2000-12-01 02:28:51# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., Frsm. 1. minni hluta ÖS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[26:28]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Nú er liðið langt á nótt. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa haldið margar ræður í dag og útskýrt rækilega stefnu Samfylkingarinnar og viðhorf til ríkisfjármálanna, til fjárlagafrv. og efnahagsmála almennt. Ég á því ekki mikið erindi hingað upp, herra forseti.

Þó gleymdi ég einu í fyrri ræðu minni sem var nokkuð ítarleg. Það var að þakka félögum mínum í fjárln. fyrir prýðilegt samstarf. Segja má að í hinni gömlu forníslensku ókynbundnu merkingu orðsins drengur þá séu þar margir góðir drengir. Sérstaklega vil ég þó þakka hv. þm. og formanni fjárln. Jóni Kristjánssyni fyrir ákaflega vandaða verkstjórn og tillitssemi í hvívetna við okkur í stjórnarandstöðunni. Ég vil líka þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir prýðilegt samstarf. Eins og fram kemur í þeim tillögum sem við leggjum fram, þingmenn Samfylkingarinnar, þá er ákaflega mikill samhljómur í mörgum þeim tillögum sem við leggjum fram við tillögur hv. þm. og félaga hans í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. (Gripið fram í.)

[26:30]

Herra forseti. Hér er gripið fram í af gervöllum þingskara Sjálfstfl. sem viðstaddur er umræðuna að það sé vík á milli vina. Það er einmitt ekki svo. Ef skoðaðar eru grannt þær tillögur sem hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og hinar sem við þingmenn Samfylkingarinnar leggjum fram þá held ég að það megi segja að það sé ákaflega mikill samhljómur þar. Ef hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir mundi gefa sér tíma til þess að líta upp úr þeim plöggum sem hún er að lesa núna og fara yfir þessar tillögur þá sæi hún að þar slá hjörtu saman í takt.

Herra forseti. Það er eðlilegt að við umræðu um ríkisfjármál og fjárlagafrv. ræði menn efnahagsstefnuna almennt. Það eru, eins og hv. þm. hafa bent, á blikur á lofti. Þessar blikur sjá allir nema þeir þingmenn Sjálfstfl. sem hér hafa talað í dag. Það sem stendur upp úr þessari umræðu, herra forseti, er að mínu viti kannski tvennt. Í fyrsta lagi að hv. þm. og formaður fjárln., Jón Kristjánsson, hefur komið hingað og sagt það ærlega að hann sjái hættumerki í þróun efhagsmála. Hann hefur sagt að viðskiptahallinn sé beinlínis hættulegur og óviðunandi. Að vísu hafa tveir hv. þm. Sjálfstfl. tekið undir að viðskiptahallinn sé geigvænlegur eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði. En þetta er eigi að síður í fyrsta skipti sem það birtist að innan stjórnarliðsins hafa menn áhyggjur af þróun efnahagsmála. Þetta er algerlega á skjön við það sem hæstv. forsrh. hefur verið að segja. Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á hefur hæstv. forsrh. verið að gefa út tilskipanir um það á þriggja til fjögurra mánaða fresti að hér sé allt í góðu lagi, góðærið sé komið til þess að vera og að engar blikur séu á lofti.

Í tilefni af orðum hv. þm. Jóns Kristjánssonar er nauðsynlegt að rifja upp að hæstv. forsrh. hefur mörgum sinnum sagt að engin ástæða sé til þess að óttast viðskiptahallann. Ég rifja það sérstaklega upp að í sjónvarpsþættinum Silfri Egils síðla í maí sl. sagði hæstv. forsrh. að viðskiptahallinn væri góðkynja og að hann mundi ekki hafa nein skaðleg áhrif á þróun efnahagsmála. Það er enginn sérfræðingur um efnahagsmál honum sammála í dag. Enginn heldur þessu fram nema hæstv. forsrh. Þetta sem hv. þm. Jón Kristjánsson sagði er annað þeirra tveggja atriða sem stendur upp úr í umræðunni í dag. Hitt er það að hæstv. fjmrh. sem hefur heiðrað okkur með nærveru sinni obbann úr deginum, hefur ekki sagt eitt einasta orð í þessari umræðu. Ég spurði hæstv. fjmrh. tveggja spurninga. Ég spurði hann í fyrsta lagi hvort hann væri sammála þeirri greiningu sem hv. þm. Jón Kristjánsson kom fram með í dag um viðskiptahallann. Í öðru lagi spurði ég hann hvort hann væri þeirrar skoðunar núna að þau orð sem Samfylkingin hefur haft uppi um skaðsemi viðskiptahallans ættu við rök að styðjast. Hæstv. fjmrh. þrumdi undir þessum ræðum í dag hnípinn í sæti sínu. En hann hefur enn ekki komið upp til þess að svara þessum spurningum.

