2000-12-01 01:32:30# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[25:32]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Félagar mínir í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði hafa í dag gert grein fyrir þeim brtt. sem við höfum lagt fram við gerð fjárlaga fyrir árið 2001. Þar sem nú er áliðið nætur mun ég reyna að stytta mál mitt og fara aðallega inn á þá pósta sem mér hefur verið falið af flokksins hálfu að annast og það eru aðallega iðnaðarnefndarmál.

Komið hefur fram í umræðunni í dag að tekið verði á málefnum Byggðastofnunar fyrir 3. umr. þannig að ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í Byggðastofnun og treysti því að í sambandi við atvinnuráðgjafa á landsbyggðinni verði tryggt fjármagn til að sinna þeim verkefnum sem þar eru innt af hendi.

Það sem ég ætla að gera að meginumræðuefni í kvöld er staða Rafmagnsveitna ríkisins. Það virðist vera hrollur í ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum að standa að nokkru sem lýtur að félagslegri jöfnun, allt púðrið fer í einkavæðingu án þess að gera sér nokkra grein fyrir því til hvers einkavæðingin leiðir. Og framlög hins opinbera eru skorin niður og þar eru Rafmagnsveitur ríkisins engin undantekning. Á undanförnum árum hafa framlög til Rafmagnsveitna ríkisins stórlækkað og eru á þessu ári ekki nema 135 millj. á lið iðnrn. og það er hugsað til þess að styrkja dreifikerfið í hinum dreifðu byggðum.

Nauðsynlegt er fyrir Rafmagnsveitur ríkisins að fá viðurkenningu á tilvist félagslegra verkefna eða óarðbærra rekstrareininga í starfsemi Rariks en það hefur ekki verið gert. Margoft hefur verið gerð úttekt á því hvernig þessi félagslegi þáttur er, þ.e. þau svæði sem borgar sig ekki að dreifa til og þurfa framlög. Við vitum stærðirnar, þetta eru árleg ríkisframlög til Rafmagnsveitna ríkisins sem ættu að vera á bilinu frá 300--700 millj. kr. að sumra mati eða á bilinu 400--650 millj. kr. samkvæmt úttekt sem Kaupþing vann á árinu 1998.

Það er algjörlega óviðunandi, virðulegi forseti, að staða raforkumála í landinu skuli vera með þeim hætti að stoðkerfi landsins í raforkumálum um hinar dreifðu byggðir skuli vera borið uppi af viðskiptamönnum Rariks á þéttbýlisstöðum sem eru úti um landsbyggðina, en ekki hér á höfuðborgarsvæði og hjá bæjarveitum sem eru á nokkrum stöðum á landinu og síðan hjá Akureyrarkaupstað. Allir þessir aðilar í samfélaginu eru stikkfrí við að byggja upp raforkukerfi sem þjónar landinu öllu. Þetta er forkastanlegt og það verður að horfast í augu við hvernig þessi mál standa í raun og veru.

Rafmagnsveitur ríkisins eru stórt fyrirtæki, þjóna nánast öllum utan bestu markaðssvæðanna, þ.e. höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Akureyri. Framleiðslugeiri Rariks er með 66 millj. kr. halla en flutningurinn, eins og fram kom áðan, sem er mjög erfiður úti um allt land utan stærstu þéttbýlisstaðanna, er rekinn með 111 millj. kr. tapi.

Bestu þéttbýlisstaðirnir á veitusvæði Rariks, stærstu kaupstaðirnir sem Rarik þjónar, gefa þó um 172 millj. í hagnað en í dreifbýlinu, strjálbýlinu, er 256 millj. kr. tap. Síðan hefur Rarik um 23 millj. kr. hagnað af þeim hitaveitum sem fyrirtækið rekur.

Virðulegi forseti. Óásættanlegt er að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki sjá sóma sinn í því, miðað við núverandi aðstæður, að gera þannig við Rafmagnsveitur ríkisins að þær standi jafnfætis öðrum þjónustufyrirtækjum sem selja raforku í landinu og við viðurkennum á þann hátt þann félagslega þátt sem Rafmagnsveitur ríkisins standa frammi fyrir. Það er ekki ásættanlegt að einungis stóru staðirnir úti á landi beri þann kostnað, þetta er dreifbýlisskattur eins og hann er settur upp núna og auðvitað eigum við öll að bera þann kostnað sem hlýst af því að dreifa raforku um landið allt og koma upp stoðkerfi sem við öll gerum okkur grein fyrir að þarf að vera í landinu.

