Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 15:04:25 (2613)

2000-12-04 15:04:25# 126. lþ. 39.1 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv. 145/2000, Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[15:04]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frhnál. við frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2000 frá meiri hluta fjárln.

Í ræðu minni við 2. umr. um frumvarpið kom fram að fjallað hefði verið um nokkur mál í nefndinni sem frestað yrði til 3. umr. að taka ákvörðun um. Umfjöllun um þau mál er nú lokið.

Þar er fyrst til að taka að lögð hefur verið fram endurskoðuð tekjuáætlun og samkvæmt þeirri áætlun lækka tekjur frá frumvarpinu um 1,1 milljarð kr. Þar er þyngst á metunum að áætlaður söluhagnaður lækkar um 3,8 milljarða og tekjuskattur lögaðila lækkar um 2,6 milljarða frá áætlun og fjármagnstekjuskattur um 380 millj. frá áætlun. Aftur hækkar tekjuskattur einstaklinga og staðgreiðslan um 2,7 milljarða frá áætlun samkvæmt rekstrargrunni, en þetta eru stærstu liðirnir í tekjuáætluninni.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstökum þingskjölum. Þær varða 1. gr. frumvarpsins, samanber sundurliðun 1 og 2, 5. gr. fjárlaga fyrir árið 2000, um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir, og 7. gr. fjárlaga fyrir árið 2000, þ.e. heimildagrein. Breytingar á sundurliðun 2 samkvæmt þessum brtt. nema alls 452,1 millj. kr. Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu og ég mun nú fjalla nánar um þær.

Forsætisráðuneyti. Gerð er tillaga um 12,2 millj. kr. aukafjárveitingu vegna uppgjörs kostnaðar auðlindanefndar, en nefndin var kosin á Alþingi í kjölfar þingsályktunar í júní 1998. Forsætisráðuneyti annaðist þjónustu við nefndina, þar með talið greiðslu kostnaðar við nefndarstarfið. Heildarkostnaður við nefndarstarfið er 22,7 millj. kr.

Stafkirkja í Vestmannaeyjum. Lögð er til 3 millj. kr. aukafjárveiting vegna uppgjörs á framkvæmdum við byggingu stafkirkju í Vestmannaeyjum. Smíði kirkjunnar lauk með vígslu í ágúst sl. Nú liggja fyrir drög að uppgjöri sem gera ráð fyrir 52,5 millj. kr. heildarkostnaði sem er 3 millj. kr. umfram fyrri áætlun.

Menntamálaráðuneyti. Háskóli Íslands. Lagt er til að gjöld og sértekjur skólans verði hækkuð um 4,9 millj. kr. til samræmis við leiðréttingu á tekjum af sóknargjöldum á lið 06-735 Sóknargjöld við 2. umr. fjárlaga fyrir árið 2001.

Símenntun og fjarvinnsluverkefni. Gerð er tillaga um 6 millj. kr. aukafjárveitingu til símenntunarmiðstöðva til að bregðast við símakostnaði. Menntamálaráðuneytið gengur frá úthlutun af liðnum.

Sinfóníuhljómsveit Íslands. Lagt er til að Sinfóníuhljómsveit Íslands verði veitt 10,2 millj. kr. til að gera upp gamla skuld við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Ýmis íþróttamál. Gerð er tillaga um að veita sérstakan 12 millj. kr. styrk til að gera upp halla sem varð á landsmóti hestamanna á Melgerðismelum í Eyjafjarðarsveit sumarið 1998. Hestaveira sem kom upp í fyrsta sinn hér á landi nokkrum vikum fyrir mótið setti allar fjárhagsáætlanir úr skorðum. Aðsókn varð minni en gert hafði verið ráð fyrir og áætlanir um tekjur stóðust því ekki.

Utanríkisráðuneyti. Lögð er til 77,3 millj. kr. hækkun vegna aukins kostnaðar á ýmsum sameiginlegum útgjöldum sendiráða og fastanefnda. Hlutdeild ráðuneytisins í greiðslu skólagjalda, flutnings starfsmanna, sjúkrasjóðs og tungumálanáms hefur aukist á undanförnum árum umfram það sem áætlanir gerðu ráð fyrir.

Lagt er til að 43 millj. kr. verði felldar niður af liðnum 1.85 Friðargæsla.

Útflutningsráð Íslands. Lögð er til 9 millj. kr. viðbótarfjárveiting. Í endurskoðaðri áætlun um ríkistekjur af markaðsgjaldi er gert ráð fyrir auknum tekjum og því er farið fram á ráðstöfun þeirra í samræmi við lög.

Félagsmálaráðuneyti. Lögð er til 5 millj. kr. hækkun á fjárveitingu Vinnueftirlits ríkisins í kjölfar endurskoðunar á áætlun um ríkistekjur af hlutdeild í tryggingagjaldi.

