Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 20:00:46 (2503)

2000-11-30 20:00:46# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[20:00]

Jóhanna Sigurðardóttir (frh.):

Herra forseti. Í fyrri hluta ræðu minnar fyrir kvöldmatarhlé hafði ég farið nokkuð yfir stöðu efnahagsmála, ekki síst hinn hrikalega viðskiptahalla sem við höfum búið við í langan tíma og sem hefur afgerandi slæm áhrif á þá stöðu sem efnahagslífið er komið í núna. Jafnframt ræddi ég um vaxandi verðbólgu og ekki síst mikla útlánaþenslu sem íslenskt þjóðfélag hefur búið við á undanförnum missirum og ástæðu hennar sem ég held að sé á margan hátt, eins og ég orðaði það, heimatilbúinn vandi þessarar ríkisstjórnar.

Áður en ég vík frá því máli vil ég nefna tvö atriði í viðbót varðandi stöðu efnahagsmála. Það er annars vegar ein hliðin enn á þessari útlánaþenslu sem er ekki síst vegna nettóskulda bankanna við erlenda aðila sem hafa vaxið úr rúmum 100 milljörðum á árinu 1998 í á milli 250--300 milljarða í júní á þessu ári. Það kemur einmitt fram í skýrslu Fjármálaeftirlitsins hversu skuldir bankanna við erlenda aðila hafa vaxið hrikalega mikið á sl. tveimur árum, en það hefur átt afgerandi þátt í þeirri útlánaþenslu og spennu sem efnahagslífið er í um þessar mundir. Ég nefndi líka lífeyrissjóðina og flutning fjármagns úr landi frá lífeyrissjóðunum.

En áður en ég vík frá stöðu efnahagsmála og geri í nokkrum orðum grein fyrir tillögum þingflokks Samfylkingarinnar, bæði að því er varðar tekjur og gjöld, vil ég nefna eitt af þeim atriðum sem hafa orsakað þensluna í efnahagslífinu og aukið mjög á skuldir heimilanna og átt þátt í því að við búum hér við langa biðlista, m.a. eftir leiguhúsnæði. Það er hvernig ríkisstjórnin beitti sér fyrir breytingum á húsnæðiskerfinu fyrir tveim til þremur árum, en það ýtti beinlínis undir gríðarlega þenslu á húsnæðismarkaðnum. Ríkisstjórnin, með félmrh. hæstv. í broddi fylkingar, beitti sér fyrir því að rýmka verulega greiðslumat vegna húsnæðislána og það sem þeir gerðu í raun og sanni var að galopna húsnæðiskerfið með þeim afleiðingum að útlán húsbréfadeildar fóru t.d. á síðasta ári rúmlega 7 milljarða fram úr heimildum fjárlaga.

Fyrir liggur að bæði Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun hafa varað við þessari þróun og það er ljóst að 7 milljarðar sem fóru í útlán húsbréfadeildar umfram það sem áætlað var, voru eldsmatur sem varpað var á bál vaxandi verðbólgu. Þarna er náttúrlega um að ræða eitt af þeim stjórntækjum sem ríkisstjórnin hefur til þess að hafa hamlandi áhrif á útlánaþenslu lánastofnana, en sem ríkisstjórnin greinilega misnotaði. Þetta er dæmi um beina hækkun verðbólgu af völdum ríkisstjórnarinnar og raunverulega dæmi um beinan þátt ríkisstjórnarinnar í þenslunni í þjóðfélaginu.

Þetta hefur haft þau áhrif að auka á skuldastöðu heimilanna. En það sem jók hana líka er ein af afleiðingum breytinga á húsnæðislánakerfinu sem átti sinn þátt í að magna upp verðbólguna, herra forseti. Spennan á fasteignamarkaðnum sem við höfum búið við á undanförnum missirum með þeim afleiðingum að fasteignaverð hefur rokið upp um 30--40% hefur aukið á skuldastöðu heimilanna og gert ungu fólki erfiðara fyrir að koma sér upp þaki yfir höfuðið og átt þátt í að hækka verulega neysluvísitöluna ásamt þeim bensínhækkunum sem hafa dunið yfir á umliðnum mánuðum. Það er ástæða til að nefna þetta vegna þess að þetta er bein afleiðing af stefnu ríkisstjórnarinnar, þ.e. gífurleg hækkun á húsnæðiskostnaði heimilanna.

