2000-12-01 02:47:51# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[26:47]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Komið er að lokum umræðunnar og ég vil þakka fyrir hana. Hún hefur verið málefnaleg og komið víða við. Í sjálfu sér hefur ekki verið deilt um þær breytingartillögur sem meiri hluti fjárln. hefur lagt fram. Ýmsar áherslur hafa verið dregnar upp eins og gengur og verið fluttar og mælt fyrir breytingartillögum stjórnarandstöðu og minni hluta nefndarinnar. Að öðru leyti hefur umræðan snúist um almenna efnahagsumræðu að verulegu leyti. Þróunin síðari árin hefur verið sú að fjárlagaumræðan hefur að uppistöðu til verið almenn umræða um efnahagsmál.

Mikið hefur verið gert úr því í umræðunni í dag að ég hafi dregið upp hættumerki í efnahagsmálum og ágreiningur sé á milli stjórnarflokkanna um það. Ég stend við allt sem ég hef sagt. (Gripið fram í.) Um það sem ég hef sagt í ræðu minni um hættumerkin í efnahagsmálum. Engin ástæða er til að draga fjöður yfir það að viðskiptahalli er óæskilegur en ekki er þar með sagt að heimsendir sé fram undan. Þetta er viðfangsefni sem þarf að berjast við og berjast gegn og það eru mörg teikn jákvæð í efnahagsmálum, það er full atvinna, það er afgangur af ríkissjóði en vaxandi viðskiptahalli er eitt af því sem þarf að hamla gegn og ríkisfjármálin eru eitt af þeim tækjum sem við höfum til þess.

Það eru mikil þáttaskil frá því sem var þegar ríkissjóður var rekinn með halla í rúman áratug. Það er öðruvísi núna um að litast á þeim vettvangi. Þessu verðum við að halda til haga þó ávallt séu einhver viðfangsefni og einhver vandamál í samfélaginu sem verður að berjast við og það stendur allt sem ég sagði um það í ræðu minni í dag.

Nokkrum spurningum hefur verið beint til mín í þessari umræðu. Ég hef svarað þeim jafnóðum í andsvörum þannig að það er bara ein sem út af stendur og það er spurningin um afstöðu Framsfl. til skólakerfisins. Framlag til einkarekins framhaldsskóla er tilraun en það merkir ekki neina grundvallarbreytingu á stefnu Framsfl. í skólamálum. (Gripið fram í: Það er svona eins og með elliheimilin.) Það ber að skoða þetta sem tilraun. Ef hv. þm. á við það að ríkið eigi að reka öll elliheimili þá er það ekki svo hér í landinu og sjálfseignarstofnanir hafa rekið dvalarheimili fyrir aldraða um árabil og hefur enginn amast við því, síður en svo. (ÖJ: Það eru ekki Aðalverktakar og Securitas.) Nei, þeir hafa ekki gert það. (ÖJ: Það er tilraunin.) Ef hv. þm. vill taka upp umræðu um þetta þá get ég alveg gert það. Ég tel ekkert útilokað að samningar hefðu verið gerðir um það sem hv. þm. hefur haft langar ræður um á undanförnum mánuðum. En ég tel ekkert athugavert við það að einkaaðilar taki að sér þjónustustörf ef það er vel skilgreint en það þarf að vanda sig við það. Að sjálfsögðu þarf að skilgreina vel þá þjónustu og hafa gott eftirlit með því að hún sé veitt. Hins vegar er engin grundvallarbreyting á stefnu Framsfl. í þessu efni. Það er svo að það eru ýmis stjórnmálaöfl sem eru ekki hrifin af breytingum og eru ekki hrifin af því að brydda upp á nýjungum í rekstri. Ég ætla ekki að orðlengja það frekar í þessari umræðu.

Ég vil endurtaka þakkir mínar fyrir málefnalega umræðu og lýk máli mínu.