2000-12-01 01:48:16# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[25:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta er orðin nokkuð mikil umræða, prýðileg á margan hátt og ekkert nema mjög gott um það að segja að menn ræði fjárlög ríkisins vel og ítarlega. Ég held að menn eigi ekki að telja eftir sér tímann sem í það fer, jafnvel þó í það fari eins og bróðurparturinn af sólarhring. Ég geri það a.m.k. ekki og það er ekki verri tími til þess að ræða þetta núna milli miðnættis og miðmorguns en hver önnur stund.

Það er aðallega eitt sem mér finnst vera að í umræðunni, herra forseti, og í raun og veru til skammar. Ég ætla að láta það koma fram að ég lýsi megnustu óánægju með það og það er viðvera eða öllu heldur ekki viðvera hæstv. ráðherra við umræðuna. Ég tel það, herra forseti, vera til skammar að hér skuli klukkutímum saman ekki sjást einn einasti ráðherra í þingsalnum. Ég tel í raun og veru vera til skammar að hæstv. fjmrh. skuli ekki sýna umræðunni þá virðingu að vera viðstaddur, a.m.k. af og til, þannig að það sjáist að hann er einhvers staðar nálægur umræðunni. Ef hann má því ekki við koma af einhverjum ástæðum, þá hefði mér fundist að það ætti að fresta umræðunni. Mér finnst þetta til skammar, herra forseti. Mér finnst ekki vansalaust fyrir forsetana að láta þessa hluti ganga svona fyrir sig klukkutímum saman. Það er leiðinlegt fyrir þingmenn að þurfa að koma hér, nöldra og vekja athygli á jafnsjálfsögðum hlutum og þeim að það er eðlilegt að ríkisstjórnin eigi einhverja fulltrúa við svona umræður.

(Forseti (GuðjG): Aðeins vegna þessarar athugasemdar vill forseti taka fram að hæstv. fjmrh. var við umræðuna frá kl. 1 í dag og í húsinu fram yfir miðnætti.)

Já, já. Það er alveg skínandi gott, herra forseti, en er hæstv. forseti með því að afsaka að hæstv. fjmrh. sé ekki hér til enda umræðunnar? Finnst honum það vera til fyrirmyndar? Ber að skilja þetta inngrip forseta í mín orð þannig eða hvað? Forseti svarar því kannski á eftir ef ég fæ að ljúka mínu máli fyrst.

Ég vil svo undanskilja að hér hefur verið allan tímann formaður fjárln. og það er til fyrirmyndar og hann hefur tekið þátt í umræðum og verið í andsvörum eftir atvikum og það er vel. En það er líka í raun og veru það jákvæðasta sem hægt er að segja um þessa frammistöðu af hálfu annarra sem ábyrgð eiga að bera á þessu máli. Mér er full alvara með þessum orðum, herra forseti. Mér er farið að blöskra það á köflum hvaða virðingu menn bera fyrir sjálfum sér og störfum sínum og þeirri stofnun sem þeir starfa í þar sem er Alþingi Íslendinga. Þetta er ekki í lagi. Þetta fer versnandi ár frá ári, herra forseti. Ég lít á það sem sameiginlegt verkefni okkar allra að reyna að taka eitthvað á þessu. Það er kannski ágætt að segja þessi orð núna um næturstund þar sem ekki eru endilega líkur á því að mjög margir aðrir séu að hlusta á okkur en við sjálf. Ég vona að hæstv. forseti hafi hlýtt á það sem ég hef sagt og tekið eftir því.

