2000-12-01 01:01:26# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[25:01]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér liggja frammi til 2. umr. fjárlög íslenska ríkisins fyrir árið 2001. Á undanförnum árum hafa menn leikið sér að því að leggja dýpri merkingu í ytri umgjörð fjárlagafrv. Þegar eintakið í ár er skoðað með því hugarfari þá virðist mér sem bjartsýnin sem einkennt hefur hæstv. ríkisstjórn undanfarin ár, eftir að tekið var að afgreiða fjárlög á rekstrargrunni, sé nokkuð að dofna og nokkuð grængolandi sá litur sem valinn hefur verið á kápusíðu bókarinnar. Greinilegt er af umræðunum í dag að ríkisstjórnin er komin í nokkuð vandræðalega stöðu, t.d. vegna viðskiptahallans sem liðast eins og Miðgarðsormur forðum í kringum landið og miðin og sýnt er að mikið verður að koma til eigi hann ekki að króa okkur inni og kalla fram harkaleg viðbrögð svo sem gengisfellingar og óðaverðbólgu sem við höfum áður glímt við hér á landi.

Það er líka ljóst að þær ráðstafanir sem ríkið kann að grípa til til að sporna við harkalegri lendingu verða ekki allar jafngeðslegar. Það er t.d. kvíðvænlegt ef stórir þættir í efnahag okkar, t.d. Landssíminn, verða seldir til útlanda til að bjarga málunum. Víst er að t.d. Landssíminn verður ekki seldur nema einu sinni og svo er með aðrar ríkiseignir okkar sem við höfum haft ómældan hag af og nú stendur til að setja á útsölu.

Meira að segja hv. formaður fjárln. viðurkenndi hér í umræðum fyrr í dag að viðskiptahallinn væri hættulegur, enda er hann nú um 8% af landsframleiðslu og gengið hefur hríðfallið á árinu og er nú um 10% lægra en í maí þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi varið verulegum fjármunum til að verja það. Nú ríkir einhvers konar jafnvægi sem ýmsum þykir nú ekki traust í sniðum en guð láti gott á vita.

Fjármagnsmarkaðurinn sem ýmsir bundu miklar vonir við hefur svo sannarlega lekið niður, sérstaklega eftir að milliuppgjör fyrirtækja olli miklum vonbrigðum í sumar og eru fjármagnseigendur nú á hröðum flótta úr landi með verðbréfaspekúlasjónir sínar. Það hefur haft frekar óholl áhrif á gengið eins og vænta mátti, herra forseti. Játning hv. formanns fjárln. um alvarleika stöðunnar hér í dag er sögulegur atburður því á undanförnum árum og mánuðum, þegar Samfylkingin og ýmsar stofnanir hafa haft uppi viðvörunarorð, hafa talsmenn hæstv. ríkisstjórnar látið sér fátt um finnast og talað um góðkynja viðskiptahalla. Það verður því að teljast mikilsverð framför að þeir skuli nú viðurkenna vandann. Það er t.d. talin forsenda þess að áfengis- og eiturlyfjasjúklingar nái bata að þeir viðurkenni vandann. Og því skyldi það þá ekki vera forsenda þess að ríkisstjórnin fari að stjórna með opin augun? Tillaga um aukið svigrúm lífeyrissjóðanna til að fjárfesta erlendis hefði varla verið lögð fram af hæstv. ríkisstjórn síðasta vor hefðu þeir haft augun opin.

Fyrrverandi sérfræðingur Seðlabankans hefur látið svo um mælt að ríkið hafi rekið of harða peningastefnu en of slaka stefnu í ríkisfjármálum. Ég vil að nokkru taka undir þann dóm. Hin gríðarlega harða vaxtastefna sem hér hefur verið framfylgt að undanförnu er t.d. farin að valda vandræðum í rekstri fyrirtækja, að ég nú ekki tali um heimili sem í vandræðum sínum eiga ekki rétt á neinum lánum til að halda sér á floti nema skuldabréfum með yfir 18% vöxtum. Allir sjá hve björgulegt slíkt lán er fyrir þá sem eiga í vandræðum fyrir.