Ég vil fara yfir stöðuna að því er varðar ástandið á leigumarkaðnum vegna þess að það er hluti af þeim tillögum sem við leggjum til til útgjaldaaukningar. Það eru um 5 milljarðar kr. tæplega sem þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt til í því efni. Það er, herra forseti, ástæða til að taka á því ástandi sem nú ríkir á leigumarkaðnum. Og það er líka, herra forseti, raunverulega ófært að ganga frá fjárlögum og fara heim í jólaleyfi án þess að fyrir liggi hvernig ríkisstjórnin ætlar að taka á þeirri vöntun á ákvörðun í samskiptum sem er milli ríkis og sveitarfélaga að því er varðar leiguíbúðirnar, og hvort það er rétt eins og margir óttast að þannig eigi að standa að verki að hætta eigi að niðurgreiða vexti til leiguíbúða.

Mér skilst að það sé enn óútkljáð mál milli ríkis og sveitarfélaga hvernig á þeim málum verður haldið. Þó er eins og það mál sé útkljáð í fjárlagafrv. sjálfu vegna þess að einungis er gert ráð fyrir 50 millj. í niðurgreiðslu á vöxtum sem er náttúrlega hlægileg fjárhæð. En talað er um að nota það fé annaðhvort til þess að auka framlög til húsaleigubóta eða til þess að greiða niður byggingarstyrki til þeirra sem byggja leiguíbúðir. Í fjárlagafrv. er talað um að koma á fót 500 leiguíbúðum sem er auðvitað sýndarmennskan ein, herra forseti, vegna þess að byggingarstyrkir til 500 leiguíbúða sem í á að láta 50 millj., þýða 100 þús. með hverri og einni íbúð og það breytir auðvitað engu um uppbyggingu leiguíbúða. Maður óttast því að afleiðingarnar af þessari stefnu stjórnarliðsins verði raunverulega rothögg á uppbyggingu leiguíbúða hér á landi og að þeim sem hafa staðið myndarlega fyrir uppbyggingu leiguíbúða, eins og ýmsum félagasamtökum, t.d. Öryrkjabandalaginu, Búseta, stúdentum og fleiri, verði raunverulega gert ókleift að halda áfram þessari uppbyggingu nema þá að standa þannig að verki að hækka verulega húsaleigu til skjólstæðinga sinna, þ.e. námsmanna, fatlaðra og þeirra sem nauðsynlega þurfa leiguíbúðir með viðunandi kjörum.

Þess vegna er þetta mjög óeðlilegt og ég hvet til þess, herra forseti, að niðurstaða liggi fyrir ekki síðar en við 3. umr. fjárlaga um það hvernig á þessu máli er haldið. Við leggjum til í okkar tillögum þó nokkra fjárhæð til þess að hægt sé að halda þessum niðurgreiðslum áfram og standa áfram að uppbyggingu leiguíbúða, en 2.000 manns bíða núna eftir leiguíbúðum og fram hefur komið, herra forseti, að í Reykjavík ríki neyðarástand hjá a.m.k. 300 fjölskyldum vegna þessa ástands sem ríkisstjórnin hefur skapað með aðgerðum sínum og aðgerðaleysi á þessu sviði.

