2000-12-01 02:56:52# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[26:56]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er grundvallarbreyting á því að reka stofnanir á borð við dvalarheimili aldraðra sjómanna eða SÍBS, velferðarstofnanir sem sprottnar eru upp úr samtökum sjúklinga eða launafólks til að veita þjónustu. Það er grundvallarmunur á starfsemi af þessu tagi og rekstrarfyrirkomulagi af þessu tagi og hins vegar því þegar fjárfestingarfyrirtæki á borð við Aðalverktaka hf. og Securitas eru farin að fjárfesta í samfélagsþjónustunni til að hafa af henni arð. Á þessu er grundvallarmunur. Ef menn skilja ekki þennan grundvallarmun þá skilja menn ekki út á hvað einkavæðingarstefnan gengur í raun og sann.