Efnahagsumgjörðin fyrir þessa fjárlagagerð, herra forseti, er náttúrlega dálítið sérkennileg. Í raun og veru er hún ekki aðeins í þeirri óvissu sem allar ytri aðstæður um þessar mundir sníða henni heldur liggur það líka fyrir að hér er verið að ræða fjárlög við 2. umr. í fyrra fallinu og það er vissulega vel. Það er ágætt að menn séu tímanlega á ferðinni með þá hluti en hins vegar vantar mjög mikilvæg undirstöðugögn til að átta sig á því hvernig horfur í þjóðarbúskapnum eru núna, hvernig þær eru metnar akkúrat núna á síðustu vikum ársins áður en fjárlögin verða afgreidd. Ég tek sérstaklega undir það sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði við umræðuna fyrr í dag. Ég held að það ætti að vera umhugsunarefni til skoðunar við fjárlagavinnuna og afgreiðsluna framvegis að taka þessa hluti í annarri röð en nú er gert og gert hefur verið yfirleitt. Mér er að sjálfsögðu vel kunnugt um að endurskoðuð þjóðhagsáætlun fyrir lokaafgreiðslu fjárlaganna hefur oft ekki litið dagsins ljós fyrr en jafnvel um miðjan desember og þá rétt fyrir lokaafgreiðslu fjárlaga en það er auðvitað ekki til fyrirmyndar þegar við förum að skoða það. Hið rétta væri að þetta lægi fyrir hvort tveggja og ef eitthvað, þá endurskoðuð tekjuáætlun fjárlaganna á undan því að útgjaldarammanum sé lokað. Hér eru margir mikilvægir málaflokkar að koma til endanlegrar afgreiðslu ef ég hef skilið það rétt, þ.e. sá hluti breytingatillagnapakkans sem er nú til afgreiðslu svo sem málefni skólanna að talsverðu leyti og ráðuneyta eins og landbrn., félmrn. og fleiri aðila. Vissuleg stendur þarna eitthvað út undan af breytingartillögum sem kemur þá við 3. umr. en það væri miklu heildstæðara og betra. Ég tek undir það sem hv. þm. Jón Bjarnason, 5. þm. Norðurl. v., sagði um það í dag að þetta ætti að skoða að vinna öðruvísi og reyna að sjá til þess að þessi endurskoðun lægi fyrir með fyrra fallinu þannig að menn töluðu út frá því við 2. umr. fjárlaga sem er meginefnisumræðan um fjárlagafrv. yfirleitt ef allt er með felldu. Sérstaklega væri nauðsynlegt að hafa slíkt endurmat á þjóðhagsforsendum til staðar þegar blikur eru á lofti og líkur eru á að aðstæður séu jafnvel að breytast. En það er einmitt þannig sem stendur á um þessar mundir. Allar líkur eru á því að endurskoðuð þjóðhagsáætlun muni fela í sér breytingar á spám frá því fyrr í haust. Svo mikið hefur gengið á síðan, herra forseti, í efnahagslífi landsins og það er eiginlega næsta öruggt.

Ég ætla ekki að eyða frekari tíma í það sem hefur þegar verið rætt í þessari umræðu og úti í þjóðfélaginu með ýmsum hætti, innan veggja og utan á undanförnum dögum og vikum, þ.e. óvissan sem er að dragast upp í samhengi efnahagsmálanna. Hún er umtalsverð, það er alveg ljóst hvað sem menn segja, hvort sem menn líta á það sem meiri háttar vandamál eða minna, reyna að horfa á það með bjartsýnisaugum eða með gagnrýni, þá held ég að menn hljóti að geta sameinast um eitt að meiri óvissa er uppi núna á þessum haustdögum en hefur verið um nokkurt árabil. Það eru ákveðin veðrabrigði að verða í efnahagsmálunum. Það er alveg ljóst. Þeirra hefur mátt vænta að ýmsu leyti að undanförnu. Það hafa verið hlutir sem hafa teiknað til þess að hagsveiflan gæti farið að breytast og þar hef ég nefnt á undanförnum tveimur árum eða svo stöðu sjávarútvegsins og menn hafa kannski ekki gefið mikinn gaum að því af því að menn eru óskaplega uppteknir af ræðuhöldunum um nýja hagkerfið og breytta tíma og nýja hluti í efnahagslífi okkar sem skipta vissulega máli og margt er ágætt og jákvætt með. Aðrar greinar hafa aukið hlutdeild sína eins og ferðaþjónusta, útflutningur á þjónustu og iðnvarningi en það er barnaskapur að horfa fram hjá þeirri staðreynd að sjávarútvegurinn er enn svo yfirgnæfandi þungur í efnahagslífi okkar að ef þar bregður verulega til hins verra með afkomu og útflutningstekjur hefur það fyrr eða síðar umtalsverð áhrif út í allan þjóðarlíkamann. Það er þannig og það er það sem ég óttast að sé að mælast núna á ýmsum vígstöðvum að stóri mótorinn, sjávarútvegurinn, hefur verið að lenda í vaxandi erfiðleikum, er að skila minna ef ekki beinlínis að takast á við tekjusamdrátt og þess er nú farið að gæta.