Ef hæstv. ríkisstjórn hefði verið með fullri meðvitund þegar rofa fór til fyrir fáum árum hér í þjóðarbúskapnum og þenslueinkenna var byrjað að gæta þá hefði hún ekki lækkað tekjuskatt á einstaklingum og fyrirtækjum eins og hún gerði þó einlæglega væri varað við þeirri aðgerð. Það hefði verið nær að hækka skattleysismörk til að minnka þrýstinginn á þeim sem verst stóðu og láta það duga í bili. En hæstv. ríkisstjórn var þá enn í álögum og hefur verið síðan þó í dag sjáist þess nokkur teikn að álagahamurinn sé að detta af henni, a.m.k. af hluta stuðningsmanna hennar.

Hæstv. forseti. Ég ætla að nota tíma minn hér í ræðustól til að fjalla um þá málaflokka sem mér er trúað fyrir í þinginu um þessar mundir en það eru menntamál og landbúnaðarmál. Ég byrja á menntamálunum.

Samkvæmt fjárlagafrv. eru áætluð gjöld á rekstrargrunni í þeim málaflokki rúmir 23 milljarðar kr. en þá voru augljóslega ekki öll kurl komin til grafar. Það blasti við að þar átti eftir að taka á nokkrum veigamiklum þáttum. Málin eru nú smám saman að skýrast enda hefur liðurinn bólgnað mjög út á milli umræðna og á að sumu leyti vonandi eftir að bólgna enn þá meira.

Við fjárlagaumræðuna í fyrra kom hæstv. menntmrh. mjög vígreifur til umræðunnar og taldi sig hafa þann dag í hádeginu leyst öll fjárhagsvandræði Háskóla Íslands í bráð og lengd. Það voru einungis alræmdir efasemdarmenn eins og sá þingmaður sem hér stendur sem töldu að þetta lýsti nokkuð mikilli bjartsýni. Það hefur enda komið í ljós að reiknilíkanið sem notast var við er ekki gallalaust fremur en önnur mannanna verk. Treglega hefur gengið að fá viðurkenndan rannsóknarþáttinn þrátt fyrir að yfirlýsing hafi verið gefin út hinn 5. október 1999 þar sem menntmrh. hæstv. og forsvarsmenn Háskóla Íslands eru sagðir sammála um að rannsóknin sé ekki síður mikilvægur þáttur en kennsla. Á þessum grundvelli hafa forsvarsmenn Háskóla Íslands vænst þess að fjárveitingar til rannsókna yrðu jafnháar fjárveitingum til kennslu eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar þegar um er að ræða ,,universitas`` en auk þess hafa þær stofnanir sértekjur, rannsóknarstyrki o.fl. sem nemur um þriðjungi heildartekna.

Brýnt er að lokið verði við samning um rannsóknarfé til háskólans sem boðaður hefur verið. Þar að auki telur Háskóli Íslands að um 200 milljónir vanti í fjárlagafrv. vegna fjölgunar nemenda. Við þeirri stöðu er væntanlega brugðist á liðnum Háskólar, óskipt. Þar er bætt inn 90 milljónum vegna fjölgunar nemenda en að því er mér skilst í háskólum yfirleitt, þannig að það á ekki einungis við um Háskóla Íslands þó væntanlega fái hann bita af þeirri köku.

En betur má ef duga skal. Vandséð er hvað má verða háskólanum til bjargar. En þá neyðin er stærst er hjálpin næst og það kemur í ljós að fjárln. hefur eftir ítarlega leit fundið matarholu sem betur mátti nýta. 9 milljónir stóðu út af áður áætluðum tekjum á sóknargjöldum og hv. fjárln. er svo rausnarleg að gefa Háskólanum leyfi til að nýta þær tekjur.

En gatið er enn stórt ef reiknimeistarar háskólans hafa reiknað rétt. Ef allir skila sér til náms, sem gert er ráð fyrir á komandi ári, þá er hætt við að þarna myndist halli, hæstv. forseti. Það vantar upp á að fjárlagafrv. geri ráð fyrir þeim gjöldum sem fyrirséð eru.

