Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 23:15:23 (2529)

2000-11-30 23:15:23# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[23:15]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst það koma ansi vel fram hjá hv. þm. að honum finnst ekki nein ástæða til þess að selja mjólkurkýrnar. Ég velti því þá fyrir mér hvort kýrnar geti alls ekki mjólkað nema þær séu í eigu ríkisins? Það er einmitt þessi hugsunarháttur sem ég er að reyna að benda hv. þm. á að hann þurfi að komast út úr, að það er hægt að reka fyrirtæki án þess að þau séu í eigu ríkisins. Í þessu tilfelli hefur komið í ljós að kýrnar mjólka miklu betur þegar þær eru í eigu einstaklinga í samkeppni og fyrirtækja á frjálsum markaði. Það er einmitt það sem fór með Sovét á hausinn að fólkið hafði enga hagsmuni af því að vinna betur. Allt var gert í nafni ríkisins.

Ég er dálítið hissa á því að hv. þm. sem telur sig hafa miklar skoðanir á þessum hlutum hefur samt ekki tekið neina afstöðu til stórra mála eins og hvort selja eigi Landssímann eða ekki og segir að hann geti ekki tekið afstöðu til þess fyrr en málið komi inn á þing. Auðvitað hljóta menn að geta tekið afstöðu fyrr. Menn hljóta að hafa skoðanir á málunum (Gripið fram í: Það er alltaf í ...) áður en þau koma inn sem tillögur. Ríkisstjórnin er þegar búin að gefa út sína afstöðu. (Gripið fram í: Nú.) Og Sjálfstfl. er löngu búinn að gefa út sína afstöðu (Gripið fram í: Já, já.) þannig að það er ekki nokkur einasta spurning ... (Gripið fram í.) Ég get ekki séð hvað er hættulegt við það þó að fyrirtæki sé með mjög markaðsráðandi stöðu. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að hægt sé að tryggja aðkomu annarra að grunnnetinu. Það er þegar verið að vinna að því og það hefur komið fram í blöðum meira að segja, sem ég vænti að hv. þm. hafi lesið, að verið er að vinna að því að tryggja aðgang allra samkeppnisaðila að sama grunnnetinu. Meira að segja er Tal, sem er nú lítill samkeppnisaðili Símans, þegar farið að leigja Landssímanum hluta af sínu grunnneti. Þessi samkeppni er því þegar byrjuð og hefur þroskast afskaplega vel. Ég hef því ekki nokkrar áhyggjur af því þótt Síminn verði seldur að ekki geti myndast eðlileg samkeppni á þessum markaði.