Síðan bætast við sú röð mistaka sem menn hafa gert og er augljóst mál að menn hafa gert í hagstjórninni á undanförnum missirum. Auðvitað er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á, herra forseti, og má vel segja að að einhverju leyti hafi mönnum ekki að öllu leyti verið þetta ljóst. Samhengi þeirra hluta þegar menn voru að taka ákvarðanir af því tagi sem hæstv. ríkisstjórn og fyrir ríkisstjórnir hafa gert á síðustu tveimur til þremur árum eins og flatar skattalækkanir í mikilli þenslu og góðæri, eins og breytingar í fjármálaheiminum sem ýttu undir útlánaþenslu og spennu á markaði, eins og fljótræðislegar breytingar á fjárfestingarheimildum, lífeyrissjóðanna erlendis, breytingar í húsnæðismálum og þar fram eftir götunum og mætti tína ýmislegt fleira til. Að ógleymdu því auðvitað að hinar reglubundnu tilkynningar hæstv. forsrh. eða tilskipanir á þriggja mánaða fresti um góðærið hafa auðvitað verkað hvetjandi, ýtt undir eyðsluna og átt sinn þátt í því að menn trúðu því að veislan gæti staðið um aldur og ævi og það mundi aldrei þrjóta veisluföngin. Nú er það því miður að gerast, herra forseti, og það sem alvarlegra er að kannski fara sumir að finna til timburmannanna innan skamms svo nota sé tungutak sem menn ættu að skilja. (Gripið fram í: Hverjir helst?) Ja, einhverjir.

Herra forseti. Ekki meira um þetta. Það sem ég er líka mjög hugsi yfir er sú umræða, ef einhver er, sem örlar á hjá stjórnarsinnum um hvað eigi að gera. Satt best að segja hefur verið kostulegt að fylgjast með því í dag í ræðum einstakra þingmanna stjórnarliðsins hvernig það er tvist og bast, hvað menn leggja það til hlutanna, allt frá talsverðum áhyggjum og skynsamlega reifuðum að mörgu leyti eins og ég þóttist m.a. heyra hjá formanni fjárln. fyrst í umræðunni yfir í furðulegar hugmyndir sumra stjórnarþingmanna sitt úr hvorri áttinni eins og hv. þm. Péturs Blöndals á eina hlið og annarra talsmanna stjórnarflokkanna á hina hlið. Þetta segir mér að það er engin lína í málinu. Engin lína er uppi í því hjá ríkisstjórn Íslands eða stjórnarflokkunum um hvað eigi að gera, ekki nokkur skapaður hlutur. Það er verið að leita að hálmstráum af því tagi að nú verði öllu reddað með því að selja Landssímann úr landi eða eitthvað því um líkt. Þetta er háskalegt, herra forseti. Það er furðulegt að heyra menn sem vilja láta taka sig alvarlega hvað varðar stöðugleika og varanlega festu í hagstjórn koma með það á borðið sem eitthvert úrræði í sjálfu sér að selja fjölskyldusilfrið. Ef heimilið lendir í vandræðum er það þá úrræðið að selja fjölskyldusilfrið? Það verður ekki gert nema einu sinni. Það er ekki til nema einn Landssími og það verða ekki nema einu sinni teknir inn í landið einhverjir tugir milljarða af gjaldeyri til að bjarga krónunni fyrir Landssímann því að þá er búið að selja hann og það verður ekki gert oftar, eða hvað? Mér er ekki kunnugt um að það séu til svo góðir kaupendur að þeir vilji fyrst kaupa hann á tugi milljarða og skila honum svo aftur. Hvað hefur þá verið læknað? Ef það eru undirliggjandi skekkjur í efnahagslífi okkar um þessar mundir sem m.a. valda því að krónan er að veikjast, er þá lækningin að fara í sparibókina eða inn í bankahólfið, sækja fjölskyldusilfrið og selja það, og halda áfram eyðslunni og halda áfram að öðru leyti óbreyttri siglingu. Svarið er auðvitað nei. Þá eru menn ekki að takast á við hinn undirliggjandi vanda. Menn eru bara að kaupa sér frest með því að selja fjölskyldusilfrið. Þetta er háskalegt, herra forseti.