Auk þessa fór háskólinn fram á að fá fé til að ljúka byggingu Náttúrufræðihúss en við þeirri beiðni er ekki orðið og happdrættinu sjálfsagt ætlað að gegna því hlutverki áfram eins og hingað til. En tekjur þess hafa dregist saman eins og öllum er kunnugt og ég veit ekki hvernig það gengur lengur að happdrættið eigi að bera uppi nánast allar framkvæmdir og viðhald á háskólalóðinni.

Hér liggja frammi brtt. frá Samfylkingunni um að 100 millj. verði varið til byggingar Náttúrufræðihúss. Enn fremur fór Háskólinn fram á 27 millj. til að taka upp nám í arkitektúr og 5 millj. til að kenna táknmálstúlkun. Ekki hefur verið orðið við þeim óskum og er það að verða spennutryllir hvar hæstv. menntmrh. hyggst vista arkitektanámið sem hann hefur sagst hafa svo mikinn áhuga á að koma upp hér á landi.

Háskólinn á Akureyri ríður heldur ekki feitum hesti frá þessu fjárlagafrv. Þar er beinlínis gert ráð fyrir lækkun milli ára en enn hefur ekki verið lokið við gerð reiknilíkans til viðmiðunar við fjárlagatillögu til skólans. Í heimsókn forsvarsmanna skólans til hv. menntmn. kom fram að þeir telja sig ekki geta tryggt óbreytta starfsemi við skólann með núverandi fjárframlögum. Það væri mikill skaði ef þeir þyrftu að skerða starfsemi sína af þessum sökum en Háskólinn á Akureyri hefur veitt mjög hagnýta háskólamenntun og nemendur þar hafa skilað sér vel í störf, t.d. á landsbyggðinni þar sem oft hefur verið þörf en nú nauðsyn.

Í brtt. Samfylkingarinnar við fjárlagafrv. eru m.a. tillögur um 100 millj. kr. framlag til byggingar rannsóknarhúss við Háskólann á Akureyri. Háskólinn á Akureyri biður um fjármagn til rannsóknarleyfa og fær ekki, alla vega ekki við þessa umræðu. Einnig vantar stórkostlega upp á að nægilegt fjármagn sé ætlað til fjarkennslu frá háskólanum og raunar líka frá Kennaraháskólanum. Í raun er óskiljanlegt hve mikið fálæti fjárveitingavaldið sýnir fjarkennslu á háskólastigi sem þó er einhver merkasta nýjung sem hér hefur komið fram á síðustu árum og er í örri þróun. Það hefur komið fram hjá hv. formanni fjárln. hér í umræðunni að nefndin ígrundi nú milli umræðna að setja aukið fjármagn, að því er mér skildist, til fjarkennslu og slíks. Ég bara vona að þar fæðist fótur við 3. umr.

Samfylkingin leggur til að 100 millj. til viðbótar fari til fjarkennslu á háskólastigi. Ég tel að hv. þingheimur gæti nú sameinast um að samþykkja þá tillögu og spara sér frekari áreynslu í því máli. Samþykkt þeirrar tillögu yrði landi og þjóð örugglega til mikilla heilla.

Tækniskólinn hefur löngum verið olnbogabarn í menntakerfi okkar og óskiljanlegt er hve illa þeim skóla hefur verið sinnt á undanförnum árum, svo mikilvægt sem það nám er, t.d. fyrir viðgang atvinnuveganna hér á landi. Það munar 64 millj. kr. á fjárveitingum þeim sem skólinn fær í frv. og því sem hann ætti að fá ef hann væri felldur inn í reiknitölur samkvæmt forsendum ráðuneytisins fyrir aðra skóla, en við skólann hefur ekki enn verið gerður samningur. Í nál. menntmn. er lögð áhersla á að niðurstaða fáist í áætlanir um framtíð skólans svo að starfsfólk hans þurfi ekki áfram að búa við þá óvissu um framtíðina sem lengi hefur svifið yfir vötnunum þar á bæ. Það er vonandi að hæstv. ráðherra taki nú við sér og komi þessum málum á hreint. Ég verð þó að láta í ljósi þá frómu ósk að það verði ekki gert með því að gera Tækniskóla Íslands, flaggskip tæknimenntunar á Íslandi, að einkaskóla. Það er að mínu mati ekki vænlegt til að hvetja til frekari afreka í tækninámi á Íslandi að innheimta skólagjöld af nemendum.

