Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 22:40:03 (2520)

2000-11-30 22:40:03# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[22:40]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að ég og hv. 13. þm. Reykv. værum sammála um að mjög margt í ríkisrekstrinum væri þess eðlis að það teldist ekki til markaðarins. Ríkið hlýtur að vera, á því þjónustusviði sem það velur sér að vinna, miðstýrt.

Ég fullyrði að sú umræða um launakjör sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu er að mörgu leyti mjög afbökuð. Þrátt fyrir allt hafa starfsmenn ríkisins upp til hópa fengið meiri kauphækkanir en starfsmenn hins almenna markaðar. Auk þess var í desember 1997 komið á sérstökum kjarabótum til ríkisstarfsmanna gagnvart lífeyrissjóðsmálum. Ríkisstarfsmenn hafa fengið miklu meiri hækkanir í lífeyrismálum en aðilar hins almenna markaðar. Ég ætla að þessi hækkun nemi í dag á milli 80.000 og 90.000 millj. Þar er mjög mikið misrétti gagnvart eldra fólki þegar ríkisstarfsmenn eiga nú von á að njóta miklu betri ellilífeyriskjara en almennir borgarar.

Við núverandi kringumstæður væri það gríðarlegur ábyrgðarhluti, hvernig svo sem skiptingu launa milli ríkisstarfsmanna er háttað, ef ríkið hækkaði laun hvaða stéttar sem er umfram það sem Alþýðusamband Íslands samdi um í mars. Það er alveg sama hversu réttlát eða ranglát launin eru, hvaða samanburð stéttirnar velja sér, hvort sem það er hin ágæta stétt kennarar eða aðrir. Það er alveg sama. Það mundi hafa í för með sér gríðarlegar kröfur sjómanna, bænda, verkamanna, verslunarmanna og allra starfsstétta landsins. Við mundum stefna okkur í hreinan voða með því.