2000-12-01 00:37:29# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[24:37]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað hefur margt annað komið til og erfitt að telja það hér upp í stuttu andsvari. Ég hef líka haldið því fram að það frjálsræði sem innleitt hefur verið á síðustu tíu árum í peningamálum hafi í raun einnig skapað þann stöðugleika sem við búum við í dag, þ.e. að nú geta allir í rauninni stofnað verslanir, náð sér í peninga erlendis frá og heima, fjárfest og ávaxtað sitt pund með miklu eðlilegri hætti en nokkurn tíma áður.

Einkavæðing fyrirtækja hefur líka verið miklu stærri í sniðum en nokkurn tíma áður og sá sósíaliski bragur sem hv. þm. hefur viljað hafa á hlutunum og talað um hér í kvöld hefur ekki verið við lýði. Ég mundi segja að með Framsfl. hafi Sjálfstfl. líka fengið mjög góðan samstarfsaðila sem hefur ... (ÖJ: Leiðitaman.) Alls ekki. Hv. þm. Framsfl. hafa haft sínar skoðanir. Aftur á móti hafa skoðanir þessa tveggja flokka farið mjög saman um það hvernig best sé að ná árangri í stjórn efnahagsmála.

Ég held að það sé mikils virði fyrir þjóðina og þjóðin hefur líka sýnt það. Þjóðin kaus þessa tvo flokka aftur til þess að stjórna skútunni vegna þess að þeir höfðu stjórnað skútunni mjög vel í fjögur ár þar á undan. Það hafði því miður ekki gerst með Alþfl. Það varð ekki eins góð útkoma ... (Gripið fram í: Þú varst að segja það áðan.) Ég sagði að fyrri hlutinn hefði verið góður. Ég sagði það, ef hv. þm. muna það ekki. En seinni hlutinn var ekki eins góður. Það var kannski ástæða þess að ekki tókst samstarf með Alþfl. í annað sinn.