Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 16:03:50 (2629)

2000-12-04 16:03:50# 126. lþ. 39.1 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv. 145/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[16:03]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég mun ekki flytja langt mál. Það sem ég ætla að ræða er í fyrsta lagi lítillega almennar aðstæður við afgreiðslu þessara fjáraukalaga. Í öðru lagi lítillega um framkvæmdakostnað við svonefnt Þjóðmenningarhús og að síðustu mæla fyrir brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Jóni Bjarnasyni og Þuríði Backman en þær lúta að heimildum til handa ríkinu um að selja eignarhlut í tiltekinni jörð Skógræktar ríkisins og reyndar að fella niður aðra slíka heimild gagnvart annarri jörð. Mér þætti gott ef það væri athugað hvort hæstv. landbrh. væri einhvers staðar nálægur þinghúsinu eða sá sem gegnir fyrir ráðherra. Ég sá að hann var ekki viðstaddur atkvæðagreiðsluna í dag. Ef svo er ekki skal ég ekki gera um það kröfur að umræðan truflist af þeim sökum. En ég hefði talið ástæðu til þess að einhver forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar, fyrir utan virðulegan formann fjárln. sem hér er okkur öllum til mikillar ánægju, væri jafnframt viðstaddur umræðuna. Ég þykist vita, herra forseti, að það hafi verið nokkur óánægja með viðveru hæstv. ráðherra þegar fjárlagafrv. var til umræðu. A.m.k. var sá sem hér stendur þeirrar skoðunar að sú frammistaða ríkisstjórnarinnar væri ekki til þess að hrósa sér af og mér virðist allt stefna í það sama nú og ég hlýt að lýsa nokkurri óánægju.

(Forseti (GÁS): Forseti vill geta þess vegna fyrirspurnar um viðveru hæstv. landbrh. að hann hefur fjarvistarleyfi í dag.)

Og ríkisstjórnin öll kannski?

(Forseti (GÁS): Ekki er það nú svo.)

Nei. Herra forseti. Það þarf svo sem ekki að fara mörgum orðum um þær aðstæður sem eru að verða nokkuð vel þekktar á þessum vetrardögum þegar fjárlög og fjáraukalög eru til umfjöllunar á Alþingi. Það hafa orðið miklar umræður um stöðuna í efnahagsmálunm, þá óvissu sem þar hefur verið að dragast upp. Forsendur fjáraukalagaafgreiðslunnar, sem taka mið af þróun mála á árinu sem er að líða og senn kveður okkur og öldin þar með, hafa auðvitað verið að skýrast eftir því sem líður að lokum ársins og það er ljóst að þenslueinkennin hafa haldist og þau endurspeglast í áframhaldandi gríðarlegum viðskiptahalla og jafnvel vaxandi umfram það sem vonir höfðu staðið til og hann vex fyrst og fremst vegna þess að tekjur aukast ekki í neinum mæli í átt við það sem menn höfðu gert sér vonir um annars vegar og eyðslan heldur áfram og lítið minni hins vegar. Þar af leiðandi dregur heldur í sundur milli útgjalda þjóðarbúsins út á við og tekjuöflunar þess á hina hliðina.

Afkoma ríkissjóðs hlýtur að teljast ágæt eins og jafnan endranær við sambærilegar aðstæður. Það má fletta aftur á bak í spjöldum sögunnar og ég hygg að það komi nokkuð skýrt fram að þegar viðskiptahalli er umtalsverður við útlönd, mikill innflutningur er og mikil velta af þeim sökum þá hagnast ríkissjóður á því ástandi. Þegar síðan dæmið snýst við, þá getur snögglega slegið á tekjur ríkissjóðs þegar útgjöldin halda jafnvel áfram að aukast en tekjurnar vaxa ekki að sama skapi.

Ég hef áður velt því fyrir mér hvenær eða hvort horfur væru á því að við kæmumst í þann punkt í kúrfunni eða hagsveiflunni að farið gæti að halla undan fæti og hlutföllin snúast við. Það er umtalsverð útgjaldaþensla í pípunum eins og aukning ríkisútgjalda upp á líklega eina 9 milljarða kr., ef ég hef lesið rétt samkvæmt þessu fjáraukalagafrv., er til marks um og það er nokkuð ljóst að slík útgjaldaþensla gufar ekki upp þó að tekjur ríkissjóðs hættu skyndilega eða tiltölulega snögglega að aukast vegna þess að samdráttur hæfist í hagkerfinu og þá kárnar gamanið hjá hæstv. fjmrh. og hjá ríkissjóði. Þá verða skyndilega talsvert aðrar aðstæður uppi til þess að ná endum saman en verið hafa hér um skeið þar sem þensla og vaxandi viðskiptahalli og að nokkru leyti vaxandi verðbólga hafa þýtt að tekjuaukinn hefur verið ívið á undan útgjaldaaukanum og þar hefur myndast bil sem hefur verið ríkissjóði hagstætt um afkomu. En eins og ég segi, herra forseti, þá sýnir sagan okkur að þetta getur snúist við tiltölulega snögglega, jafnvel innan eins fjárlagaárs og því miður verður að segjast eins og er að ýmis merki gætu bent til þess þó við vissulega vonum að svo fari ekki, að slík vatnaskil gætu orðið í efnahagslífinu og ríkisfjármálunum á næsta ári.

