2000-12-01 00:11:03# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[24:11]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Hin kalda staðreynd í þessu máli er að þau ár sem Sjálfstfl. og Framsfl. hafa farið með stjórn landsmála hafa rúmlega tvö þúsund manns flutt á ári hverju hingað á höfuðborgarsvæðið. Það eru hinar köldu staðreyndir. Menn geta hælt sér af þeim fáu verkefnum sem hægt er að telja upp en betur má ef duga skal. (Gripið fram í: Hver var niðurgreiðslan?)

Herra forseti. Hér var talað um jöfnun húshitunar. Er það jöfnun húshitunar að þeir sem búa á svæði Rafmagnsveitna ríkisins borga 73 þús. kr. fyrir húshitun þrátt fyrir að sú nefnd sem ég hef vitnað í hafi lofað að kostnaðurinn færi niður í 64 þús. kr.? Er það jöfnun húshitunarkostnaðar að Akurnesingar þurfa að borga 95 þús., Borgnesingar 79 þús., Sigfirðingar 85 þús. og Akureyringar 87 þús. kr. á ári?

Staðreyndin er sú, herra forseti, að dýru hitaveitusvæðunum hefur verið sleppt. Það er með ólíkindum að fulltrúar iðnrn. sem hafa sinnt þessum verkum hafi ævinlega sleppt því að fjalla um dýru hitaveiturnar, þau svæði. Ég hygg að svo sé enn þá enda kom það fram í svari hæstv. iðnrh. ekki alls fyrir löngu að það virtist vefjast fyrir mönnum hvernig taka ætti á hitaveitunum. Þannig að það vantar enn þá á.

Ég skal alveg vera sanngjarn og hæla --- ég gerði það reyndar í fyrra --- hv. þm. og stjórnarliðum fyrir þær 160 millj. sem bættust í þennan pott á síðasta ári. En það var ekki nóg og ekki í takt við þau loforð sem gefin voru. Þeirra efnda sér enn ekki stað en við skulum vona að þau loforð verði uppfyllt milli 2. og 3. umr. Við skulum vona að þá komi um 200 millj. í þennan pott eins og mér sýnist vanta.