[26:00]

Þetta er öfugt við og gjörólíkt t.d. umræðunum í Noregi sem þar hafa staðið yfir undanfarna mánuði um vissulega tiltekna eignasölu norska ríkisins, ekki vegna þess að það sé illa statt eða þurfi á peningunum að halda og ekki vegna þess að lækna eigi einhverjar skekkjur í efnahagslífinu eða hagstjórninni með slíku. Það er af allt öðrum ástæðum. Menn segja einmitt vegna þess að þetta er hægt í áföngum af því að ástandið er gott, þá er kannski skynsamlegt að fara af stað með þetta núna, segja fylgismenn þess sem þetta vilja gera. Hér erum við á allt öðrum nótum og það er ömurlegt, herra forseti, ef það á að verða það eina sem á að gera af þessu tagi þegar menn þyrftu að takast á við verulegar breyttar aðstæður með aðgerðum sem miðuðu að því að taka á vandanum og ráðast að rótum hans en ekki hinu að kaupa sér frest, framlengja veisluna með því að selja borðbúnaðinn.

Það er líka undarlegt, herra forseti, ef þetta á að verða mönnum réttlæting fyrir því og það orðið að markmiði í sjálfu sér rétthærra öðrum að selja eitt mikilvægasta þjónustufyrirtæki landsmanna úr landi, það orðið markmið að koma því í eigu útlendinga. Er það virkilega svo að ekki einasta leki Framsfl. niður á þeirri andstöðu sem hann þóttist hafa uppi gagnvart einkavæðingu Landssímans ef marka má m.a. viðtal við þann þingmann flokksins sem titlaður er talsmaðurinn í Landssímamálinu, hv. þm. Hjálmar Árnason í Degi í dag, heldur eigi þá líka að undirgangast það að af efnahagsástæðum verði salan, þessi einkavæðing að fara fram í gegnum sölu úr landi til þess að ná í gjaldeyri til að halda uppi krónunni þannig að hægt sé að framlengja veisluna. Það er heldur dapurlegt, herra forseti.

Við hljótum síðan að lokum að spyrja: Hvað á að selja þegar allt er búið? Jú, það er auðvitað talsvert eftir ef menn hugsuðu sér að bjarga þessu áfram í jafnmörg ár og þeir gætu tekið af eignum almennings 20--30 milljarða kr. inn í landið í gjaldeyri til að vega upp á móti viðskiptahallanum, halda uppi genginu o.s.frv. En það eru ekki mörg ár sem menn sækja slíkar fjárhæðir í auðseljanleg fyrirtæki almennings, ekki nema þeir selji þá sjúkrahúsin, skólana og allt heila klabbið. Ég hef hingað til ekki heyrt að það standi til þó að vissulega sé verið að undirbúa þá framtíð til lengri tíma litið að þetta verði allt meira og minna komið í hendur einkaaðila og ríkið ofurselt þeim um sín mál að öllu leyti, bundið í báða skó af langtímasamningum þar sem það er skuldbundið til að skaffa sjúklinga eða vistmenn ,,ad infinitum`` liggur mér við að segja til að einkaaðilarnir fái sitt fyrir sinn snúð. Það er ekki fýsileg og sérstaklega spennandi framtíð og það hefur ekki gefist vel þar sem menn hafa farið inn á þá braut. Með því er ég ekki að segja að ekki sé á hverjum tíma rétt að vega og meta verkefni aðila, einkamarkaðarins, sveitarfélaganna, ríkisins o.s.frv. hvað hver og einn hafi með höndum. Það höfum við lagt til að sé gert og reyndar átti að heita svo að hér hafi verið gerð samþykkt um að slíkt starf færi í gang samkvæmt þáltill. á síðasta vori. Ég hef lítið af því frétt enn þá, tekur stundum langan tíma að koma nefndarstarfinu af stað, en það er ekki mjög gæfulegt að sjá hvernig þessir hlutir þróast næsta handahófskennt í hrossakaupum stjórnarflokkanna um þetta eða hitt.

