Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 23:09:00 (2526)

2000-11-30 23:09:00# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[23:09]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrra andsvari hv. þm. kallaði hann eftir lausnum. Ég taldi að ég hefði komið að því í ræðu minni. Ég tel að menn þurfi að setjast yfir íslenskt efnahagskerfi og velta fyrir sér framtíðinni. Menn verða að horfast í augu við að það þarf betri tök en menn hafa núna á fjármálalífi og atvinnulífinu í landinu. Það gæti kostað það að menn kæmust að þeirri niðurstöðu að annaðhvort yrðu menn að ganga skrefin til baka eða lengra. Og það er mín spá að um það tvennt verði að velja. En til framtíðar munu menn ekki treysta sér til þess að halda áfram því pókerspili sem nú er í gangi um íslenskt efnahagslíf og krónuna. (Gripið fram í.)

Hv. þm. veit að formaður flokksins sem hv. þm. er kosinn á þing fyrir er að láta skoða þetta mál. Ég á von á því að á sama tíma og hann kemst að niðurstöðu um það mál geti ég gert honum grein fyrir því hvað ég vilji gera í þessu efni. En við erum á sömu braut í Samfylkingunni að velta fyrir okkur þessum hlutum. Fyrir fram vill örugglega hvorugur okkar segja til um það hver niðurstaðan verður. Það sem ég er fyrst og fremst að segja er þetta: Það verður ekki til frambúðar búið við það ástand sem er núna. Og menn munu ekki í svona agnarlitlu hagkerfi eins og er hér á Íslandi geta tryggt stöðugleika gjaldmiðilsins með opið til allra átta eins og menn ætla sér hér í þessu efnahagslífi.