Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 15:52:52 (2624)

2000-12-04 15:52:52# 126. lþ. 39.1 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv. 145/2000, SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[15:52]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég bið um orðið um fundarstjórn af því ég taldi mig nokkuð augljóslega hafa beðið fyrstan um orðið í umræðunni. Þannig háttar til að ég hafði hugsað mér að reyna að komast að framarlega í umræðunni af vissum, persónulegum ástæðum. Ég þóttist sjá að a.m.k. starfsmaður hæstv. forseta tók eftir því að ég bað um orðið um leið og forseti tilkynnti að umræðan væri að hefjast og ég varð ekki var við að aðrir gerðu það fyrr en nokkru síðar að hv. 7. þm. Reykv. bað um orðið.

Ég tek þetta líka upp vegna þess, herra forseti, að mér hefur stundum virst að farið væri að bregða við á þinginu við skipulag umræðu að vikið væri frá þeirri tiltölulega afdráttarlausu reglu, 56. gr. þingskapa, að forseti gefi þingmönnum færi á að taka til máls í þeirri röð sem þeir beiðast þess þegar dagskrármál er tekið fyrir. Frá þessu eru ákveðin frávik. Að sjálfsögðu mæla menn fyrir nál., meiri og minni hluta eftir atvikum. Ráðherrum er sömuleiðis heimilt að komast fram fyrir eða inn í umræðu þegar þeir óska eftir því að koma inn í hana, önnur tilvik lúta fyrst og fremst að því ef forseti kýs að raða stjórnarsinnum og stjórnarandstæðingum upp þannig að þeir skiptist á að mæla fyrir sjónarmiðum, með eða á móti málum, og svo ef menn beiðast þess að gera athugasemdir, bera af sér sakir eða ef óskað er eftir rétti til að veita andsvör.

Að sjálfsögðu er forsetum oft vandi á höndum þegar margir biðja um orðið samtímis en mér virtist ekki vera svo í þessu tilviki og ákvað því að gera athugasemd við fundarstjórn forseta að þessu leyti, af þessu gefna tilviki. Hafi ég misskilið þetta eða það farið fram hjá mér að aðrir hafi verið búnir að biðja um orðið á undan mér og þá í raun og veru áður en umræðan hófst, biðst ég velvirðingar á þessari athugasemd, en ég geri þetta líka vegna þess, herra forseti, að mér finnst stundum hafa gætt nokkurrar tilhneigingar í þá átt að láta umræður að breyttu breytanda ekki fara fram samkvæmt þessari sterku hefð og venju sem hér er og er bundin í 56. gr. þingskapa. Það tel ég að eigi í aðalatriðum að gera, herra forseti. Í aðalatriðum eigi að sjálfsögðu að virða þessa ótvíræðu reglu laganna og þótt kannski megi að einhverju leyti deila um túlkun á þeim heimildarákvæðum sem þarna eru til að víkja frá nema þá þannig hátti til að forsetum sé ekki unnt að greina í hvaða röð menn biðja um orðið þá sé þessi regla látin standa.

Það er t.d. alls ekki gott ef menn mundu lenda inn á þá braut að menn færu að skrá sig á mælendaskrá með einhverjum hætti eins og fyrir fram eða leggja fram lista eða annað því um líkt, því hugsunin á bak við þetta er líka sú að menn séu til staðar í þingsalnum þegar umræðan hefst og biðji þá um orðið sjálfir og persónulega og fái orðið í þeirri röð.