Herra forseti. Ég ætla að nefna nokkrar brtt. sem eru á þskj. 396 og eru fluttir af okkur nokkrum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Við höfum valið þá leið að taka nokkur helstu áhersluatriði okkar fram og flytja þau í formi brtt. Þar er að sjálfsögðu ekki um tæmandi lista að ræða heldur eru ákveðin helstu atriði sem við viljum með þessum hætti draga athygli að og sýna okkar pólitísku áherslur í formi brtt. við fjárlögin. Þar kennir eðlilega margra grasa. Til að byrja með eru þar málaflokkar á sviði menntamála og rannsókna. Við teljum að taka þurfi á í málefnum húsakosts háskólans. Þar er ófremdarástand uppi, bygging tekur allt of langan tíma þannig að hús standa ónotuð árum saman vegna þess að framkvæmdatíminn teygist um of á langinn vegna ónógra tekna háskólans. Það eru öll rök fyrir því í tilviki t.d. Náttúrufræðihússins að ríkisvaldið komi þar meira að málinu en það hefur gert hingað til. Það er þjóðþrifamál að drífa þá byggingu upp og í gagnið úr því að hún er komin jafnlangt og raun ber vitni. Því leggjum við til að 150 millj. kr. verði bætt við í stofnkostnað hjá Háskóla Íslands.

Við leggjum einnig til að háskólar almennt og háskóla- og rannsóknastarfsemi, þ.e. rannsóknasjóðir háskólanna, rannsóknaleyfi kennara og aðrir slíkir útgjaldaþættir sem þar falla undir fái nokkra úrlausn eða 150 millj. kr. hækkun.

Þá vil ég nefna liðinn 02-979 Húsafriðunarsjóð. Það er vissulega vel að hv. meiri hluti fjárln. leggur þar til nokkra hækkun en við hefðum viljað gera betur. Þetta er liður sem hefur verið alveg skammarlega sveltur undanfarin ár á sama tíma og t.d. miklar fjárhæðir hafa farið gegnum liðinn til Endurbótasjóðs menningarstofnana. Þar hefur verið úr að spila fleiri hundruð millj. kr. á ári hverju og hefur vissulega verið mikil þörf fyrir það fé þótt sumt mætti takast betur eins og endurgerð Landsbókasafsins sem nú heitir Þjóðmenningarhús, en á sama tíma er það gríðarlega verkefnið sem Þjóðminjasafnið og Húsafriðunarsjóður er með um allt land að varðveita og þó ekki sé nema að halda í horfinu með öll þau miklu menningarverðmæti sem þar eru á bak við sárlega svetur um fjármagn. Nokkrir tugir milljóna hafa verið til skiptanna í þeim efnum núna um langt árabil. Það er allt of lítið fé. Menningarverðmæti liggja undir stórskemmdum um allt land þar sem eru gömul timburhús, torfbæir, steinhöggin hús og önnur slík, vandasöm og viðkvæm verkefni sem þarf að vinna af alúð og nærgætni þar sem er varðveisla og viðhald slíkra húsa. Að mínu mati, herra forseti, væri fátt betur gert í þjóðminja- og fornminjaþáttum okkar en að stórauka fjármagn til þeirra hluta, að varðveita fornminjarnar, þær sem eru ofan jarðar og til staðar og eru að grotna niður.

