Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 23:47:18 (2540)

2000-11-30 23:47:18# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[23:47]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Við höfum hér rætt fjárlög næsta árs vítt og breitt í allan dag en ég ætla að reyna að einskorða mig við nokkra þætti þeirra.

Ég tók eftir því að hv. formaður fjárln., Jón Kristjánsson, fjallaði í framsöguræðu sinni um lög sem við samþykktum í gær um tekjustofna sveitarfélaga og lýsti enn yfir mikilli ánægju vegna lækkunar fasteignaskatta á landsbyggðinni.

Ég fagnaði því að þessi skref væru stigin en gagnrýndi um leið að ríkisstjórnin skyldi taka ákvörðun um að hækka skatta á sama fólki í leiðinni. Ég held því fram að menn gefi í vinstri vasann og seilist svo ofan í hægri vasann og taki það til baka. (ÍGP: Eru ekki skattahækkanir í tillögum ykkar?) Þetta má ljóst vera, hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason og aðrir hv. þm., ef við setjum upp einfalt dæmi. Ég vildi einmitt sérstaklega spyrja hv. þm. Jón Kristjánsson, sem var um leið formaður þeirrar nefndar sem vann þessar tillögur, hvort ekki hafi verið búin til reiknilíkön fyrir ýmsar stærðir af sveitarfélögum úti á landi sem áttu að njóta lækkunar fasteignagjalda. Því var lofað að fasteignagjöld mundu lækka og reiknað út frá fasteignamati en ekki uppreiknuðu verði miðað við það hvernig kaupin ganga á höfuðborgarsvæðinu.

Nú er það komið í ljós að í tilteknu sveitarfélagi úti á landi mun lækkun fasteignagjalda á íbúa þess nema 8,2 milljónum. Á næsta ári verður þetta sveitarfélag að nota þær heimildir sem veittar eru til hækkunar útsvars, hækkar útsvar sitt um 0,66% þannig að útsvarstekjur af þessum sömu einstaklingum verða tæpar 13 millj. kr. Að vísu skulum við hafa það hugfast að ríkissjóður lækkar á næsta ári tekjuskattinn um 0,33%. Taki maður það nettó þá eru íbúar viðkomandi byggðarlags að borga til sveitarfélagsins 6,5 millj. kr. og fá lækkun á fasteignasköttum upp á 8,2 millj. kr. Ef við ímyndum okkur svo að sömu tölur og allt saman virki eins fyrir árið 2002 þá mun sveitarfélagið nýta þá hækkun sem ríkisstjórnin skammtaði, skattahækkun sem sveitarfélögin eru pínd til að fara út í og þannig borga íbúarnir um 13 milljónir í útsvar á móti 8,2 milljónir í lækkun á fasteignasköttum. Þess vegna vil ég, herra forseti, spyrja hv. þm. og formann fjárln., Jón Kristjánsson, sem talaði um þessa miklu kjarabót fyrir íbúa landsbyggðarinnar í framsöguræðu sinni hér í dag, út í þau reiknilíkön sem nefndin lét gera og hvort menn hafi athugað þessi áhrif. Með öðrum orðum að það væri jafnvel betra að gamla vitlausa kerfið gilti. Íbúarnir í viðkomandi sveitarfélagi mundu hagnast á því.

Er þetta einhver kjarabót fyrir íbúa landsbyggðarinnar? Er þetta einhver stórkostleg byggðastefna til að hæla sér af? Er ekki þarna komið það sem hæstv. félmrh. Páll Pétursson hefur sagt í útvarpsviðtali norður í landi að Framsfl. hafi gleymt landsbyggðinni? Ég held það. Sjálfstfl. hefur dinglað með í þessu enda voru tilmælin frá hæstv. forsrh. fyrir þessa umræðu ákaflega skýr. Sveitarfélögin hafa ekkert með meiri peninga að gera.

