Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 20:45:28 (2509)

2000-11-30 20:45:28# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[20:45]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. tók greinilega ekki eftir hvað ég sagði. Ég sagði að tekjur ríkisins af söluhagnaði fyrir breytingarnar hefðu verið vegna þess að allt stóð fast. Það voru engar eignir leystar út. Það var engin sala. Það voru engar tekjur fyrir. Það var það sem var. Vegna þess að það var skattlagt með þessum háa skatti, með 40%, áttu sér engin viðskipti stað. Breytingin sem við gerðum var að leysa þetta úr læðingi sem hefur skapað ríkinu heilmiklar tekjur. Hins vegar liggur fyrir Alþingi stjfrv. um að þetta skuli vera 10% skattur og varðandi þann 10% skatt og að hætta við frestunina hefur hæstv. fjmrh. réttilega haldið því fram að við gætum fengið 1.300 millj. kr. í auknar tekjur. Þetta eru orð hans.

En ef við færum okkur aftur upp í skattformið, sem var yfir 40%, þá er ég mjög viss um það, herra forseti, að árangurinn verður nákvæmlega sá sami og hann var áður, þ.e. engar tekjur ríkisins og um það fjallar tillaga Samfylkingarinnar, að eyðileggja skattstofninn og stoppa þessa sölu, setja þetta í sama far og það var, þannig að árangurinn af þessari tillögu mun örugglega verða núll fyrir ríkið. Við munum missa tekjur vegna þess að skattprósentan er svo há að það eyðileggur söluna. Hins vegar er ríkisvaldið, stjfrv., með 10% skatt alveg eins og fjármagnstekjurnar og það mun ábyggilega hjálpa ríkissjóði. Stjfrv. er því á réttri braut en tillaga Samfylkingarinnar getur aldrei gert annað en eyðileggja skattstofninn.