Herra forseti. Ég vil einnig nefna að ástæða er til þess, eins og við höfum farið hér yfir á síðustu dögum, að hafa áhyggjur af stöðu margra heimila í landinu, ekki síst láglaunaheimilanna. Við höfum farið yfir þær skattahækkanir sem ríkisstjórnin beitir sér nú fyrir sem munu hafa þau áhrif að öllu óbreyttu, að stór hópur fólks, eða á milli 2.000--3.000 manns sem ekki hefur greitt skatt vegna þess að skattleysismörkin hafa hlíft þeim, fer nú að greiða skatt þar sem ríkisstjórnin ætlar ekki að fylgja því eftir sem hún lofaði í kjarasamningum, þ.e. að skattleysismörk fylgdu launaþróun. En þau munu breytast þó nokkuð við þessar skattahækkanir nema ríkisstjórnin standi að málum eins og minni hlutinn hefur boðað og breyta skattleysismörkum í samræmi við fyrirhugaða skattahækkun.

Þessu eiga heimilin von á núna á næstu mánuðum. Ég hef líka áhyggjur af því sem er óútkljáð í fjárlögunum, þ.e. hækkun á lyfjakostnaði. Í fjárlagafrv. þessa árs var gert ráð fyrir að spara um einn milljarð í lyfjakostnaði. En sá sparnaður hefur ekki gengið eftir og í fjárlagafrv. næsta árs eru uppi áform um a.m.k. 370 millj. kr. sparnað sem á að ná fram m.a. með því, eins og það er orðað í fjárlögum, að taka upp nýtt fyrirkomulag á niðurgreiðslu almannatrygginga vegna lyfja með aukinni greiðsluþátttöku sjúklinga. Mér finnst, herra forseti, alveg ótækt að skilja þetta eftir án þess að við vitum hvernig hæstv. ráðherra ætlar að fara með það sem hér er boðað, þ.e. að auka greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði. Það hefur nóg á gengið í því efni. Það var síðast um mitt þetta ár sem algeng lyf hækkuðu um 37%. Það er ekki hægt að auka enn á greiðslubyrði heimilanna með því að auka lyfjakostnaðinn.

Útgjöld heimila vegna lyfja- og lækniskostnaðar hafa hækkað verulega í tíð þessarar ríkisstjórnar. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum sem ég hef aflað mér frá Þjóðhagsstofnun voru útgjöld heimilanna vegna lyfja- og lækniskostnaðar um 5,8 milljarðar 1995, en eru um 8,3 milljarðar nú. Ef skoðuð eru útgjöld heimilanna til lyfja- og lækniskostnaðar sem hlutfall af þjóðarframleiðslu þá voru þau 0,42% þegar ríkisstjórnin tók við en eru núna 0,48%. Þess vegna gerum við þá kröfu að heilbrrh. geri Alþingi grein fyrir því, og fjárln. á milli 2. og 3. umr., hvaða áform eru uppi í þessu efni, enda hefur nóg verið gert, eins og ég hef sagt, við að hækka lyf sjúklinga.

Fleiri atriði sem birtast í þessum fjárlögum er ástæða til að nefna, t.d. Framkvæmdasjóður fatlaðra. Enn eina ferðina er ríkisstjórnin að skerða framlög til uppbyggingar þjónustu við fatlaða um land allt. Staðreyndin er sú, herra forseti, að svo hefur verið skorið niður til Framkvæmdasjóðs fatlaðra að á síðustu fimm árum hafa verið skorin niður lögbundin framlög til sjóðsins sem hann á að hafa af erfðafjárskatti, um 1.500 millj. kr. Og ef við tökum það sem hann ætti að hafa á næsta ári þá erum við í reynd að tala um að búið er að skera þennan sjóð niður á tiltölulega skömmum tíma um 1.800 millj. kr. Enda birtast okkur afleiðingar þess í mjög löngum biðlistum hjá fötluðum, ekki síst að því er varðar húsnæðismálin. Við þingmenn Samfylkingarinnar flytjum því tillögu um að framkvæmdasjóðurinn hafi sín lögbundnu framlög eins og hann hafði í tíð fyrri ríkisstjórna. Í þeirri ríkisstjórn, þegar framkvæmdasjóðurinn fór að einhverju leyti að greiða rekstur af framkvæmdafé sjóðsins sem er miklu minna en nú er í tíð þessarar ríkisstjórnar, var fastmælum bundið að lögboðnir tekjustofnar þessa sjóðs yrðu ekki skertir.