Ég verð að láta það álit mitt í ljós, herra forseti, að ef ég ætti að velja á milli þess að ráðstafa viðbótarfjármagni t.d. í uppgröft eða í varðveislu þeirra fornminja sem eru ofan jarðar, þá vel ég hiklaust síðari kostinn vegna þess að hitt er vel geymt í jörðinni um sinn þó að það sé vissulega blóðugt að geta ekki jafnhliða sinnt öflugum rannsóknum og uppgreftri. Ef menn telja sig ekki hafa nóga fjármuni til að gera hvort tveggja sómasamlega, þá á það að ganga fyrir að verja og varðveita þær fornminjar sem liggja undir skemmdum í formi húsakosts og slíkra hluta um land allt. Þarna er ekki nógu myndarlega að hlutunum staðið. Þess vegna teljum við lágmark að hækka þennan lið um 50 millj. kr.

Við teljum hins vegar, herra forseti, hægt að spara í utanrrn. Það hefur aukist mikið að vöxtum á síðustu árum. Margt í þeim útgjöldum hefur auðvitað tengst uppbyggingu utanríkisþjónustunnar og ég hef ítrekað sagt að ég hef verið stuðningsmaður þess að við efldum utanríkisþjónustuna þó auðvitað verði að reyna að leita þar hófsamlegra lausna. Maður er býsna sleginn satt best að segja, herra forseti, þegar maður sér sumar tölurnar sem eru að birtast á borðum um þessar mundir eins og kostnaður við opnun nýs sendiráðs í Japan eða kostnað vegna framkvæmdanna í Berlín og fleira í þeim dúr. En það eru aðrir hlutir hjá utanrrn. sem mætti auðveldlega spara að okkar mati. Við teljum þar fram hluti eins og varnarmálaskrifstofuna og bröltið í kringum herinn og NATO. Við leggjum hins vegar til að liðurinn Þróunarsamvinnustofnun Íslands verði hækkaður. Það hefur verið baráttumál okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að Íslendingar ykju hlutdeild sína þar. Það hefur nokkuð áunnist í þeim efnum undanfarin ár, þ.e. í krónum talið. Fjárveitingar til Þróunarsamvinnustofnunar hafa hækkað allnokkuð en því miður verður að setja það í samhengi við þau markmið sem menn hafa sett sér í alþjóðasamfélaginu að verja tilteknum hundraðshluta þjóðartekna í þennan málaflokk og vegna þess að þjóðartekjur okkar hafa á sama tíma aukist verulega, þá miðar sorglega lítið hvað varðar hitt að ná þessu hlutfalli upp. Við erum þar stórkostlegir eftirbátar t.d. hinna Norðurlandaþjóðanna sem nær allar, að Finnum undanskildum líklega, verja tilskildu hlutfalli þjóðartekna, þ.e. 0,7% á vegum opinberra aðila og 1% í heild til þróunarsamvinnu og reyndar bæði Norðmenn og Svíar sum árin rúmlega það. Þarna liggjum við langt eftir og við flytjum því tillögu um að sá liður verði hækkaður um 100 millj. kr. Það ætti að vera borð fyrir báru til að Íslendingar legðu eitthvað meira af mörkum til að styðja við bakið á fátækustu þjóðum heims með tugmilljarða afgang á ríkissjóði og þar af leiðandi ekki hægt að bera því við beinlínis að fjármunirnir séu alls ekki til staðar.

Ég vil nefna liðinn Framkvæmdasjóður fatlaðra. Það er heldur ömurlegt að menn skuli ætla að enda þau samskipti þannig að tekjur hans séu stórskertar síðasta mögulega heila árið sem hann fengi að starfa og hefði ekki veitt af að hann hefði þá fengið að njóta allra sinna fjármuna í eins og eitt ár þannig að út úr þeim sjóði mætti veita fjármuni til að gera dálítið myndarlegt átak á sviði málefna fatlaðra áður en sá málaflokkur flyst yfir á sveitarfélögin. Það er ekki hægt að segja að ríkisvaldið ætli sér að skilja sérstaklega myndarlega við í þessum efnum ef svo fer að málaflokkurinn verði fluttur til sveitarfélaganna, að hafa þennan megintekjustofn til nýframkvæmda og aðgerða á þessu sviði stórlega niðurskorinn á næsta ári.

