Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 23:10:55 (2527)

2000-11-30 23:10:55# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[23:10]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson talaði af mikilli tortryggni um þá ætlan ríkisstjórnarinnar að undirbúa sölu á Landssímanum og taldi það vera mjög gegn þjóðarhagsmunum, ef ég skildi hann rétt, að selja það fyrirtæki t.d. á erlendum mörkuðum. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. sé yfirleitt á móti sölu ríkisfyrirtækja og skapa þannig fjármuni sem geta orðið til þess að bæta hag þjóðarinnar. Ég get ekki heyrt annað en að gamli sósíalistadraugurinn sé við völd í hugsunarhætti hans, eins og komið hefur hér fram.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. hafi ekkert skoðað hvernig aðrar þjóðir hafa snúið sér í málum sem snúa að ríkisfyrirtækjum, eins og Danir og Norðmenn og fleiri, sem hafa selt slík stór fyrirtæki sín. Danir seldu fyrir tíu árum Tele Danmark og gerðu það strax með því að selja hluta af símanum, Tele Danmark, á New York Exchange-markaðnum. Út úr því fékk danska ríkið gríðarlega fjármuni sem þeir hafa notað til að greiða niður lífeyrisskuldbindingar dönsku þjóðarinnar. Með þessu hafa þeir komið á laggirnar einhverju öflugasta fjarskiptafyrirtæki í heiminum, vegna þess að með því að opna það fyrir fjárfestum, alls staðar að úr heiminum hefur skapast samkeppnisfyrirtæki sem ekki er njörvað niður í hugsunarhátt kerfiskalla. Það hefur skapað svipaða möguleika og við erum að reyna að opna fyrir hjá íslenskum fyrirtækjum.