Við skulum hafa það á hreinu að þessi lækkun kemur svona út fyrir íbúana. Fasteignagjöld atvinnurekstrarins lækka einnig og það minnkar kostnað þar. Það er ágætt og kemur til baka í gegnum jöfnunarsjóð. En það eru aðeins íbúarnir sem bera kostnaðinn og útsvarið og þetta er munurinn í þessu tiltekna sveitarfélagi sem ég hef tekið hér sem dæmi. Þess vegna vil ég ítreka spurningu mína til hv. þm. um þau reiknilíkön og athuganir sem stuðst var við þegar nefndin vann tillögur sínar sem hér hafa farið í gegnum hið háa Alþingi þannig að hv. stjórnarþingmenn halda varla vatni í gleði sinni yfir hinni ofboðslegu kjarabót og miklu breytingum fyrir landsbyggðina. (ÍGP: Hefur þingmaðurinn reiknað út brtt. og skattahækkanirnar?)

Næsta atriði sem ég ætla að fjalla um og gera að umtalsefni er húshitunarkostnaður. Þar vísa ég til byggðaáætlunar hæstv. ríkisstjórnar og tillagna þverpólitískrar byggðanefndar sem hæstv. forsrh. skipaði í aðdraganda að kjördæmabreytingunni. Sú nefnd var sammála um tillögur sem kallaðar voru bráðaaðgerðir. Þar var fjallað um að húshitunarkostnaður yrði lækkaður á næstu þremur árum með þremur jöfnum aðgerðum þannig að að dýrum hitaveitum yrði komið niður í meðalflokk. Talað var um að þetta mundi lækka hitunarkostnað íbúa landsbyggðarinnar um 670 milljónir, þar af um 400 milljónir hjá rafveitum og kyntum hitaveitum og 270 millj. kr. hjá hitaveitum. Fyrir réttu ári spurði ég um aðgerðir sem þá ætti að gera til að jafna húshitunarkostnað. Þá var bætt við 160 milljónum sem var of lítið en ekkert hugsað út í hinar dýru hitaveitur.

Ég ætla mér ekki að láta kalla á hæstv. iðnrh. til að svara fyrir þetta. Ég bíð eftir tillögum milli 2. og 3. umr. og mun ræða þetta ef ekki verður verulega gefið í og staðið við þau loforð sem gefin voru af þessari þverpólitísku nefnd en hæstv. forsrh. tók skýrt fram í þessum ræðustól að þær tillögur ætti að standa við, þetta væru ekki tillögur út í loftið. Í þessu sambandi nægir að vitna í álit bæði meiri hluta og minni hluta hv. iðnn. þar sem fjallað er um þessi atriði. Meiri hlutinn tekur m.a. fram, með leyfi forseta:

,,Meiri hlutinn vekur jafnframt athygli á að breyta þarf lögum og fella niður ákvæði um að niðurgreiðsla á hitun húsa skuli bundin rafhitun. Þetta fyrirkomulag hefur m.a. leitt til þess að hitun húsa með jarðhita er í raun orðin dýrari en sú niðurgreidda.``

Þetta á við um hitaveitur eins og á Akranesi og Borgarfirði, þetta á við um hitaveitu Rangæinga og fleiri hitaveitur. Minni hlutinn vekur líka athygli á þessu og segir að ekki sé tekið á vanda hitaveitna sem eiga undir högg að sækja í samkeppni við niðurgreidda raforku til húshitunar.

Þessi atriði er rétt að ítreka og jafnframt að í þeim tillögum sem hér liggja fyrir er vart gert ráð fyrir krónu, ef frá eru taldar 30 millj. kr. sem mér skilst að séu nánast framreikningur á þessum lið til jöfnunar húshitunar. Ég vil nota tækifærið og spyrja hv. þm. Jón Kristjánsson, sem jafnframt er formaður fjárln., út í þessi atriði og vænti þess að fá svör um hvað gera skal í þessu efni.

