Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 22:32:03 (2516)

2000-11-30 22:32:03# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[22:32]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég deili ekki við hv. þm. um upphæð barnabótanna fyrir tíu árum. Hins vegar er það staðreynd að tekjur fólks og kaupmáttur er miklu hærri en fyrir tíu árum. Það er meginmálið í þessu sambandi. Við erum að bæta kjör barnafólks núna til viðbótar við mikla kaupmáttaraukningu. Það er meginmálið finnst mér.

Varðandi lífeyrissjóðina hins vegar, svo að ég komi að því af því að ég hafði ekki tíma til þess í fyrra andsvari mínu, þá sagði hv. þm.: Hvað er trygg ávöxtun? Það er að stuðla að heilbrigðu efnhagslífi innan lands og sterkum fyrirtækjum innan lands. Ég er alveg sammála honum um það. Við getum verið sammála um að langbest væri ef lífeyrissjóðirnir gætu ávaxtað pund sitt hér í sterkum fyrirtækjum. En þá verður líka að skapa fyrirtækjunum góð skilyrði. Þá getum við ekki, eins og Samfylkingin gerir, lagt fram tillögur um aukna skatta á fyrirtæki sem eru í bullandi taprekstri. Ekki er álitlegt fyrir lífeyrissjóðina að kaupa hlutafé í sjávarútvegsfyrirtækjum sem núna eru í bullandi taprekstri. Ég er hins vegar sammála hv. þm. um að tryggasta ávöxtun og hugnanlegasta fyrir lífeyrissjóðina er að fjárfesta í öflugu innlendu atvinnulífi. Það held ég að allir geti verið sammála um.