[20:15]

Ég vil líka nefna að við flytjum tillögur um að auka barnabæturnar frá því sem ríkisstjórnin hefur áform uppi um. Ég minni á og mun auðvitað ræða það síðar á þessu þingi þegar við fjöllum um barnabæturnar, eftir að efh.- og viðskn. hefur fjallað um þær, að ótekjutengdi hluti barnabótanna var miklu stærri fyrir fimm árum en hann er nú og verður eftir aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem koma að fullu til framkvæmda eftir þrjú ár. Við erum að ræða um að ótekjutengdi hluti barnabótanna verði um 33.000 núna til barna upp að sjö ára aldri en hann var á árinu 1995 40.000 með hverju barni upp að 16 ára aldri að meðaltali. Við teljum ótækt ef verið er að stíga skref núna til að rétta hlut barnafjölskyldna, sem er svo sannarlega orðið tímabært að líta á barnabæturnar öðrum hætti en sem aðstoð við þá sem verst eru staddir, að fara þá eigi skemur en var gert á árinu 1995 að því er varðar ótekjutengda hlutann og ekki að hann nái einungis til barna að sjö ára aldri. Út á það gengur sú tillaga sem við flytjum nú við fjárlagaafgreiðsluna, að ótekjutengdi hlutinn, þ.e. 33.000 kr. sem kemur með hverju barni, nái til barna að 16 ára aldri.

Það eru sem sagt aukin útgjöld sem við leggjum til vegna barnafjölskyldna í formi aukinna barnabóta til barna að 16 ára aldri. Við leggjum til fjármagn til að gera átak í uppbyggingu leiguíbúða og síðast en ekki síst er forgangsröðun okkar í auknum útgjöldum að koma á afkomutryggingu í samræmi við þáltill. sem við höfum flutt um það efni fyrir aldraða og öryrkja. Leggjum við til að fyrsti áfanginn verði stiginn núna með því að samþykkja 2 milljarða framlag til þeirrar afkomutryggingar ásamt 300 millj. sem lagt er til, til þess að afnema tekjutengingu við tekjur maka sem hefur margoft verið farið yfir hér að er brot á stjórnarskránni og Öryrkjabandalagið stendur með það mál fyrir dómi, að því ég best veit. Það eru ótrúlega litlar fjárhæðir sem þarf, herra forseti, til að taka á því mannréttindabroti sem öryrkjar hafa þurft að búa við í langan tíma. Mér er meira að segja sagt að 300 millj., sem við leggjum til í Samfylkingunni, sé of í lagt og það kosti raunverulega ekki nema 200 millj. að afnema tekjutenginguna og þess heldur ætti að vera vilji fyrir því og meiri hluti að samþykkja þá tillögu á hv. Alþingi.

Gerð er rækilega grein fyrir því í nál. 1. minni hluta fjárln. hvernig farið hefur verið með elli- og örorkulífeyrisþega og hvernig þeir hafa verið hlunnfarnir alla tíð frá 1995 þegar þessi ríkisstjórn tók við og hvernig ríkisstjórninni tekst alla tíð að mæla kjarabætur til lífeyrisþega við þann mælikvarða sem minnst gefur. Það er alveg ótrúlegt hvað hún hittir alltaf á þann mælikvarða sem minnst gefur þessu fólki og settir eru til þeirra einhverjir molar sem eru afgangs sem eru mældir í örfáum hundraðköllum, kannski tvisvar, þrisvar á ári. Nú á að standa þannig að málum, herra forseti, að þó svo að lífeyrisþegar fái eitthvað um áramótin sem við skulum vona að þeir fái og fái þá ekki minna en aðrir á vinnumarkaðnum, þá er það jafnharðan tekið aftur með þeirri skattahækkun sem ríkisstjórnin stendur fyrir með því að láta skattleysismörkin ekki fylgja eftir launaþróun.