Að öðru leyti, herra forseti, vísa ég til ágæts nál. 2. minni hluta fjárln., hv. þm. Jóns Bjarnasonar, sem hann mælti fyrir áðan.

Í þriðja lagi vil ég segja nokkur orð um framkvæmdir við svokallað Þjóðmenningarhús sem ákveðið var fyrir nokkru síðan að svo skyldi heita. Nú hafa verið að koma fram upplýsingar, herra forseti, sem eru býsna svakalegar um umframkostnað í því verki sem hefur farið heldur hressilega úr böndunum þegar haft er í huga að ekki er þó um ,,stærra`` verk að ræða en raun ber vitni. Kostnaðaráætlanir voru þar samtals upp á rétt um 300 millj. kr. en kostnaðurinn fer þriðjung fram úr þeirri tölu og endar í rétt tæpum 400 millj. Þetta er allmikið frávik á þó ekki stærra verki og er þó afstætt hvað er stórt og hvað ekki þegar svona hlutir eru á ferðinni. Ýmsum þykir sjálfsagt vel í lagt að endurbætur á einu stykki húsi, þó merkilegt sé og sögufrægt, kosti fjármuni af þessari stærðargráðu þegar haft er í huga að til viðhalds og varðveislu menningarsögulegra verðmætra húsa og mannvirkja vítt og breitt um landið er verið að verja hreinum smáaurum samanborið við jafnvel þessa upphæð svo ekki sé talað um annað meira.

Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að hér virðist alveg óvenjulega losaralega hafa verið haldið á málum. Það fer ekki vel á því og allra síst þegar í hlut á sjálft forsrn. sem er hér ábyrgðaraðili. Það má auðvitað endalaust deila um það hverjir eigi að bera ábyrgðina af slælegum verkum, húsbændurnir eða hjúin, en hin endanlega stjórnsýslulega ábyrgð er hjá því ráðuneyti sem málefnið heyrir undir og á hvers vegum framkvæmdirnar eru unnar jafnvel þó um eitthvert framsal niður á lægra stjórnsýslustig eða til undiraðila sé að ræða sem þá er í raun og veru ábyrgðinni varpað yfir á. Ábyrgðin af þeirri gjörð er í öllu falli ráðuneytisins og undan því verður ekki vikist. Þetta er slæmt, herra forseti. Þetta mælist illa fyrir. Þegar sömu aðilar, æðstu embætti ríkisins, eru á sama tíma að reyna að hvetja til aðhalds og ráðdeildar og vandaðra vinnubragða, þá er það afar óheppilegt að svona takist til þegar í hlut eiga sumar æðstu stofnanir eða yfirstjórn ríkisins, Alþingi, forsrn., forsetaembættið eða aðrir slíkir sem lenda í því að fara út fyrir heimildir fjárlaga og eyða umfram það sem ákveðið hafði verið.

Auðvitað er það svo, herra forseti, og það vitum við að þegar í hlut á endurgerð gamalla húsa þá er áætlanagerð oft erfið. Að breyttu breytanda eru síður ástæður til þess eða afsakanir fyrir því þegar í hlut eiga nýframkvæmdir sem á að vera hægt að bjóða út eða standa þannig að málum við að kostnaðaráætlanir haldi betur en við endurbætur þar sem oft er erfitt að sjá fyrir fyrr en út í verkin er komið hvernig leysa eigi einstök mál sem varða varðveislu húsa sem ekki má breyta o.s.frv. Þennan fyrirvara verður því að hafa á og sérstaklega þegar í hlut eiga friðuð hús eða menningarsögulega verðmæt hús sem menn vilja ekki raska og er markmið í sjálfu sér að varðveita á tiltekinn hátt. En nú er Landsbókasafnshúsið gamla sem nú skal kalla Þjóðmenningarhús þó ekki eldra en svo, og það ætti að vera það vel þekkt hvernig að framkvæmdum mætti standa í húsum af þessu tagi, enda var ekki um að ræða nein vandamál sem tengdust a.m.k. ytra útliti hússins sem allir voru sammála um að hafa í upprunalegri mynd, að það er erfitt að skilja að þetta skuli þurfa að fara svona úr böndunum.