Herra forseti. Ég hef setið á Alþingi í nærfellt áratug og þetta er í fyrsta skipti sem ég minnist þess að hæstv. fjmrh., og hafa nú verið tveir á þeim tíma, hafi setið undir 2. umr. fjárlaga án þess að koma upp og svara þeim spurningum sem til hans er beint eða greina að öðru leyti frá viðhorfum sínum til þeirra mála sem nú eru uppi í heimi efnahagsmála.

Eins og staðan er í dag þar sem hver sérfræðistofnunin á fætur annarri kemur fram með varúðarorð, hefði verið eðlilegt að hæstv. fjmrh. greindi okkur frá viðhorfum sínum. Það hefur hann ekki gert. Enginn úr forustu Sjálfstfl. hefur þorað að stíga fram til þess að ræða um stjórn efnahagsmála og til þess að andmæla þeim staðhæfingum sem við, bæði þingmenn Samfylkingarinnar og hv. þm. vinstri grænna, hafa sett fram um blikur á lofti efnahagsmála. Hæstv. ráðherrar Sjálfstfl. hafa ekki sama kjark og hv. þm. Framsfl. sem hér hafa talað. Þeir fara að dæmi strútsins og stinga höfðinu í sandinn.

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að rifja það upp við lok þessarar umræðu að allt, hvert einasta atriði sem hæstv. forsrh. hefur gert að umræðuefni síðasta missirið og varðar efnahagsmál, hefur reynst rangt. Hæstv. forsrh. hefur haft rangt fyrir sér um þróun allra hagstærða sem máli skipta. Hæstv. forsrh. hefur haldið því fram að vextir mundu lækka. Vextir hafa hækkað. Hæstv. forsrh. stóð við fótstall styttunnar af Jóni Sigurðssyni hérna handan við vegginn á 17. júní og sagði við þjóðina: ,,Verðbólgan mun lækka.`` Herra forseti. Verðbólgan hefur hækkað. Hæstv. forsrh. hefur margsinnis sagt, eins og reyndar hæstv. fjmrh., að viðskiptahallinn mundi minnka. Ég þarf ekki að rifja þá sögu upp, herra forseti. Hún er sorgleg. Þeir höfðu rangt fyrir sér. Í öllum þessum atriðum hefur Samfylkingin spáð fyrir um þróunina og haft rétt fyrir sér.

Herra forseti. Ég rifja það upp að Samfylkingin tjáði þjóðinni í miðri kosningabaráttunni síðustu þá skoðun sína að viðskiptahallinn væri á ákaflega hæpinni braut og að hann mundi að öllum líkindum aukast. Ég rifja það upp að langt fram eftir þessu ári hafnaði hæstv. fjmrh. því alfarið í umræðum í þinginu. Við sjáum hvað hefur gerst. Viðskiptahallinn sem var 40 milljarðar þegar við hófum máls á uggvænlegri þróun hans hefur hækkað með hverju mati og hverri spá Þjóðhagsstofnunar. Hann var samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar fyrr á þessu ári líklegur til þess að enda í 50 milljörðum á þessu ári. Við næstu spá Þjóðhagsstofnunar var hann kominn upp í 55 milljarða. Nú er hann kominn í 60 milljarða, herra forseti. Það blasir líka við að aðrar stofnanir sem þekkja gerr til íslenskra efnahagsmála og hafa reynst sannspárri en Þjóðhagsstofnun, sjá hlutina í miklu dekkra ljósi en Þjóðhagsstofnun.