Reyndar er þetta furðulegt, herra forseti, þegar maður lítur til þess hvað ríkisstjórnin hefur haft úr að spila á umliðnum árum en á síðustu sex árum hefur orðið 64 milljarða raunhækkun á tekjum hins opinbera. Þrátt fyrir þann gífurlega tekjuauka hafa lífeyrisgreiðslur aldrei verið lægra hlutfall af þjóðarframleiðslu, hvort sem miðað er við lágmarkslaun í þjóðfélaginu eða meðallaun verkamanna. Lífeyrisgreiðslur með fullri tekjutryggingu eru innan við 50.000 en lágmarkslaunin að mig minnir um 76.000 kr.

Það var þó reynt á þeim tíma sem við vorum í niðursveiflunni á árunum 1988--1993 að halda eins og kostur var í við lágmarkslaunin og það vantar 3--4 milljarða inn í lífeyrisgreiðslurnar til að þær haldi þeim hlut sem þær gerðu þó 1991. Þá bjuggum við við verulegan samdrátt í tekjum, herra forseti. Lífeyrisþegar voru vissulega ekkert ofsælir af kjörum sínum á árum niðursveiflunnar í efnahagslífinu á árunum 1988--1993 en þó var miklu betur reynt að tryggja eins og ég segi að lífeyrir þeirra fylgdi lágmarkslaunum, þrátt fyrir að raunhækkun á tekjum hins opinbera hafi aðeins verið rúmir 4 milljarðar á þessu sex ára tímabili meðan raunhækkunin á síðustu sex árum er 64 milljarðar.

Það er enginn vandi, herra forseti, að fá út einhvern 30 milljarða tekjuafgang eins og sýnt er í fjárlagafrv. með því að hlunnfara elli- og örorkulífeyrisþega um 3--4 milljarða. Það er náttúrlega hægt að sýna afgang af ríkissjóði sem er mældur í því að skerða kjör til þeirra sem eru verst staddir í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Ég held að ljóst sé að gífurleg eignatilfærsla og misskipting hefur orðið í þjóðfélaginu í tíð þessarar ríkisstjórnar með þeim afleiðingum að bilið milli ríkra og fátækra vex sífellt. Ég held að út af fyrir sig væri fróðlegt að taka saman stjórnvaldsaðgerðir í tíð ríkisstjórnarinnar sem hafa þrengt verulega að tekjulágu fólki í þjóðfélaginu. Það er raunverulega hver stjórnvaldsaðgerðin sem rekur aðra á þessu kjörtímabili þar sem mulið er undir þá sem mest hafa fyrir, á sama tíma og þrengt er að tekjulágu fólki í þjóðfélaginu.

Við getum tekið sem dæmi að ríkisstjórnin er að beita sér fyrir aukinni skattbyrði sem nemur 2,5 milljörðum kr., sem við höfum verið að fjalla um á þessum dögum, en hún lækkar um leið skatta á forríka fjármagnseigendur um a.m.k. sömu fjárhæð.

Þá ætla ég aðeins að fara inn á þá tillögu sem þingmenn Samfylkingarinnar flytja til tekjuöflunar fyrir þeim tillögum sem hún flytur fram til útgjaldaaukningar. Það er svokölluð frestun á skattlagningu á söluhagnaði en ég heyrði það í sjónvarpi í kvöldmatarhléinu að hv. þm. 5. þm. Vestf. misskilur það greinilega alveg hrapallega og fer með staðlausa stafi í því efni þannig að ástæða er til að fara aðeins yfir þann þáttinn. Ekki síst af því að svo vel ber í veiði hér í þingsalnum að hér situr formaður fjárln. og formaður þingflokks Framsfl., sem hefur gert athugasemdir við það að íhaldið sé að beita sér fyrir lækkun á skattgreiðslum auðmanna í þjóðfélaginu vegna þess að frestunin á söluhagnaðinum og söluhagnaðarfyrirkomulagið í skattinum hefur verið þannig að hingað til hefur verið greiddur 10% skattur af söluhagnaði fyrir einstaklinga upp að tilteknu marki, þ.e. 3,2 millj. fyrir einstaklinga og 6,4 millj. fyrir hjón, en það hefur átt að greiða tekjuskatt af því sem umfram er þær fjárhæðir. Fyrir utan að það að bæði einstaklingar og lögaðilar hafa haft heimild til að fresta söluhagnaði.