[25:15]

Framhaldsskólastigið er náttúrlega eitt svartnætti þessa dagana. Þó að fjárlagafrv. sem liggur hér á borðum, svo grængolandi sem það er, hafi verið komið fram áður en verkfallið skall á er framhaldsskólastigið greinilega mjög vængbrotið í þeirri fjárlagameðferð sem það fær í fyrirliggjandi frv.

Það reiknilíkan sem átti að bjarga öllu hefur reynst mjög gallað svo að sumir skólar bera mjög skarðan hlut frá borði. Það var á sínum tíma smíðað utan um framhaldsskólakerfi í miklum niðurskurði og ekki gert ráð fyrir skólaháðum breytum eins og mismunandi aldurssamsetningu kennara og mismunandi menntunarsamsetningu kennara. Einnig má tiltaka atriði eins og ræstingu í verknámshúsnæði. Til slíkra atriða eins og þessara sem ég hef talið upp og margra fleiri er ekki tekið tillit í þessu frv. Þess vegna passar það svo gríðarlega illa við ýmsa framhaldsskóla og raunar flesta því að í heild búa skólarnir við hallarekstur og sumir skólar fara verulega illa út úr þessu kerfi. Öldungadeildir fara mjög illa út úr þessum reiknireglum og var það þó besta tilboð um símenntun og endurmenntun á þessu skólastigi sem til var í landinu og hefur nýst mörgum vel hingað til þó nú hafi dregið úr.

Öldungadeildirnar eru settar undir sama hatt og dagskólinn hvað varðar nemendaígildi og það gengur hreinlega ekki upp, herra forseti. Þess má einnig geta að grunnurinn um búnað er brostinn, tölvukostnaður er t.d. stórlega vanáætlaður og virðast fjárlagatillögur meiri hlutans ekki gera ráð fyrir breytingum sem duga. Framhaldsskólinn er reyndar algjörlega úti í kuldanum þessa dagana og hefur hæstv. mennmtrh. nýlega opinberað að hann ætli sér ekki að hafa nein afskipti af lausn þeirrar erfiðu deilu sem hefur lamað þar alla starfsemi um sinn og vissi maður ekki hvort maður átti að trúa eigin eyrum þegar sá boðskapur var látinn út ganga.

Það er þó einn angi framhaldsskóla sem hæstv. ráðherrann ber fyrir brjósti en það er ný elítuskóli sem er áætlað að taki til starfa á Íslandi á komandi ári. Hann á að vera einkarekinn með vel launaða kennara af fínustu sort sem þurfa ekki að fara í verkfall til að eiga fyrir salti í grautinn. Þar fá að stunda nám börn þeirra foreldra sem geta borgað fyrir sinn snúð. Þvílík dýrð, þvílík dásemd. Og menntmrh. ætlar að leggja fram 100 millj. á ári til að slíkur skóli megi starfa.

Ekki verður nægilega vel ítrekað að Samfylkingin er algjörlega á móti slíkum skóla og raunar vona ég að allt heiðarlega hugsandi fólk í þessu landi sé á móti slíkum skóla.

En Samfylkingin er þó fylgjandi að slík tilraun verði gerð með hraðferð innan hins almenna skólakerfis og þessir fjármunir veðri nýttir þar. Auðvitað er mjög auðvelt að setja upp slíkar deildir í tveimur, þremur skólum á landinu fyrir bestu nemendurna. Ég tala ekki um ef þetta fjármagn fylgir með og þarf enga einkaskóla til þess að gera þetta.

Samfylkingin leggur til í fjárlagatillögum sínum að 200 millj. verði varið til viðbótar til upplýsingatækni í framhaldsskólunum, 200 millj. verði varið til lagfæringa á reiknilíkani þeirra og aukinnar fjarkennslu auk þess sem 50 millj. verði varið sérstaklega til fjarkennslu fatlaðra og 100 millj. verði settar í aukna nýbúafræðslu á vegum framhaldsskólanna. Það er ákaflega nauðsynlegt að nýbúum, sem ætla að setjast hér að til frambúðar, séu gefnir fjölbreyttir möguleikar til náms. Ef vel tekst til verða þeir okkur enn þá nýtari þjóðfélagsþegnar og hafa betri möguleika til að samlagast þjóð okkar og auðga íslenskt mannlíf því við Íslendingar getum vissulega margt lært af þessu fólki eins og stundvísi og iðjusemi en þá eðliskosti hafa hinir nýju samborgarar okkar í ríkum mæli.