Rekstrartekjur Rafmagnsveitna ríkisins voru 510 millj. kr. á síðasta ári og rekstrargjöldin þau sömu eða 510 millj. kr. Orkuöflun Rafmagnsveitna ríkisins er mjög óhagstæð vegna þess að aðkeypt orka fyrirtækisins er um 86%, vatnsorka fyrirtækisins er um 11% og varma- og jarðvarmaorka er um 3%. Fyrirtækið er því mjög illa sett varðandi orkuframleiðslu og þarf að kaupa dýra orku aðallega frá Landsvirkjun sem er langstærsti aðilinn sem selur inn á kerfi Rariks eða um 96,7% þó svo að það sé keypt einnig frá Andakílsárvirkjun um 2,8% og Sleitustaðavirkjun 1%.

Virðulegi forseti. Rafmagnsveitur ríkisins þurfa á þessum framlögum að halda en nú eru í burðarliðnum ný orkulög sem ríkisstjórnin hefur boðað, sem að öllum líkindum koma fram nú undir jól eða strax upp úr áramótum. Ný orkulög verða á grunni Evróputilskipunar um frjálsa sölu inn á einhvers konar landsnet. Það liggur alveg ljóst fyrir varðandi félagslega þáttinn, fari ríkisstjórnin þá leið sem hugur hennar stendur til, að hann verður að greiða með einum eða öðrum hætti af sameiginlegum sjóðum, hvaða formúlu sem menn síðan komast niður á. Það er forkastanlegt að ekki skuli vera hægt að taka á þessum málum núna með framlögum til rafmagnsveitnanna vegna þess að með nýjum orkulögum, eins og allt bendir til að þau muni líta út, verður félagslegi þátturinn tekinn út fyrir sviga.

Hvernig hafa aðrir leyst þennan félagslega þátt, í Evrópu, á meginlandinu? Því að það eru jú fleiri en Íslendingar sem hafa dreifbýli þar sem mjög dýrt er að dreifa orkunni. Margir aðilar hafa farið þá leið að setja framleiðslugjald á orku þannig að öll orka sem er framleidd í landinu er skattlögð og þeir peningar notaðir til að standa straum af kostnaði við stoðkerfi í hinum dreifðu byggðum. Þetta fyrirkomulag er t.d. viðhaft í Skotlandi svo dæmi séu nefnd. Þar eru norðursvæðin mjög strjálbýl og dýrt að dreifa orkunni.

Einnig er sú leið farin á meginlandi Evrópu að fikta við skattlagningu, t.d. í Noregi þar sem felldir eru niður skattar á raforku í hinum dreifðu byggðum og þá er þar aðallega um virðisaukaskatt að ræða.

En undir öllum kringumstæðum viðurkenna allir nauðsynina á því að allir landsmenn standi á einn eða annan hátt að þessari jöfnun. Eins og við höfum keyrt þessi mál núna vegna þess hve framlögin til Rafmagnsveitna ríkisins hafa dregist saman, má segja að kostnaðurinn við dreifingu í hinum dreifðu byggðum leggist nær einvörðungu á fólkið sem býr úti á landsbyggðinni.

Orkubú Vestfjarða er að nokkru leyti betur sett en Rafmagnsveitur ríkisins vegna þess að Orkubú Vestfjarða framleiðir sjálft um 30%, 1/3, af aflinu. Þeir hafa stóra virkjun og þeir hafa einnig minni virkjanir sem framleiða þannig að þetta er um 1/3. Innkaupin frá Landsvirkjun eru ekki nema u.þ.b. 2/3 af aflinu. En Rafmagnsveitur ríkisins eru illa settar, þær voru skildar eftir án orkuframleiðslu svo neinu nemi þannig að eigin framleiðsla fyrirtækisins er einvörðungu 7%.

