Fjárlög 2001

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 11:53:30 (2586)

2000-12-04 11:53:30# 126. lþ. 38.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 126. lþ.

[11:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það má e.t.v. líta svo á að þessi tillaga sé þegar afgreidd með þeirri sem felld var áðan. Hér er þó önnur tala á ferð. Í fyrra tilvikinu var einnig um að ræða fjárveitingu til stofnkostnaðar sem var innifalinn í hækkun til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Það er svo sem allt í lagi að leyfa mönnum að greiða um þetta atkvæði aftur og vita hvort einhverjum hefur snúist hugur.

Það verður að segjast eins og er að útreiðin á Framkvæmdasjóði fatlaðra sem nú er skertur um drjúgan meiri hluta tekna sinna sem rennur í ríkissjóð í stað þess að ganga til þeirra brýnu málefna sem Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur á sinni könnu, að útrýma biðlistum, taka á aðgengismálum og öðrum slíkum verkefnum sem ekki hefur verið unnt að sinna með fullnægjandi hætti undanfarin ár.

Það er enn fremur ámælisvert, herra forseti, ef af því verður að færa málaflokkinn málefni fatlaðra til sveitarfélaganna, að ríkið ætli að skilja við hann með þeim hætti sem raun ber vitni, að skerða verulega á síðustu árunum aðaltekjustofn málaflokksins.