Efnahags- og framfarastofnun Evrópu hefur birt þá skoðun sína að á þessu ári muni viðskiptahallinn fara í 10% af landsframleiðslu, muni verða um 70 milljarðar. Á næsta ári, segir OECD, að viðskiptahallinn muni verða 72 milljarðar, þ.e. þegar þessir sérfræðingar þessarar stofnunar hafa tekið tillit til þeirrar þróunar sem m.a. hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lýsti áðan hvað varðar sjávarútvegsmálin. Við þessar aðstæður er eðlilegt að þess sé krafist, herra forseti, að liðsoddar ríkisstjórnarinnar segi undanbragðalaust frá viðhorfum sínum til þessarar þróunar. Það gengur ekki að senda fótgönguliða eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hingað upp í ræðustól og segja, eins og hann sagði fyrr í kvöld, að viðskiptahallinn muni gufa upp, eða eins og hann sagði það: ,,Samkvæmt rökhyggju mun viðskiptahallinn hverfa.`` Hann gerir sér ekki grein fyrir því, herra forseti, að þó að viðskiptahallinn kunni að stafa að stórum hluta af einkaneyslu, af neyslu einstaklinga og heimila og fyrirtækja fremur en ríkissjóðs eins og í fyrndinni og að lélegar tryggingar séu fyrir þeim lánum sem þessir einstaklingar og fyrirtæki hafi tekið, þá þarf að fjármagna viðskiptahallann. Það þarf að fjármagna hann einhvern veginn.

Við vitum að úti í hinum stóra heimi er kvóti Íslands eða Íslandslínan í mögulegum lántökum takmörkuð. Ýmsar fjármálastofnanir sem hafa verið að reyna að efla hlutdeild sína á innlendum markaði með því að taka lán í útlöndum og dreifa hér á tombóluprís, eru komnar að endimörkum lánamöguleika sinna erlendis og það kemur að því að Ísland fylli sinn kvóta. Það kann að vera skemmra í það en menn grunar.

Hvað gerist, herra forseti, ef lánshæfni Íslands er metin niður á við? Það mun auðvitað hafa ákaflega uggvænleg áhrif. Það er ekki víst að þetta gerist. En eins og hv. þm. og formaður fjárln., Jón Kristjánsson, sagði, þá getur þetta gerst. Það eru hættumerki. Og hvar eru þá hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh.? Gengur það, herra forseti, að hæstv. fjmrh. sitji og hlusti á umræðurnar, hlusti á þingmenn eiga í harðpólitískri og málefnalegri umræðu eins og við höfum átt í allan dag, fái á sig spurningar og svari þeim ekki? Mér finnst það óviðunandi, herra forseti. Ég dreg þá ályktun af þessu að hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. treysti sér ekki eins og sakir standa í umræðu um efnahagsmál.

Herra forseti. Það hefur líka komið fram ítrekað í þessari umræðu að ríkisstjórnin ber alltaf blak af sjálfri sér og leitar að blórabögglum. Um þessar mundir eru blórabögglarnir lífeyrissjóðirnir. Lífeyrissjóðirnir hafa aukið fjárfestingar sínar erlendis. Það er rétt. Og það er alveg ljóst að eins og sakir standa, um þessar mundir, er það líklegt til þess að veikja gengið þó að til langframa sé það að öllum líkindum jákvætt fyrir hið íslenska samfélag. Hvað veldur því að þeir hafa í auknum mæli ákveðið að fjárfesta erlendis? Ég er þeirrar skoðunar að sú ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar að koma í gegnum þingið á liðnu vori lögum sem heimiluðu lífeyrissjóðunum að fjárfesta meira erlendis hafi beinlínis falið í sér vísendingu frá ríkisstjórninni, hvatningu til þeirra um að gera það og þeir hafi orðið við þessari hvatningu. Síðan þegar í óefni stefnir kemur ríkisstjórnin og ásakar þá fyrir það sem hún á sjálf sök á, herra forseti.