Fyrir utan slælega verkstjórn og óljósa ábyrgð á einstökum þáttum virðist fyrst og fremst vera við að sakast þrákelknislega ákvörðun um að drífa framkvæmdirnar áfram og kosta jafnvel til miklum fjármunum þannig að verkinu lyki innan einhverra marka sem menn sjálfir settu sér og það fjármunum sem ekki voru fjárheimildir fyrir. Það er auðvitað mjög mikið umhugsunarefni, herra forseti, ef menn geta tekið sér sjálfir vald til þess að ákveða að hraða framkvæmdum af einhverjum metnaðarástæðum til þess að opna mannvirkin á tilteknum vígsludegi jafnvel þó að það kosti umframeyðslu fjármuna sem ekki eru til heimildir fyrir samkvæmt lögum. Eru menn þá ekki komnir út á ansi þunnan ís? Reyndar er það svo ef við rifjum það upp hvenær mestu framúrkeyrsluhneyksli hafa orðið við framkvæmdir af ýmsum toga, þá er það gjarnan í tengslum við ákvarðanir af þessu tagi, oftar enn ekki pólitískar ákvarðanir ofan frá um að keyra framkvæmdirnar áfram hvað sem tautar og raular til þess að opna þær á einhverjum tilteknum pólitískt völdum degi. Frægast að endemum er sennilega framkvæmdin við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í Keflavík sem kostaði þjóðina stórfé. Forustumenn Sjálfstfl. ákváðu að hana skyldi opna fyrir alþingiskosningar 1987 hvað sem tautaði og raulaði og hversu miklum peningum sem þyrfti til að kosta, enda kostaði það ómælt og það er vitað og liggur fyrir í skýrslum og úttektum, bæði Ríkisendurskoðunar og fleiri aðila, að herkostnaðurinn af þessu varð mikill fyrir þjóðarbúið. Því miður lyktar það pínulítið af hinu sama hér, herra forseti, að umframeyðslan vegna framkvæmda við Þjóðmenningarhúsið stafi af slíkum þrákelknislegum ákvörðunum.

[16:15]

Loks, herra forseti, ætla ég að mæla fyrir brtt. sem hér er flutt við 3. umr. um fjáraukalög fyrir árið 2000 af þremur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, þ.e. hv. þm. Jóni Bjarnasyni og Þuríði Backman auk mín.

Við leggjum til að gerðar verði tvær breytingar á 4. gr. frv. Nú hefði verið ástæða til að hafa eins og eitt stykki hæstv. ráðherra til svara fyrir ríkisstjórnina. Ég sé ekki annað, herra forseti, en að hér stefni í mikið hneyksli og ótrúlega afgreiðslu mála ef svo heldur sem horfir, að til standi af hálfu meiri hlutans að afgreiða tölulið 4.36 og tölulið 4.37 óbreytta eins og þeir liggja fyrir í þingskjalinu eftir 2. umr. um fjáraukalög. Ég er að tala um heimildarákvæði í 4. gr. fjáraukalagafrv. Þar eru lagðir til nokkrir nýir liðir sem bætast við sambærilega grein í gildandi fjárlögum þar sem fyrir eru ýmsar heimildir til framkvæmdarvaldsins til að kaupa og selja eignir o.s.frv. eins og kunnugt er.

Töluliður 4.36 hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Að selja eignarhluta Skógræktar ríkisins í jörðinni Straumi í Hafnarfirði.``

Og töluliður 4.37:

,,Að selja eignarhluta Skógræktar ríkisins í jörðinni Hvítsstöðum, Álftaneshreppi, Mýrasýslu.``

Þá er rétt að hafa í huga að í fjárlagafrv. sem hér var tekið til 2. umr. og atkvæðagreiðslu fyrr í dag ganga þessar heimildir aftur, væntanlega í því skyni að verði þær ekki notaðar á þessu ári þá verði þær til staðar á næsta ári. En þar er orðalag þeirra þó nokkuð öðruvísi.

Í tilviki jarðarinnar Straums er orðalagið með eftirfarandi hætti í fjárlagafrv.:

,,Að selja eignarhlut Skógræktar ríkisins í jörðinni Straumi í Hafnarfirði, Gullbringusýslu og verja andvirðinu í þágu Skógræktar ríkisins, Jarðasjóðs og Jarðeigna ríkisins samkvæmt nánari ákvörðun landbúnaðarráðherra.``

Þetta orðalag, herra forseti, boðar ekki gott og lofar ekki góðu um hvernig ætlunin er að nýta heimildina samkvæmt fjáraukalagafrv. ef jörðin yrði nú seld fyrir áramótin en þar er alls ekki mælt fyrir um hvernig fjármununum skuli varið. Ef svo vill má alveg eins skilja orðalagið þannig að þessir fjármunir skuli renna beint í ríkissjóð. Þá sé ég ekki annað, herra forseti, en að forkastanlegir hlutir séu að gerast. Það er vegna þess að báðar jarðirnar sem ég hef nefnt, þ.e. Straumur í Hafnarfirði og jörðin Hvítsstaðir í Borgarfirði, voru gefnar í þágu skógræktar. Það er ljóst að vilji eigendanna og sú kvöð sem í raun og veru fylgir gjöfinni var að andvirði jarðanna yrði varið í þágu skógræktar.