Ég vil nefna einn málaflokk sérstaklega og það eru aðgengismál hreyfihamlaðra. Það vill svo til, herra forseti, að ég hef sinnt þeim málum dálítið undanfarin tvö ár sem fulltrúi Íslands í Norræna ráðinu um málefni fatlaðra. Það verður að segjast eins og er að maður skammast sín oft fyrir það þegar maður sér hvernig að þessum hlutum er búið annars staðar á Norðurlöndunum, hversu langt á eftir við erum varðandi jafnsjálfsagða hluti og sjálfsögð mannréttindi og t.d. aðgengi að opinberum stofnunum. Talandi um þetta í þessu húsi, herra forseti, þá er það varla hægt kinnroðalaust eins og ástandið er í aðgengismálum fatlaðra í húsakynnum Alþingis. Þar er varla nokkur einasta bygging sem hreyfihamlaður maður kemst um svo vansalaust sé og húsið sjálft náttúrlega mjög erfitt eins og við þekkjum. Það mætti þó gera betur og t.d. hefur mér þótt heldur seint ganga að ná fram lágmarksúrbótum á skrifstofuhúsnæði alþingismanna þannig að þeir geti fengið til viðtals við sig eða í heimsóknir á skrifstofur sínar hreyfihamlaða einstaklinga eins og aðra þegna þjóðfélagsins. Þar eru mannréttindi brotin með grófum hætti á fjölmennum hópi og það er ekki vansalaust að jafnlítið skuli vera að gerast í þeim efnum og raun ber vitni.

Við leggjum einnig til, herra forseti, að undir liðinn Heilbrigðismál, ýmis starfsemi komi nýr liður þar sem er efling félagslegs forvarnastarfs. Ég ætla að fara örfáum orðum um þann lið og hvaða hugsun liggur þar að baki. Það er hugsun okkar að verja ætti sérstökum fjármunum til þess að styðja við bakið á því félagslega forvarnastarfi sem unnið er víða í samfélaginu af mikilli hugsjónamennsku, að verulegu leyti í sjálfboðaliðastarfi og búandi við ákaflega mikið fjársvelti. Ég er sannfærður um að ef menn vilja virkilega taka á með tiltölulega ódýrum hætti í þessum efnum hvað varðar forvarnir gegn fíkniefnaneyslu og öðru slíku, þá væri alveg ákjósanlegur farvegur að gera það í gegnum samstarf við félagasamtök, stofnanir og ýmsa aðila sem sinna félagsstarfi sem hefur gildi í þeim efnum.

Ég vil nefna t.d. félagsmiðstöðvarnar. Það vill svo til að mér er kunnugt um að þær eru margar hverjar hangandi á horriminni einfaldlega vegna þess að þær eru í miklu fjársvelti. Oftar en ekki vinna menn þar kauplaust lon og don til að halda úti starfi sem menn sjá að hefur mikið gildi og menn vilja ekki láta leggjast af en eiga engan annan kost en þann að vinna meira og minna kauplaust utan síns reglulega vinnutíma til að halda úti starfinu.

[26:15]

Oft og tíðum þarf þetta starf, ef vel á að vera, að vera í gangi á kvöldin og um helgar, utan reglulegs vinnutíma fastráðinna starfsmanna. Lausnin er þá iðulega sú að reyna að hóa í sjálfboðaliða, vini og vandamenn, fjölskyldu eða þá að starfsmenn vinna sjálfir kauplaust utan vinnutíma við að halda hlutunum gangandi. Svona mætti rekja dæmin af mörgum öðru á þessu sviði. Eðli málsins samkvæmt þyrfti þetta að vera samstarfsverkefni við sveitarfélögin og ýmsa aðila sem sinna slíkum verkefnum. Ég er hins vegar viss um að tiltölulega litlir fjármunir, sem ég leyfi mér að kalla svo, t.d. 100 millj., mundu breyta miklu.