Tillaga okkar þingmanna Samfylkingarinnar sem flutt er undir forustu hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur gengur út á að afnema þessa heimild til frestunar á skattlagningu á söluhagnaði bæði hjá einstaklingum og lögaðilum en frv. ríkisstjórnarinnar, sem hæstv. fjmrh. flytur, gengur út á að afnema þá frestun bara hjá einstaklingum en ekki hjá lögaðilum. Að auki --- og þá kem ég sennilega að þeim fyrirvara sem hv. þm. Framsfl. hafa haft við það frv. --- leggur fjmrh. til að sá hluti sem er yfir þetta frítekjumark, 3,2 og 6,4 millj., sem áður var í 38% skatti eða í sama hlutfalli og tekjuskatturinn er í, lækki niður í 10%. Eðlilega hafa framsóknarmenn haft fyrirvara á því og gert athugasemdir við það.

Það gerist, herra forseti, að verið er að lækka þessa skattprósentu á auðmenn úr 38% í 10% á sama tíma og ríkisstjórnin stendur að almennri skattahækkun á launþega í landinu.

Ríkisskattstjóri lagði mat á þetta fyrir hönd þingflokks Samfylkingarinnar en eftir því var óskað með bréfi frá þingflokki Samfylkingarinnar 15. sept. sl. hvað frestunin hefði þýtt í tekjutap fyrir ríki og sveitarfélög. Þá kemur í ljós, sem mér finnst mjög athyglisvert, að það eru aðeins 636 einstaklingar sem frestað hafa 20 milljarða söluhagnaði. Þeir eru 636, þessir einstaklingar sem nýtt hafa sér að fresta skattlagningu á söluhagnaði umfram þessar 3,2 millj. eða eftir atvikum 6,4 millj. hjá hjónum. Og 20 milljarðar, 636 einstaklingar, þýðir 32 millj. á hvern einn þessara einstaklinga. 32 millj. sem þeir hafa frestað hver og einn þessara 636 einstaklinga. Lái mér hver sem vill að halda því fram að hér séu á ferðinni stóreignamenn þessir 636 með 32 millj. hver sem þeir hafa frestað að greiða skatt af.

Ríkisskattstjóri segir, herra forseti, að ef þessi frestun hefði ekki verið til staðar og þessir 636 einstaklingar hefðu greitt fullan skatt af þessu hefði það skilað ríki og sveitarfélögum í tekjur á þessum tveimur árum, 1998 og 1999, allt að 8--8,5 milljörðum.

Nú hefur ríkisskattstjóri þann fyrirvara á að hann segir, með leyfi forseta:

,,Svar við því hve miklum tekjum ríkissjóður verður af árlega vegna frestunar á skattlagningu söluhagnaðar eins og spurt er um er háð því hvort heimild til frestunar hefur haft áhrif á ákvarðanir manna um sölu á hlutabréfum.`` Þetta er eðlilegur varnagli sem skattstjóri slær hér, en hann segir: ,,Það verður hins vegar að teljast nokkuð ólíklegt`` --- og því skal haldið til haga ,,að sala hlutabréfa á þessum árum hefði orðið jafnmikil ef frestunarheimildin hefði ekki verið til staðar.`` Þ.e. að tekjutapið hefði orðið þessi 8,5 milljarðar. Síðan segir ríkisskattstjóri að hann telji að reikna megi með að verulegur hluti hins frestaða söluhagnaðar komi aldrei til skattlagningar. Það var eins og við vöruðum við í Samfylkingunni 1996 þegar þetta kom inn að hægt væri að fresta söluhagnaðinum endalaust. Við gerum ekki ráð fyrir að taka þetta allt inn í tekjur, þvert á móti gerum við það ekki. Við reiknum aðeins með hluta af þessu í tekjum okkar og reiknum þar með 2,6 milljörðum og tel ég það varlega áætlað.