Það er líka ákaflega fróðlegt að lesa um byggðamálin í þessu frv. en eins og við vitum þá fluttust byggðamál um síðustu áramót til iðnrn. Störfum fækkaði ekki í forsrn. við þann flutning. Það var gert lítið úr því verkefni sem þar var unnið í svari við spurningu sem ég lagði fram á hinu háa Alþingi. Þá var ekki gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að iðnrn. fengi fjármuni til þess að taka við þessum málaflokki en í tillögunum núna er gert ráð fyrir 5 millj. kr. í viðbót, sem er eitt starf.

Í tillögum meiri hluta iðnn. er hins vegar lagt til að þessi liður verði aukinn um 10 milljónir og bætt við tveimur störfum vegna umfangs. Það er kannski í takt við annað í byggðamálum að iðnrn., sem hefur tekið við þessum málaflokki og maður vænti þess að eitthvað mundi breytast við að færa það frá hæstv. forsrh., fær aðeins sem nemur einu starfi, 5 millj. kr. til að sinna þessum mikilvæga málaflokki. Það segir kannski allt sem segja þarf um stefnu stjórnvalda í byggðamálum. Þetta er hálfpartinn gert með hangandi hendi.

Svo við komum aðeins inn á málefni Byggðastofnunar þá hefur hún 133 millj. kr. á fjárlögum og er ekki gert ráð fyrir neinni aukningu þar. Sú tala, 133 millj., er ákaflega athyglisverð. Þar er einnig ákveðið framlag til atvinnuráðgjafa, sem ég ætla að koma að á eftir og mun vitna í bréf frá þeim þar sem þeir lýsa yfir miklum áhyggjum af því að verið sé að leggja þetta allt saman niður. Framlagið til Byggðastofnunar einnar og sér, þessar 133 millj., plús 65 millj. til atvinnuráðgjafa er rétt um 200 millj., 198 millj. Hvaða tala er nú þetta? Er þetta mjög há tala?

Við skulum bara taka eitt, sem mér finnst ágætur samanburður. Ullarniðurgreiðslur á ári eru 220 millj. á samningstímabilinu frá 2001--2007, 220 millj., 22 millj. kr. hærri upphæð en varið er til Byggðastofnunar auk atvinnuráðgjafanna. Þar með er ekki allt upp talið, það er ekki allt búið með gærurnar. Vaxta- og geymslugjald nemur 235 millj. kr. á ári eða þjónustu- og þróunarkostnaður. Það getur vel verið að þetta sé bráðnauðsynlegt. Ég ætla ekki að draga úr því með ullarniðurgreiðslur og vaxta- og geymslugjöld. En eru þessar tölur ekki dálítið skrýtnar miðað við framlög til Byggðastofnunar sem á að sinna þeim miklu verkefnum sem henni er ætluð? Þetta segir kannski líka töluvert mikið um viðhorfin til byggðamála.

Ég nefndi hér atvinnuráðgjafa. Þeir fá enn 65 millj. kr. Þingmenn hafa væntanlega allir fengið bréf frá þeim sem reka atvinnuþróunarfélög úti um allt land. Þeir eru mjög uggandi. Þar segir, með leyfi forseta, í erindi til fjárln.:

,,Atvinnuþróunarfélögin í landinu óska hér með eftir því að fjárlaganefnd Alþingis hlutist til um að Byggðastofnun verði gert kleift að standa við skuldbindingar sínar gagnvart atvinnuþróunarfélögunum og eyða þar með þeirri óvissu sem upp er komin og setur allt starf félaganna í uppnám.``

Herra forseti. Ég held ég verði að óska eftir því að fá formann stjórnar Byggðastofnunar í salinn, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Ég var nú eiginlega búinn að biðja hann um að vera hér viðstaddan í umræðu minni um byggðamál. Ef hann er í húsinu þætti mér ákaflega vænt um að hann kæmi í salinn vegna þess að þetta snertir mjög þá stofnun sem hann er stjórnarformaður fyrir.

