Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 15:22:25 (2616)

2000-12-04 15:22:25# 126. lþ. 39.1 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv. 145/2000, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[15:22]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það fer okkur vel í Samfylkingunni að taka að okkur hlutverk uppalandans gagnvart hv. stjórnarþingmönnum í fjárln. Við erum nú annað árið í röð búin að berjast fyrir því að menn taki á fjáraukalögunum eins og mælt er fyrir um í lögum um fjárreiður ríkisins. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur sömuleiðis tekið þátt í þessu uppeldishlutverki og nú gerist það að hv. þm. Jón Kristjánsson segir þrátt fyrr allt að hann sé sammála okkur og sínum ágæta varaformanni, hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, í þessu efni. Það skiptir ákaflega miklu máli.

En auðvitað er það viðurhlutamikið þegar það gerist í umræðu eins og um daginn að varaformaður fjárln. segir það hreint út að að því er varðar þau fyrirmæli sem lögð eru fyrir fjárlaganefndina í fjárreiðulögunum frá 1997, þá sé að finna í þessu fjáraukalagafrv. lausung upp á hundruð milljóna. Það eru ákaflega mikil tíðindi. Hv. þm. Jón Kristjánsson orðaði það svo að hann vilji ekki taka svo djúpt í árinni. Með þessu er hv. þm. í reynd að segja að eitthvað kunni nú að vera til í því sem við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum verið að segja um þetta efni og eitthvað kunni hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson líka að hafa til síns máls þó hv. formaður fjárln. vilji ekki taka svo djúpt í árinni að segja að það sé lausung upp á hundruð millj. Það skiptir þó máli er að mér sýnist að loksins séum við þingmenn Samfylkingar og vinstri grænna að ná hér ákveðnum árangri, þ.e. okkur hefur tekist að ala hv. þingmenn stjórnarliðsins þannig upp að þeir lofa a.m.k. bót og betrun.

Ég vænti þess, herra forseti, að þær undirtektir við þennan hluta máls okkar sem hafa komið frá bæði varaformanni og formanni fjárln., séu merki um að á næstu árum náum við betri samstöðu um að reka fjárreiður ríkisins samkvæmt þeim lögum sem Alþingi setti einmitt til þess að koma í veg fyrir svona hluti eins og ég nefndi áðan.