[20:30]

Ég spyr hv. þingmenn Framsfl. hvort sá fyrirvari þeirra sé ekki enn til staðar, að þeir séu ósáttir við það að lækka skattprósentuna á þessa aðila sem eru tiltölulega fáir en virðast hafa fullar hendur fjár og þeir hafa í skattkerfinu ákveðna smugu til þess að fresta skattlagningu á, sem að vísu á að taka af einstaklingum samkvæmt frv. fjmrh. en ekki af lögaðilum.

Síðan vil ég aðeins nefna, af því að ég heyrði að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, 5. þm. Vestf., sagði að þetta þekktist hvergi í heiminum að vera að skattleggja þetta, þá er hérna yfirlit í fskj. með frv. sem Svanfríður Jónasdóttir er 1. flm. að og nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar flytja, og þar kemur eftirfarandi fram að þetta er víða ekki skattlagt með 10% eins og nú á að gera af öllum söluhagnaði heldur með tekjuskattshlutfallinu í viðkomandi löndum.

En þar segir, með leyfi forseta, og þá er Danmörk tekin fyrst að ef eignarhald varir skemur en þrjú ár er söluhagnaður af hlutabréfum sem einstaklingur hefur átt skemur en þrjú ár skattlagður sem tekjur. Söluhagnaður er síðan skattlagður með mismunandi hætti eftir því hvort um skráð eða óskráð hlutabréf er að ræða.

Í Noregi er söluhagnaður skattlagður sem tekjur. Þar virðist ekki gerður greinarmunur á neinu, sagt er að tap færist á móti söluhagnaði en það er heimilt hér og veit ég ekki betur en að ónýtt yfirfæranlegt tap sem fyrirtæki a.m.k. geta nýtt telji nú einhverja tugi milljarða, en í Noregi er söluhagnaður skattlagður sem tekjur.

Í Svíþjóð er sagt að einstaklingar greiði 30% skatt af söluhagnaði. Það er það sem við leggjum til, þ.e. að fyrir tiltekið hámark greiðist 10% skattur en eftir það, sem er 3,2 milljónir og 6,4 milljónir, greiðist sama eins og fólk greiðir í tekjuskatt.

Einstaklingar skulu greiða 30% af söluhagnaði í Svíþjóð, í Bandaríkjunum er meginreglan sú að söluhagnaður er skattlagður með 20% fjármagnstekjuskatti og í Kanada er meginreglan sú að einstaklingar telja 75% af söluhagnaði fram sem tekjur og skattleggst því söluhagnaðurinn sem slíkur.

Þetta vildi ég setja fram að því gefna tilefni sem kom upp að menn telja það eitthvað séríslenskt að hér sé verið að skattleggja einhvern hluta af söluhagnaði í sömu skattprósentu og tekjuskattur, það er bara alls ekki samkvæmt þeim upplýsingum sem fram koma í frv.

Herra forseti. Ég þarf svo sem ekki að hafa frekari orð um fjárlögin hér við 2. umr. Fyrir liggur ítarlegt nál. frá 1. minni hluta fjárln. þar sem rækilega er gerð grein fyrir afstöðu þingmanna Samfylkingarinnar til fjárlagaafgreiðslunnar. Ítarlegar tillögur liggja fyrir bæði til útgjaldaaukningar og þar sem tekna er aflað á móti og tekna er aflað umfram þann útgjaldaauka sem við setjum fram þannig að ég hygg að þar sé vel að verki staðið. Fyrst og fremst er sýndur sá forgangur sem Samfylkingin vill hafa varðandi fjárlagaafgreiðsluna og hún snýr fyrst og fremst að menntamálum, málefnum barnafjölskyldna í formi aukningar á ótekjutengdum barnabótum og síðast en ekki síst að koma á fyrsta áfanga í þeirri afkomutryggingu sem Samfylkingin vill sjá hjá öldruðum og öryrkjum.