2000-12-01 00:17:37# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[24:17]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Þessi ræða hv. þm. var mest útúrsnúningur. Ég var aldrei að tala um þær upphæðir sem veittar eru í gærur og geymslukostnað. Ég var að taka það til samanburðar, hv. þm., og bera það saman við framlag til Byggðastofnunar.

Hv. þm. Jón Kristjánsson sneri líka út úr og fór með rangt mál. Ég skal því gera það hér og nú, ef hv. þm. mundi líða betur á eftir, að hæla því og þakka fyrir að Byggðastofnun skuli hafa verið flutt út á land sem hefði náttúrlega átt að vera búið að gera fyrir lifandis löngu.

En málið snýst ekkert um það. Það sem við erum að tala um er að til byggðamála eða til Byggðastofnunar er varið 198 milljónum en í gærur, geymslu og vaxtakostnað er talan miklu hærri.

Hv. þm. ræddi hér lítils háttar um lækkun fasteignaskatta á landsbyggðinni. Það er rétt að þetta lækkar fasteignaskatt af íbúðum á landsbyggðinni. Það er alveg hárrétt og ég hef tekið dæmi úr einu sveitarfélagi upp á 8,2 milljónir. En hv. þm. gat ekkert um það að hann sem stjórnarþingmaður var að samþykkja í gær að hækka skatta í landinu og láta sveitarfélögin gera það. Íbúar litlu sveitarfélagann sem verða að nýta sér þessa hækkun munu greiða 13 millj. kr. meira í útsvar en þeir gera í ár. (ÍGP: 13 milljónir á ...) 13 milljónir í heildarútsvarstekjur hjá viðkomandi sveitarfélagi. Ég heyri að hv. þm. hefur ekki skilið þetta og ég verð bara að búa við það.