(Forseti (ÁSJ): Forseti getur upplýst að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er í húsinu og heyrir eflaust til hv. þm.)

[24:00]

Þá vil ég spyrja hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, stjórnarformann Byggðastofnunar, hvað eigi að gera við atvinnuþróunarfélögin og jafnframt spyrja hv. þm. Jón Kristjánsson, formann fjárln., út í sama atriði. Í greinargerð frá þessum aðilum segir, með leyfi forseta:

,,Af hálfu Byggðastofnunar hefur komið fram að ef framlög á fjárlögum til stofnunarinnar fáist ekki hækkuð þá geti stofnunin ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart félögunum nema að takamörkuðu leyti.``

Er það virkilega svo að bréfið sem Byggðastofnun sendi 20. júní árið 2000 setji allt starf atvinnuþróunarfélaga í uppnám? Er það byggðastefna stjórnvalda að drepa þessa starfsemi eða draga það mikið úr henni að hún hafi engin áhrif?

Herra forseti. Ég sagði að mér þætti það mjög rýrt sem hér stæði til að gera í byggðamálum. Að vísu minnir mig að fram hafi komið í framsöguræðu hv. formanns fjárln. að byggðamál biðu þess að vera unnin milli 2. og 3. umr. Ég hef sett fram nokkrar spurningar um þessi mál. Ég vænti þess að fá svör við þeim núna og að töluvert verði tekið á í þeim milli umræðna. Það er ákaflega brýnt að koma meira inn á þessi atriði.

Eitt vil ég minnast á í lokin, herra forseti, af því ég lofaði að vera ekki mjög langorður, enda er kominn nýr dagur. Símenntunarstofnanir gegna miklu hlutverki hér á landi en hafa á fjárlögum 63,3 millj. Fulltrúar frá þessum stofnunum gengu á fund fjárln. og töldu sig þurfa að fá aukið fé til að geta sinnt þýðingarmiklu og öflugu starfi á sviði fjarkennslu og fjarmenntunar. Það er ekki gert ráð fyrir því hér. Hins vegar er gert ráð fyrir því í tillögum Samfylkingarinnar að tvöfalda þessa upphæð ásamt ýmsu öðru til fjarvinnslu og fjarkennslu. Það er ákaflega brýnt að þessi upphæð verði hækkuð. En það er líkt og með annað sem varðar byggðamál og frekari byggðaþróun, ýmislegt af því sem ég hef nefnt: Símenntunarstofnanir; Byggðastofnun, borið saman við ull og gærur; fjölgun starfa í iðnrn.; húshitunarkostnaður; lækkun fasteignaskatta; allt eru þetta atriði sem hv. stjórnarþingmenn hafa hælt sér af og segja til mikilla bóta. Ég vildi óska þess að ég gæti staðið hér og tekið undir að svo sé, en svo er ekki.

Herra forseti. Ég nefndi áðan útreikninga frá tilteknu byggðarlagi úti á landi í tengslum við lækkun fasteignaskatta. Ég enda ræðu mína á að ítreka þá spurningu sem ég lagði fyrir hv. þm. Jón Kristjánsson, formann fjárln. og formann þeirrar nefndar sem vann þessar tillögur: Er það mikil kjarabót fyrir íbúa sveitarfélags sem þurfa að greiða á næsta ári 6,5 millj. í aukið útsvar og á þar næsta ári um 13 millj. í aukið útsvar en fá lækkun á næsta ári á fasteignagjöldum upp á 8,2 millj.? Hvernig er hægt að reikna kjarabót út úr slíku dæmi fyrir íbúa landsbyggðarinnar?

Herra forseti. Ég bíð eftir svörum við þessum spurningum. Það er ákaflega brýnt að um þetta verði fjallað og menn fái að vita hvaða reiknilíkönum var beitt og hvort út úr þeim reiknilíkönum hafi komið álíka niðurstöður og ég hef nefnt.