Blikur eru á lofti. Vextir hækka. Gengið er ákaflega óstöðugt. Einn hv. þm. lýsti því í kvöld með nokkuð góðum rökum að krónan væri í reynd ónýt og enginn af forustumönnum samtaka iðnaðar og í atvinnulífinu í dag tekur til máls um efnahagsmál án þess að segja eitthvað í svipaða veru. Það er einfaldlega þannig, því miður, herra forseti, að eins og Samfylkingin spáði, hefur viðskiptahallinn molað stoðir íslensku krónunnar. Hún er ákaflega veik. Hv. þm. Sjálfstfl. hafa barið á Seðlabankanum í kvöld. Hann er hinn nýi blóraböggull. Lífeyrissjóðirnir voru það í síðustu viku. Nú er það Seðlabankinn.

Tveir þingmenn Sjálfstfl. hafa komið hér í dag og sagt að ekki væri hægt að finna neitt að stefnu ríkisstjórnarinnar sem ylli þessum vandkvæðum. Orsakanna væri að leita í hávaxtastefnu Seðlabankans. Ég er fremur þeirrar skoðunar, herra forseti, þegar ég lít til baka, enda er auðvitað gott og auðvelt að vera vitur eftir á, að Seðlabankinn hefði átt að verða harðari í sinni vaxtastefnu og grípa fyrr til þess að hækka vexti til þess að styrkja gengið.

Það sem heldur uppi genginu í dag eru þessi sífelldu, nánast daglegu, inngrip Seðlabankans. Þeir ágætu þingmenn Sjálfstfl. sem átelja Seðlabankann fyrir sitt athæfi og framkomu í peningamálum gera sér ekki grein fyrir því að þessi stöðuga íhlutun Seðlabankans í krónumarkaðinn gerir það að verkum að hún hefur ekki fallið meira. Því var spáð fyrir nokkrum mánuðum að krónan kynni að falla um 5--6% á þessu ári. Það var talin svartsýnisspá. Hún hefur fallið um 10% frá því í maí. Hvað gerist, herra forseti, ef þeir fjárfestar sem í dag hafa veðjað á íslensku krónuna með því að fjárfesta í um það bil 60 milljörðum í stöðu með íslensku krónunni skipta um skoðun og ákveða að veðja gegn henni?

Sálfræði leikur stórt hlutverk í ákvörðun fjárfesta og það er hjarðhvötin sem virðist vera ráðandi. Það þarf ekki marga til þess að skipta um skoðun til þess að hjörðin renni á eftir þeim sauðum sem í forustu eru. Hvað gerist ef þetta verður að veruleika á næstu dögum eða næstu vikum? Það er alveg ljóst að þá væri líklegt að gengið mundi taka á sig gervi evrunnar þegar hún var í því sem hæstv. forsrh., minnir mig, að hafi kallað frjálst fall og þó var fallið ekki meira en krónan hefur fallið núna á síðustu mánuðum.

Herra forseti. Mig langar að lokum að ræða eitt mál af því að hv. þm. Jón Kristjánsson á eftir að halda sína ræðu. Það er eitt atriði sem við þingmenn stjórnarandstöðunnar þurfum að fá á hreint frá Framsfl. Það er spurningin um það hversu langt Framsfl. ætlar að láta Sjálfstfl. leiða sig í hverju málinu á fætur öðru. Það er spurning um grundvallaratriði, herra forseti. Flokkurinn sem Jónas frá Hriflu stofnaði í byrjun þessarar aldar var flokkur sem byggði á hugsjónum jöfnuðar, flokkur sem byggði á því að stéttir vinnandi fólks á landsbyggðinni og líka í þéttbýlinu ynnu saman. Stofnendur Framsfl. sáu fyrir sér þjóðfélag jöfnuðar, þjóðfélag réttlætis, þar sem þeim efnaminni væri ekki gert örðugra um vik að ná þroska og lífsgæðum og lífshamingju heldur en þeim sem voru þeirrar gæfu aðnjótandi að fæðast inn í fjölskyldur með meiri peningaráð.