Gerð er tillaga um 12,5 millj. kr. fjárveitingu til Götusmiðjunnar -- Virkisins til þess að ganga frá þjónustusamningi við félagsmálaráðuneytið í samræmi við aukið umfang.

Gerð er tillaga um 8 millj. kr. aukafjárveitingu til Styrktarfélags vangefinna. Upphæðinni er ætlað að gera kleift að ljúka þjónustusamningi við félagsmálaráðuneytið sem er á lokastigi.

Jöfnunarsjóður fær 1,4% af skatttekjum ríkisins og samkvæmt endurskoðaðri tekjuáætlun hækka tekjur ríkisins af beinum og óbeinum sköttum um 3 milljarða kr. Framlag af beinum og óbeinum sköttum hækkar því um 30 millj. kr. Heildarframlag af skatttekjum mun því skila sjóðnum tæplega 2.300 millj. kr.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Slysatryggingar. Kaup og aflahlutur sjómanna. Gerð er tillaga um 33 millj. kr. fjárveitingu til greiðslu á kaupi og aflahlut sjómanna. Greiðslur þessar eru fjármagnaðar með slysatryggingagjaldi á laun sjómanna en færast jafnframt sem ríkistekjur. Afkoma ríkissjóðs er því óbreytt eftir sem áður.

Landlæknir. Yfirstjórn. Gerð er tillaga um 30 millj. kr. aukaframlag til að bregðast við uppsöfnuðum rekstrarvanda embættisins en fjármál þess hafa verið endurskipulögð. Enn fremur verður gerð tillaga um 30 millj. kr. tímabundið framlag í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2001 til sama verkefnis.

Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri. Gerð er tillaga um 41,4 millj. kr. aukafjárveitingu til að leiðrétta framlag til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla sjúkrahússins samkvæmt mati Ríkisendurskoðunar á síðasta ári. Mat Ríkisendurskoðunar var byggt á upplýsingum stjórnenda sjúkrahússins um fjárhagsstöðu þess. Í ljós hefur komið að ónotað framlag til stofnframkvæmda hafði verið talið með rekstrartekjum sjúkrahússins og uppsafnaður halli árið 1999 var því lægri sem fjárveitingunni nemur.

Tæki og búnaður. Lagt er til að Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri verði veittar 11 millj. kr. upp í kostnað vegna nýrrar vararafstöðvar sem nauðsynlegt reyndist að kaupa í tengslum við framkvæmdir í nýrri álmu sjúkrahússins.

Ríkisspítalar. Lögð er til 173,4 millj. kr. aukafjárveiting til að leiðrétta framlag til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla sjúkrahússins samkvæmt mati Ríkisendurskoðunar á síðasta ári. Mat Ríkisendurskoðunar var byggt á upplýsingum stjórnenda sjúkrahússins um fjárhagsstöðu þess. Í ljós hefur komið að ónotað framlag til stofnframkvæmda hafði verið talið með rekstrartekjum sjúkrahússins og uppsafnaður halli árið 1999 var því lægri sem fjárveitingunni nemur.

Sjúkrahús í Reykjavík. Ýmis skipulags- og rekstrarverkefni. Lagt er til 150 millj. kr. aukaframlag til að standa undir kostnaði við sameiningu Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur. Gerð verður tillaga um tímabundið 150 millj. kr. framlag til sama verkefnis í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2001, en þessi tillaga verður væntanlega gerð við 3. umr.

Framkvæmdasjóður aldraðra. Stofnkostnaður og endurbætur. Endurskoðuð áætlun um ríkistekjur árið 2000 gerir ráð fyrir 15 millj. kr. tekjuauka af gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra skv. 12. gr. laga um málefni aldraðra. Lagt til að sú fjárveiting renni í sjóðinn.

Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands. Lögð er til 6 millj. kr. aukafjárveiting til stofnunarinnar vegna skemmda á vatnsveitu og bilana á gömlum heitavatnslögnum sem urðu vegna skriðufalla í nágrenni stofnunarinnar.

Heilsuverndarstöðin í Reykjavík. Gerð er tillaga um 12,5 millj. kr. aukafjárveitingu til að leiðrétta framlag til að mæta uppsöfnuðum rekstrarhalla Heilsuverndarstöðvarinnar samkvæmt mati Ríkisendurskoðunar á síðasta ári. Það mat var byggt á upplýsingum stjórnenda Heilsuverndarstöðvarinnar um fjárhagsstöðu hennar. Í ljós hefur komið að ónotað framlag til endurbóta á Miðstöð mæðraverndar hafði verið talið með rekstrartekjum og uppsafnaður halli árið 1999 var því lægri sem fjárveitingunni nemur.

