2000-12-01 00:06:45# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[24:06]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma að síðustu orðum hv. formanns fjárln.

Fulltrúar iðnrn. báru sig ákaflega illa þegar þeir gengu á fund fjárln. yfir því að þeir fengju enga viðbót til að sinna málaflokknum byggðamál. Í máli þeirra kom fram --- það er ekki ég sem er að tala um það heldur þeir --- að munur sé á því sem iðnn. og fjárln. leggur til. Iðnrn. kvartaði yfir því að geta ekki sinnt þessum málaflokki vegna þess að þeir hefðu ekki mannskap eða fjármuni til þess.

Það sem hv. þm. virtist ekki skilja varðandi skattabreytingarnar og fasteignaskattinn þá heyri ég að tölurnar sem ég nefndi koma hv. þm. á óvart. Ég vildi gjarnan fá að sjá þau reiknilíkön sem hv. þm. notaðist við í nefndinni. Dæmið sem ég nefndi er það sem bæjarstjóri úti á landi vinnur með í dag við að búa til fjárhagsáætlun. Í því kemur fram að lækkun á sköttum til íbúanna vegna fasteignaskatta af íbúðarhúsnæði er þessi upphæð, 8,2 millj. kr. Útsvarið hækkar á næsta ári um 6,5 millj. og við næstu skattahækkun ríkisstjórnarinnar, sem sveitarfélögin eru látin framfylgja, nemur skattahækkunin 13,5 millj. Hver er þá kjarabótin fyrir íbúa þessa sveitarfélags?

Ég spái því, þó að ég hafi ekki séð nema eitt sveitarfélag, að þannig líti dæmið út hjá fleiri sveitarfélögum. Ég veit ekki, herra forseti, hvaða reiknilíkön hv. nefnd notaðist við en þetta eru dæmi sem bæjarstjórar og sveitarstjórnir þurfa að vinna með þessa stundina við að búa til fjárhagsáætlanir sínar.

Varðandi húshitunina þá verður gaman að bíða og sjá hvað kemur út úr því milli 2. og 3. umr. Vonandi verður það eitthvað sem ég get hælt nefndarmönnum fyrir. Ég minni hins vegar á að það átti að jafna húshitunarkostnaðinn í landinu og það er ekki jöfnun á húshitun í landinu ef dýrar hitaveitur verða skildar eftir.