Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 15:56:13 (2625)

2000-12-04 15:56:13# 126. lþ. 39.1 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv. 145/2000, ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[15:56]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Auðvitað er forsetadæminu oft vandi á höndum með að raða á mælendaskrá. Ég hef tekið eftir því í gegnum veru mína hér að menn hafa notað ýmsar reglur og sjálfum hefur mér fundist sem það skapist tilteknar hefðir. Í umræðu eins og þessari sem er nú ein af þeim sem tengist ríkisfjármálunum og er þess vegna ein af stærri umræðunum í þinginu þá hefur það gjarnan verið þannig, hefur mér fundist, að þeir sem eru í viðkomandi fagnefnd, þ.e. fjárln., komi í umræðuna gjarnan í flokkaröð eftir að framsögumenn nál. hafa lokið framsögu sinni. Nú var það þannig, ég get gengist við því, herra forseti, af því ég var sá sem var næstur á mælendaskrá, að ég hafði nefnt það við félaga minn, Guðmund Árna Sefánsson, hæstv. forseta, þegar við gengum inn í salinn að ég vildi gjarnan tala sem fyrst í umræðunni. Hins vegar er mér enginn vandi á höndum með að liðka til fyrir hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Eins og kom fram hjá hv. þm. er hann tímabundinn annars staðar og þarf að tala sem fyrst, ég hef tíma til þess að vera lengur í umræðunni og ætlaði hvort eð er að vera við hana alla. Það er því algjörlega sársaukalaust af minni hálfu að hleypa hv. þm. fram fyrir mig í þessu efni.

Að öðru leyti get ég ekki útskýrt nákvæmlega hvernig þeir ágætu hæstv. forsetar sem stýra fundum setja reglur sínar um þetta. Svona hefur mér nú virst þetta vera. Ég tek hins vegar undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að vel má vera að það þurfi að vera fastmótaðar reglur um fleiri hluti eins og t.d. óundirbúnar fyrirspurnir. Þar má segja að sé að skapast eins konar ólympísk keppni um hver er fyrstur til að koma fram með beiðnir um fyrirspurnir af því tagi.

Herra forseti. Ég ítreka að það er algjörlega sjálfsagt af minni hálfu að hleypa hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fram fyrir mig og ef einhverjir fleiri þingmenn í salnum eru tímabundnir þá mega þeir líka vera á undan mér.