Ég verð að segja, herra forseti, eftir að hafa flett í gegnum brtt. meiri hlutans, að mér sýnist ekki að menn hafi verið svo beinskornir eða illa haldnir að þeir hafi ekki getað fundið pláss þar fyrir ýmis sérstök áhugamál sín. Þar sýnist mér nú kenna ákveðins kunnugleika nefndarmanna í fjárln. við viðfangsefnið, svo ég orði það ákaflega kurteislega. Mér sýnist það, herra forseti, þegar ég lít yfir tillögurnar. Vissulega eru það undantekningalítið ákaflega þörf og góð málefni sem fá þarna úrlausn en þegar ég fer yfir þau þá leita á mig ýmsar hugrenningar og ég spyr mig á móti: Væri ekki líka mögulegt að taka á verkefnum eins og þeim sem ég hef gert að umtalsefni hér?

Það kann vel að vera að við köllum þessa tillögu aftur til 3. umr. og bjóðum hv. fjárln. upp á að velta fyrir sér milli umræðna hvort það gæti ekki farið vel að afgreiða rétt fyrir jólin eitthvað í þessa veruna sem menn gætu síðan sameinast um að undirbúa og útfæra nánar í framhaldinu. Menn ættu þarna eitthvað í handraðanum til að gera átak í þessum efnum. Þó ekki væri vegna annars en verkfalls í framhaldsskólum landsins og þeirrar skelfilegu stöðu að 18--20 þúsund ungmenni eru þar meira og minna í reiðuleysi með sín mál og verða kannski vikum eða mánuðum saman ef illa tekst til, þá held ég að menn ættu að velta þessu aðeins fyrir sér.

Herra forseti. Ég held að ég hafi þá gert grein fyrir þeim brtt. sem ég ætlaði sérstaklega að gera að umtalsefni og fer að ljúka máli mínu. Ég held, herra forseti, að tillögurnar sem við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, flytjum á sérstöku tillöguskjali og aðrar sem þingmenn úr okkar hópi flytja með hv. þm. Frjálslynda flokksins hljóti að kallast hógværar, a.m.k. miðað við ýmislegt annað um þessar mundir. Þarna er ekki verið að ræða um stórfellda útgjaldauakningu ríkisins. Við höfum valið þá leið að taka okkar helstu áherslumál og sýna áherslur okkar með því að flytja brtt. um vel valin forgangsmál. Við erum tilbúin til þess, ef þessar tillögur fengju hér að einhverju leyti brautargengi, að skoða í framhaldinu, við 3. umr. þegar tekjuhlið fjárlaganna verður afgreidd, mögulega tekjuöflun á móti. Við leggjum í sumum tilvikum til sparnað á móti og ég vil láta það koma skýrt fram að við erum ekki endilega að segja að úrslitaatriðið sé að afgangur á fjárlögunum verði nákvæmlega upp á krónu sá sem hann hefur verið ætlaður. Ég held að það muni ekki skipta sköpum í þessum efnum þótt þar munaði einhverjum hundruðum millj., jafnvel þó það væri hálfur til heill milljarður, ef við þingmenn yrðum sammála um að þarna væru brýn og þörf úrlausnarefni sem þyrfti að leysa. Ég held að það mundi ekki breyta miklu í heildarsamhengi efnahagsmálanna þó þarna væri gert betur við ýmislegt sem sannarlega væri þörf á. Stærstir og fyrirferðarmestir eru náttúrlega þeir liðir sem lúta að almannatryggingunum, málefnum öryrkja og lífeyrisþega, vissulega. Þessir liðir eru útgjaldafrekastir en ég held að það sé flestra manna mál að þar sé þörfin mest, vilji menn virkilega reyna að koma til skila fjármunum og fara út í tilfærslur sem hefðu áhrif til góðs, að jafna betur hlutaskiptin í samfélaginu. Ég held að enginn deili um að þar væri viðbótin best niður komin, þ.e. hjá elli- og örorkulífeyrisþegum, hjá lágtekjufjölskyldum, t.d. barnafjölskyldum með lágar tekjur sem sannarlega hafa borið skarðan hlut frá borði miðað við ýmsa aðra á undanförnum árum.

Ég læt þá máli mínu lokið, herra forseti. Komi ekki til frekari orðaskipta af minni hálfu við aðra þingmenn þá er ég að hugsa um að bjóða góða nótt.