhjákvæmilegt að kalla eftir því við stofnanir að þær leiti hagkvæmustu leiða til að reka stofnanir sínar og þar á meðal að láta vinna einstök verk þar sem hagkvæmast er að gera það. Mér þykir gott að geta vitnað til reynslu einkafyrirtækis af því að flytja verkefni út á land og hagnast á því. Maður skyldi ætla að það ætti ekki síður að vera sjónarmið ríkisfyrirtækja. Er einhver ástæða til að ætla að einhver önnur hagkvæmissjónarmið ráði við ýmis verkefni sem snúa að ríkisfyrirtækjum en hjá einkafyrirtækjum? Ég held að þetta sé okkur mikið íhugunarefni sem störfum að fjárlagagerð að kalla eftir því hjá ríkisfyrirtækjum að fara hagkvæmustu leiðina og þar á meðal að fara þessa leið.

Hæstv. forseti. Hér hafa tekið til máls margir þingmenn úr meiri hluta fjárln. og ég vil því ekki orðlengja þetta frekar. Við eigum enn verk fyrir hendi og það er mikilvægt að niðurstaða fjárlaga verði sem best fyrir efnahagsmálin í landinu, fyrir ríkisfjármálin í landinu og fyrir byggðamálin í landinu.