Fjárlög 2001

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 12:19:24 (2600)

2000-12-04 12:19:24# 126. lþ. 38.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, KolH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 126. lþ.

[12:19]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Íslendingar eiga aðild að samningnum um líffræðilega fjölbreytni eins og öðrum samningum sem gerðir voru í Ríó 1992. Hins vegar hafa stjórnvöld ekki sett neitt fjármagn í að hefja það starf sem nauðsynlegt er til að við getum farið eftir þessum samningi. Samt hafa þau lýst yfir í plöggum sínum að eftir honum beri að fara og hann sé mikilsverður fyrir okkur á leiðinni í átt til sjálfbærrar þróunar en það er allsendis óskiljanlegt, herra forseti, að ekki skuli ætlað neitt fjármagn í hann ár eftir ár.

Hér leggur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð til að 20 millj. verði varið til að samningurinn um líffræðilega fjölbreytni geti öðlast gildi og við getum farið að fara eftir honum.