Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 20:37:26 (2505)

2000-11-30 20:37:26# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[20:37]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir svörin sem voru skýr af hans hendi. Hann telur ekki ástæðu til að tengja neitt þær auknu heimildir sem lífeyrissjóðirnir fengu á síðasta þingi. Ég hefði alveg talið ástæðu til að skoða það, ekki að afnema þá heimild, heldur að skoða hvort næstu eitt til þrjú árin ætti að þrengja svigrúmið eitthvað til að fjárfesta svona mikið erlendis. Það hefur haft þessar afleiðingar, eða a.m.k. heldur Seðlabankinn því fram að það hafi haft þessar afleiðingar.

En hv. þm. nefnir að frekar eigi þá að skapa þeim svigrúm til að fjárfesta hér innan lands og hv. þm. nefnir í því sambandi áform um sölu banka og Landssíma. Ég býst við að taka þurfi á þessum málum fyrr en maður sér fyrir sér að geti farið að verða af sölu á bönkunum og Landssímanum, ekki síst miðað við þann ágreining sem er uppi að manni skilst milli stjórnarflokkanna um sölu á Landssímanum og ég spyr hv. þm.: Er það líklegt að mati hv. þm. að af sölu bankanna verði þegar á næsta ári og ekki síst að því er varðar áform um sölu Landssímans? Telur hv. þm. líklegt að það fjármagn gangi eftir sem fram kemur á fjárlögum vegna einkavæðingar eða áforma um sölu á bönkum og Landssímanum? Það væri fróðlegt að fá það fram við þessa umræðu.