Námsgagnastofnun, sem starfar fyrir grunnskólastigið samkvæmt lögum, hefur á undanförnum árum verið ákafleg fjársvelt og fjárveitingar til stofnunarinnar hafa í mörg ár ekki verið í neinu samræmi við þær skyldur sem stofnuninni hafa verið lagðar á herðar um að sjá grunnskólanemendum fyrir námsefni sem þýðir nú til dags ekki bara skólabækur, herra forseti.

Fyrir fáum missirum síðan var látin út ganga ný námskrá sem gerði ráð fyrir mjög breyttum áherslum í skólastarfinu. Svo ég taki bara eitt dæmi var áætlað að færa byrjendakennslu í dönsku til mun eldri nemenda þannig að það byrjendakennsluefni, sem er nú til í dönsku, passar alls ekki fyrir þann nemendahóp. En það er ekki nokkur möguleiki, samkvæmt því sem forsvarsmenn stofnunarinnar sögðu við okkur í menntmn. þegar þeir komu til okkar í heimsókn, að hægt sé að gera nokkuð fyrir þær fjárveitingar sem stofnuninni eru ætlaðar nema endurprenta hluta af því námsefni sem til er og hefur verið í notkun undanfarin 20--30 ár, því að við notum námsefni lengi, Íslendingar, mun lengur en nokkrar aðrar þjóðir.

Íslenskir kennarar eru því dæmdir til að kenna úrelt námsefni sem passar illa fyrir þá nemendur sem þeir eru að kenna vegna þess að það hefur gleymst að gera ráð fyrir því í fjárlögum ríkisins að ríkið sinnti þessari skyldu sinni sem það hefur þó enn þá við grunnskólann í landinu.

Ég verð að segja að mér blöskraði þegar ég sá eftir það erindi sem við vorum samhljóða búin að senda frá menntmn. til fjárln. þær 20 millj. sem þeir bættu í púkkið milli umræðna. Fyrir 20 millj. verða ekki gerðir stórir hlutir í útgáfu námsefnis fyrir öll landsins börn, tugi þúsunda að tölu, herra forseti. 20 millj. eru bara smápeningar í því sambandi. Ég held að mjög æskilegt væri að fjárln. tæki þessa upphæð til endurskoðunar milli umræðna ef þeir gætu hugsanlega farið í einhverjar eftirleitir og fundið einhverja matarholu þar sem þeir gætu fiskað upp einhverja peninga.

Námsgagnastofnun hafði nokkrar tekjur á árum áður af Skólavörubúðinni. Miklum ofsjónum var séð yfir Skólavörubúðinni og öll heimsins fyrirtæki, liggur mér við að segja, vildu gleypa Skólavörubúðina og eignast hana og töldu sig geta rekið hana miklu betur en ríkið, sem hafði þó rekið hana svo vel að nánast allir kennarar í landinu voru afar ánægðir með þann rekstur. En Skólavörubúðin var seld og hún verður ekki seld aftur frekar en aðrar mjólkurkýr. Þeir peningar eru hættir að koma inn sem sértekjur til stofnunarinnar og af rausn sinni ákvað menntmrh. á sl. ári að söluverð Námsgagnastofnunar, sem ég held að hafi verið 30 millj. eða eitthvað því um líkt, rynni til námsgagnagerðar og það er náttúrlega löngu búið og verður ekki notað aftur.

Ég vona að tekið verði á málefnum Námsgagnastofnunar milli umræðna og treysti því raunar. Það eru ekki margar skyldur sem ríkið hefur við grunnskólastigið í landinu, þetta er sú veigamesta, mundi ég segja, og þarna verður að taka á.