Herra forseti. Það er ekki hægt að kalla það annað en siðlaust ef menn ætla ekki að virða afdráttarlausan vilja sem gefendur verðmæta af þessu tagi láta fylgja gjöf sinni. Ef menn vilja ekki taka við gjöfinni með þeim skilmálum sem henni fylgja þá geta menn auðvitað gert það. Þá eiga menn líka að gera það þegar hún er afhent eða boðin. En að ætla sér að hverfa frá því sem gefendur, hugsjónamenn, hafa látið fylgja með gjöfum af þessu tagi, sem þeir ákveða að ráðstafa í tilteknu skyni en fela viðkomandi opinberri stofnun að annast það að nýta andvirði jarðarinnar í þágu slíks málefnis, þá er ekki við það unandi.

Nú vill svo til að a.m.k. í öðru tilvikinu var um ótvíræð ákvæði í gjafabréfi að ræða. Þannig er enginn vafi á því hvernig meiningin var að ráðstafa þessum jörðum. Í öðru lagi veitir Skógrækt ríkisins af því að fá þessa fjármuni til sinna þarfa. Að mínu mati á ekki að koma til greina að ráðstafa jarðnæði og verðmætum sem hið opinbera hefur á sinni hendi til skógræktar öðruvísi en í það verkefni eða halda því jarðnæði áfram í höndum Skógræktarinnar eða annarra aðila sem eftir atvikum væru kannski komnir til sögunnar og sinntu verkefnum á sömu sviðum.

Mér finnst vel koma til greina, ef Skógræktin þarf á þessum fjármunum að halda til annarra uppbyggingarverkefna, að hún losi einhverjar eignir eða fjármuni út úr jörðum eða öðrum verðmætum og færi þær yfir í önnur brýn verk sem aðstæður kalla á en það á ekki að ljá máls á því að fara að flytja þessa fjármuni til annarra þarfa eða hirða þá í ríkissjóð. Það er ekki verjandi.

Því miður hafa slíkir hlutir stundum gerst eða a.m.k. átök orðið um slíka hluti. Ljóst er að ríkið hefur stundum ráðstafað eignum, sem að verulegu leyti voru til komnar með áheitum og söfnunum meðal almennings í þágu góðra málefna, til annarra hluta á seinni stigum. Það hefur því miður gerst. Ég þekki dæmi um slíkt. Hér er að mínu mati brugðið frá þeim óskum sem fylgdu viðkomandi gjöfum, um að andvirði þeirra skyldi ráðstafað til þessa hugsjónastarfs. Þar er svo ljótur svipur á, að virða það ekki ef það stendur til, að ég trúi ekki að menn ætli að láta það yfir sig ganga. Það er auðvitað ljóst að Skógræktin leggst alfarið gegn þessu af skiljanlegum og eðlilegum ástæðum. Hver yrði niðurstaðan af því, herra forseti, ef þetta er ítrekað gert með þessum hætti? Hún verður auðvitað sú að menn hætta að treysta opinberum stofnunum fyrir verkefnum af þessu tagi. Hver kærir sig um að eiga það á hættu að afdráttarlausir skilmálar gjafa eða gjafabréfa séu ekki virtir ef svo háttar til?

Herra forseti. Ég fer í fyrsta lagi fram á skýringar á því hvað þarna er að gerast. Er það virkilega ætlun meiri hlutans að afgreiða þetta svona og stendur hugur manna til að afgreiða síðan orðalag fjárlagafrv. óbreytt, þá reyndar ekki í samræmi við það sem hér er, samanber misræmið þar á sem ég hef þegar vikið að? Er ekki hægt að ná um það samstöðu áður en afgreiðslu þessara mála lýkur að þetta verði lagað þannig að ekki stefni í þá óhæfu að gjafaskilmálar og gjafabréf látinna heiðursmanna sem ráðstöfuðu eigum sínum til hugsjónastarfs af þessu tagi verði vanvirt?

Ég harma, herra forseti, að hæstv. landbrh. skuli ekki vera hér til svara því að ætlunin er að hann fái þessar rúmu heimildir í hendur ef af óbreyttri afgreiðslu fjárlagafrv. verður. Samkvæmt þessu ákvæði fjáraukalaganna geta menn gert það við þessa fjármuni sem þeim sýnist.