Einnig verður að líta til þess, virðulegi forseti, að Rafmagnsveitur ríkisins geta á hagstæðan hátt unnið orku, þ.e. fyrirtækið sjálft. Og fyrirtækið hefur uppi áform um virkjanir svo sem Villinganesvirkjun, sem er talin hagstæð upp á 30--40 megavött og gufuaflsvirkjun í Grændal upp á 90 megavött þar sem talað er um að orkuverð á kwst. verði ekki nema 90 aurar.

Virðulegi forseti. Mál Rafmagnsveitna ríkisins er stórmál. Svo ég tali í líkingamáli að hætti garðyrkjumannsins þá er það þannig varðandi byggðamálin að þetta er eins og að rækta blóm. Það er hægt að bera á þau allan þann áburð og úðað á þau öllum þeim efnum vegna þess að það er vannært, en það gengur ekki neitt ef jarðvegurinn er ekki í lagi. Og jarðvegurinn hvað varðar hinar dreifðu byggðir og landsbyggðina varðandi orkumálin, þau mál eru ekki í lagi. Og að hætti garðyrkjumannsins þarf að stinga upp og laga jarðveginn.

Og sannarlega þarf að laga jarðveginn í þessu máli vegna þess að hundruð milljóna króna skattlagning á lífvænlegustu þéttbýlisstaðina utan suðvesturhornsins til þess að standa straum af öllu rafmagnsstoðkerfi í landinu, er ósanngjörn. Það er í hæsta máta ósanngjarnt að fjölskyldan mín á Dalvík við Eyjafjörð skuli þurfa að standa straum af þessum kostnaði með mjög háu raforkuverði meðan fjölskyldan mín í Reykjavík eða fjölskyldan mín á Akureyri eru gjörsamlega stikkfríar.

[25:45]

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum aldrei verið feimin við að segja að við eigum að nota opinbert fé til að framkalla jöfnuð. En grunur minn er sá að í einkavæðingar- og frjálsræðistalinu hafi Rafmagnsveitur ríkisins klemmst. Ekki er um annað að ræða en styðja myndarlega með framlögum úr ríkissjóði við Rafmagnsveitur ríkisins og viðurkenna þar með að félagslegi þátturinn kostar á bilinu 400--700 millj. á ári og er ósanngjarnt að láta suma landsmenn út um hinar dreifðu byggðir í þéttbýliskjörnunum borga brúsann en láta hina alla vera stikkfrí. Jöfnunarsjóðurinn okkar allra í þessu tilfelli er ríkissjóður. Með nýjum orkulögum verður hæstv. ríkisstjórn, ef hún fer fram með þau eins og horfir, hvort eð er að horfast í augu við það. Það eru bara til þessar tvær leiðir á grunni tilskipunar ESB um ný orkulög. Það verður að fara aðra hvora leiðina sem er notuð í Evrópu og þá kemur það út á eitt í raun og veru og það er eins og ég sagði áðan. Það er framleiðslugjald á orkuframleiðsluna eins og Skotar gera eða að fara skattaleiðina og niðurfella virðisaukaskatt eins og Norðmenn gera.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna en vil koma þessu sterklega á framfæri. Framlög til landsbyggðarinnar, kokhreysti ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til styrktar landsbyggðinni eru innantómt hjal ef ekki er farið í grunninn og leiðrétt sjálfsagt rekstrardæmi eins og Rafmagnsveitur ríkisins eru. Það eru mörg hundruð millj. kr. dæmi og landsbyggðarfólkið í þéttbýlisstöðunum á heimtingu á því, eins og við öll reyndar, að aðrir landsmenn taki þátt í því að fjármagna og standa undir kostnaði við þær einingar sem eru taldar óhagkvæmar þannig að byrðarnar dreifist á okkur öll. Fram að breytingum á orkulögum eða fram að framkomu nýrra orkulaga á því að sjálfsögðu að nota ríkissjóð til að framkalla þessa jöfnun og því hefur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð lagt til að framlagið verði aukið strax við þessi fjárlög til Rafmagnsveitna ríkisins vegna félagslega þáttarins um 100 millj. kr.