Eitt af grundvallaratriðunum, herra forseti, í því þjóðfélagi sem okkur hefur sameiginlega tekist að skapa á Íslandi er heilbrigðiskerfi sem stendur öllum opið og það er vissulega verið að gera atlögur að því. En hitt er opið og gjaldfrítt skólakerfi.

Herra forseti. Nú gerist það í fyrsta skipti að á sama tíma og framhaldsskólakennarar eru í erfiðu verkfalli, krefjast þess að fá hærri laun með vísan til þess að ríkisstjórnin hefur með sinni einkennilegu bakflæðisstefnu í launamálum látið sambærilega hópa, hópa með svipaða menntun, svipaða ábyrgð innan ríkiskerfisins, fá ákaflega miklar launahækkanir á síðustu árum. Með vísun til þess hafa framhaldsskólakennarar óskað eftir því að fá sinn skammt útdeildan með svipuðum hætti. Því er hafnað.

Á sama tíma er lagt til í fyrsta skipti að teknar verði upp fjárveitingar til einkarekins framhaldsskóla. Herra forseti. Einkarekinn framhaldsskóli sem rekinn er af einstaklingi til að hagnast á er allt annað en t.d. hinn gamli Samvinnuháskóli á Bifröst, sjálfseignarstofnun, og aðrar slíkar skólastofnanir sem eru sjálfseignarstofnanir og reknar með skólagjöldum, þó ég sé ekki glaður yfir því. Þær eru allt annars eðlis en einkarekinn framhaldsskóli sem rekinn er af einum tilteknum einstaklingi, flokksgæðingi Sjálfstfl. Og íslenska ríkið ætlar á næsta ári samkvæmt því frv. sem fyrir liggur að greiða þessum félaga í Sjálfstfl. fyrir framtak sitt 25 millj. Á þar næsta ári eiga að koma 100 millj. í þennan eina skóla. Hann getur stækkað. Þeir geta orðið fleiri. Er hægt, herra forseti, t.d. ef fleiri aðilar vilja stofna einkarekinn framhaldsskóla, að hafna svipuðum framlögum til þeirra? Ég skal ekki um það segja, herra forseti, og mig undrar ekkert þó að hæstv. menntmrh., sem er eins konar einkavæðingarfíkill, freisti þess á þennan hátt að brjóta stoðir undan hinu félagslega menntakerfi í landinu.

En ég vil spyrja talsmenn Framsfl., ég vil spyrja hv. þm. Jón Kristjánsson: Ætlar Framsfl., flokkur Jónasar frá Hriflu, að láta bjóða sér þetta? Ætlar Framsfl. að taka þátt í því með þessum hætti að greiða þungt högg að rótum hins félagslega menntakerfis í landinu?

Herra forseti. Mér er of annt um Framsfl. til þess að ég megi ógrátandi til þess hugsa að hann verði á þennan hátt leiddur í fjöru af Sjálfstfl. Enn síður vil ég hugsa til þess, herra forseti, að einkavæðingarforkólfur Sjálfstfl. og ríkisstjórnarinnar, hæstv. menntmrh. Björn Bjarnason, láti það yfir þingið ganga, láti það yfir þjóðina ganga að í miðju verkfalli framhaldsskólakennara skuli þeim, þá skuli íslensku þjóðinni, þá skuli íslenskum skattborgurum, íslensku réttlæti storkað með því að Alþingi eigi að samþykkja í fyrsta skipti heimild til einkarekins framhaldsskóla. Herra forseti. Ég get ekki annað en lýst beiskum vonbrigðum mínum yfir því og ég spyr hv. þm. Jón Kristjánsson við lok ræðu minnar: Ætlar Framsfl. að láta þetta yfir sig ganga? Voru engir fyrirvarar gerðir af hálfu þingflokks Framsfl. þegar fjárlagafrv. var tekið í gegnum þingflokkinn við þetta tiltekna atriði?