Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 22:33:59 (2517)

2000-11-30 22:33:59# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[22:33]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ítreka þá afstöðu okkar að við viljum draga úr tekjutengingu í barnabótakerfinu. Ég hef stundum haft orð á þeirri einkaskoðun minni að hugsanlega eigum við að fara inn á jafnar greiðslur. Ég hef stundum orðað þá hugsun þannig að fella eigi tekjutenginguna inn í tekjuskattskerfið, þ.e. taka tekjutengingu inn með þeim hætti. Ég ætla að fara varlega í að orða þessa hugsun en ég hef stundum velt því fyrir mér hvort bætur og millifærslur í skattkerfinu ættu ekki að vera skilgreindar sem almennar tekjur og hvort einhverri tekjutengingu yrði ekki komið á með þeim hætti.

Ég held, hv. þm. Jón Kristjánsson, að forsenda þess að hér sé kröftugt efnahagslíf sé að jöfnuður og réttlæti ríki í þjóðfélaginu og í efnahagskerfinu almennt. Það sjónarmið þolir alveg að fyrirtæki beri ívið þyngri skatta en þau gera núna. Fyrir tíu árum síðan var tekjuskattur fyrirtækja um 50% en er kominn niður í 30%. Menn hafa lækkað skatta á fyrirtækjum með ýmsum hætti en aukið álögurnar á einstaklingana á móti. Ég tel að þarna sé ójafnvægi sem við þurfum að leiðrétta.

Ég legg áherslu á þetta: Við viljum draga úr tekjutengingunni í barnabótakerfinu en ég ítreka að gæta þarf betur að hag þeirra sem lökustu tekjurnar hafa. Þá horfi ég sérstaklega til einstæðra foreldra.