2000-12-01 00:30:54# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[24:30]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Í upphafi ræðu sinnar ræddi hv. þm. töluvert um formann sinn og líkti honum við skipstjóra, happaskipstjóra, mjög góðan ,,skipper``, skildist mér, og að það væri ekki síst stjórn hans að þakka hvernig gengið hefði í efnahagsmálum.

Það leiðir hugann að því að hæstv. forsrh. hefur verið forsrh. í tveimur ríkisstjórnum og núna í langt gengin tíu ár. Á fyrri hluta þessa tímabils gekk ekki svona vel. Í a.m.k. fjögur ár gekk þetta eiginlega hörmulega hjá hæstv. forsrh. Hann fiskaði lítið á skipið og að hans mati var hallæri í landinu. Kunni hæstv. forsrh. þá ekki á græjurnar, þekkti hann ekki á kompásinn, var hann ekki búinn að læra á tækin í brúnni eða voru hásetarnir óreyndir og slappir? Hvað var að á skútunni hjá hæstv. forsrh. fyrri hluta tímabilsins úr því að góðærið á seinni hlutanum er allt honum að þakka?

Er hv. þm. sannfærður um að uppruni alls góðs í fjármálastjórn og góðæri til lands og sjávar sé komið frá hæstv. forsrh.? Eða gæti nokkuð verið að landið gæfi misjafnlega af sér, sjórinn og atvinnulífið, burt séð frá því hver situr í forsrn.?