Ég var búin að boða að ég mundi fara nokkrum orðum um álit landbn. en ég skrifaði undir það álit ásamt hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni með fyrirvara. Eitthvað hafði farist fyrir að geta um þann fyrirvara og þegar ég hafði samband við nefndarritarann var búið að dreifa frv. En þessu verður breytt á netinu og verður getið í þingtíðindum. Hér með er ég náttúrlega að koma leiðréttingu á framfæri sjálf en ekki var hægt að leiðrétta þetta eftir að umræða var hafin í dag og ég bið forláts á því.

Það er svo sem margt gott í þessu áliti. Ég vil fyrst tiltaka að nefndin ræddi nokkuð þau vonbrigði sem þeir sem stóðu að a.m.k. sumum þessum landshlutabundnu skógræktarverkefnum urðu fyrir þegar þeir lásu fjárlagafrv. Við töluðum um að nauðsynlegt væri að samningsbinda þessar framkvæmdir þannig að þeir sem eru að skipuleggja þetta starf vissu á hverju þeir ættu von. Jafnframt fórum við fram á að þetta yrði hækkað eitthvað en ég held að við höfum öll orðið yfir okkur hissa þegar við sáum viðbrögðin því að hv. fjárln. hafði næstum yfir-reagerað við þessari beiðni frá landbn. Nú er landbn. afskaplega hógvær nefnd og biður ekki um margt. Fjárln. hefur náttúrlega orðið svo ánægð að það skyldi yfirleitt berast einhver beiðni frá þessari nefnd að þeir tóku svona vel í þetta að við urðum nánast alveg bit þegar við sáum viðbrögðin. Við teljum jafnvel að það hafi verið hækkað meira en a.m.k. sumir aðstandenda þessar verkefna geti ráðið vel við en það verður að láta á það reyna.

Við vorum einnig að tala um erfiða stöðu loðdýrabænda. Þar vöktum við athygli á nauðsyn rammasamnings milli ríkis og bænda, einkum og sér í lagi til þess að það verði eins og í skógræktarverkefnunum að bændur viti hvers þeir mega vænta í fyrirgreiðslu frá ríkinu.

Við báðum um fjárframlag til Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum til að tryggja framgang garðyrkjumiðstöðvar og einnig þar brást hv. fjárln. afskaplega vel við og voru veittar 15 millj. til að ljúka byggingu þessarar garðyrkjumiðstöðvar og ég þakka það að sjálfsögðu.

[25:30]

Hins vegar komu fulltrúar Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og báru sig illa yfir þeim fjárveitingum sem þeir höfðu fengið til starfsemi sinnar og alla vega hefur það ekki gerst fyrir 2. umr. að orðið hafi verið við beiðnum þeirra að neinu marki. Ég held að það hljóti að þurfa að taka málefni landbúnaðarskólanna beggja eitthvað til umræðu í nefndinni milli 2. og 3. umr. vegna þess að t.d. á Hólum var á síðasta ári sett fjárframlag til að undirbúa byggingu reiðskemmu en á þessu ári koma engin frekari framlög til að halda áfram og byggja upp þá reiðskemmu. Einnig er þarna í byggingu 2. áfangi fiskeldisrannsóknahúss sem mjög brýnt er að ljúka við og einhvern veginn hefur það gleymst, a.m.k. enn þá, í gerð frv. En ég vona að þetta megi færa til betri vegar milli umræðna.

Að lokum vil ég þakka hv. fjárln. eða meiri hluta hennar, eins og það er orðað, fyrir hversu vel þeir hafa tekið á ýmsum þjóðþrifaverkefnum fyrir þessa umræðu, sérstaklega sem lúta að menningartengdri ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Ég held að það sé til mikillar fyrirmyndar og ég hygg gott til glóðarinnar með margt það sem þarna er verið að styrkja, að það fari vel af stað og verði viðkomandi byggðum til framdráttar. Ég vil ljúka máli mínu með því að þakka sérstaklega framlag til ákveðins gæluverkefnis sem ég hef nú stundum tuðað um hér úr ræðustól og ekki fundist ég fá ákaflega miklar undirtektir við, en það er endurgerð Duushúsanna í Keflavík. En þarna sé ég í fyrsta sinn glytta í pening sem einhverju máli skiptir til varðveislu þeirra húsa og vil ég þakka það pent.