Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 18:18:41 (2499)

2000-11-30 18:18:41# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[18:18]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Yfirleitt þegar rætt er um jöfnun húshitunarkostnaðar þá fara hv. stjórnarþingmenn í einhverja loftfimleika til að reyna að komast hjá þessum þætti. Af því að hæstv. forsrh. gengur í salinn þá vitna ég enn til tillögu þverpólitískrar nefndar, sem hæstv. forsrh. skipaði, um að jafna húshitunarkostnað í landinu án tillits til orkugjafans, hvort sem hann er rafmagn eða hitaveita.

Staðreyndin er, herra forseti, að á Akranesi kostar upphitun húss t.d. 95 þús. meðan upphitun sambærilegs húss á svæði Rafmagnsveitna ríkisins kostar 73 þús. kr. Á svæði Hitaveitu Rangæinga kostar það tæpar 100 þús. kr. og á Akureyri kostar það 87 þús. kr. Þarna þarf að bæta í og ég skil ekki hvers vegna nefndin sem hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir skilur eftir dýru hitaveiturnar, hvers vegna ekki er hugað að þeim í vinnu iðnrn. Ég spurði um þetta við síðustu fjárlagagerð og þá var því lofað af hv. þm. Jóni Kristjánssyni að þetta yrði skoðað. En dýru hitaveiturnar eru alltaf skildar eftir. Það er eins og þetta séu óhreinu börnin sem eru með dýrar hitaveitur og ekki megi jafna húshitunarkostnað þeirra eins og hjá þeim sem nota dýra rafhitun. Hver er munurinn á því?

Ég tel að það þurfi ekki meira nefndarstarf um þetta, að þvæla um þetta fram og aftur í nefndum. Það vantar aðgerðir og pening á fjárlögum fyrir næsta ár ef uppfylla á markmið sem þverpólitísk nefnd hæstv. forsrh. skilaði af sér sem fyrstu aðgerðum í byggðamálum í tengslum við breytingu á kjördæmaskipun. Við skulum ekki fara í neina loftfimleika við að reyna að komast hjá því. Það kom ákaflega skýr niðurstaða frá þeirri þverpólitísku nefnd.