Heilbrigðisstofnun Austurlands. Lagt er til að veitt verði 15 millj. kr. aukaframlag til að standa undir kostnaði við stofnun Heilbrigðisstofnunar Austurlands og samhæfa starfsemi heilbrigðisstofnana á svæðinu undir eina yfirstjórn, 5 millj. kr. á heilsugæslusvið og 10 millj. kr. á sjúkrasvið.

Fjármálaráðuneyti. Gerð er tillaga um að fjárheimild vegna fjármagnstekjuskatts sem ríkissjóður greiðir af eigin vaxtatekjum og söluhagnaði eigna verði lækkuð um 380 millj. kr. Skýrist það af því að gert er ráð fyrir að sala á eignum ríkisins verði minni á árinu en fyrirhugað var í fjárlögum.

[15:15]

Undir liðnum Ýmislegt undir fjmrn. 1.71 er lögð til aðstoð vegna snjóflóðs á Flateyri. Gerð er tillaga um 50 millj. kr. aukafjárveitingu sem varið verði til uppbyggingar og endurnýjunar gatna á Flateyri við Önundarfjörð. Uppbygging nútímalegs gatnakerfis í þorpinu hafði einkum farið fram í efri hluta þess á árunum áður en snjóflóðið féll. Þar er byggð nú lítil og nýtist sú fjárfesting því lítið eða ekki. Við flutning byggðarinnar niður á eyrina mæðir meira en áður á götum sem eru í afar lélegu ásigkomulagi og er fjárveitingin ætluð til að byggja upp og lagfæra götur á neðanverðri eyrinni.

Þá er liðurinn 1.75 Aðstoð vegna jarðskjálfta á Suðurlandi. Gerð er tillaga um að framlag vegna jarðskjálfta á Suðurlandi verði hækkað um 150 millj. kr. en í frumvarpinu hefur þegar verið gert ráð fyrir framlagi að fjárhæð 200 millj. kr. Meginhluti framlagsins er ætlaður til að útvega þeim bráðabirgðahúsnæði sem misstu hús sín í jarðskjálftunum. Eftir nánara mat hefur komið í ljós að útvega þarf meira húsnæði til bráðabirgða en í fyrstu var gert ráð fyrir. Þá hefur orðið tjón hjá sveitarfélögum og fyrirtækjum á svæðinu. Loks þarf að mæta nokkrum kostnaði hjá rannsóknastofnunum vegna aukinnar vöktunar og rannsókna. Á móti þessum auknu útgjöldum kemur síðan andvirði húsanna þegar þau verða seld.

Þá eru Ýmis verkefni undir samgrn. Lögð er til 10 millj. kr. viðbótarfjárveiting til vetrarsamgangna og vöruflutninga vegna samnings um áætlunarflug. Samgönguráðuneytið gerði samkomulag við Flugfélag Íslands byggt á útboði um flug á Norðurlandi frá 1. september til ársloka 2000. Samkomulagið kveður á um að greidd verði 80% af andvirði hagstæðasta tilboðs á samningstíma, eða tæplega 13,4 millj. kr. Miðað við þær fjárveitingar sem ráðuneytið hefur til ráðstöfunar á árinu vantar 10 millj. kr. fjárveitingu vegna samningsins.

Þá er það viðskrn. Þar er gerð tillaga um 7,4 millj. kr. lækkun gjalda til Fjármálaeftirlitsins í samræmi við endurskoðaða rekstraráætlun fyrir árið 2000. Um er að ræða lækkun launakostnaðar miðað við áætlun fjárlaga þar sem ráðningu sérfræðinga hefur verið frestað. Jafnframt er gert ráð fyrir að ríkistekjur af eftirlitsgjaldi til fjármögnunar á starfseminni aukist um 6,9 millj. kr.

Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir þeim brtt. sem fluttar eru við frv., en undir frhnál. skrifa: Jón Kristjánsson, Einar Oddur Kristjánsson, Árni Johnsen, Hjálmar Jónsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason og Kristján Pálsson.

Að lokum vil ég gera grein fyrir einni brtt. sem ég flyt við fjáraukalagafrv. á þskj. 422 um að við bætist nýr fjárlagaliður 00-610 Umboðsmaður Alþingis. Það er vegna tækja og búnaðar 2 millj. kr. Af vangá féll þessi tillaga niður þegar við kynntum og settum upp nefndarálitið. Þess vegna flyt ég hana hér í eigin nafni en ekki nafni nefndarinnar. Þetta er fjárfesting vegna tækja og búnaðar, en erindið hafði því miður fallið niður þegar við settum upp okkar nál. Ég legg þetta fram til umræðu.