Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 16:27:38 (2633)

2000-12-04 16:27:38# 126. lþ. 39.1 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv. 145/2000, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[16:27]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Áður en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon þarf að yfirgefa okkur af fullkomlega skiljanlegum ástæðum þá verð ég nú að segja, fyrst að hv. þm. ómakaði sig hingað upp í ræðustól til að velta fyrir sér því sem gerst hefði varðandi Safnahúsið og hvar ætti nú að deila ábyrgðinni á því, að mér fannst hv. þm. furðu blíðmáll við hæstv. forsrh. Þó að hægt sé að segja að hluti ábyrgðarinnar liggi hjá hússtjórninni og hluti hjá Framkvæmdasýslu ríkisins þá er auðvitað alveg ljóst að meginábyrgðin liggur hjá forsrn.

Ef ég mætti benda hv. þm. á það að lesa sér til á bls. 20 og yfir á bls. 21 í skýrslunni um Safnahúsið þá kemur þar fram að það er ekki bara hin stjórnsýslulega ábyrgð sem hvílir á herðum hæstv. forsrh. samkvæmt forminu heldur birtist þar svart á hvítu að ef hæstv. forsrh. hefði farið sjálfur eftir þeim reglum sem hann setti í erindisbréfi til hússtjórnarinnar þá hefði að öllum líkindum, svo vísað sé til þess sem Ríkisendurskoðun segir á bls. 21., mátt koma í veg fyrir að þessi ósköp hefðu gerst.

Ef við sem þykjumst ætla að reyna að stjórna ríkinu í gegnum fjárlögin, förum þannig að fjárlögunum, þá verður maður auðvitað að segja að eftir höfðinu dansa limirnir. Hvernig í ósköpunum á hv. Alþingi að geta gengið að stofnunum ríkisins og skammað forstöðumenn fyrir að fara ekki að fjárlögum þegar svona háttar til? Það blasir við, herra forseti, að undir forustu hæstv. forsrh. er farið meira en 100% fram úr fjárheimildum á þessu ári, farið 100 millj. kr. fram úr framkvæmd sem var samkvæmt greiðsluáætlun metin á 297 millj. kr.

Herra forseti. Ég ætla að ræða lítillega síðar í máli mínu ástæður þess að ekki er hægt að kalla umframkeyrsluna varðandi Safnahúsið annað en rakið hneyksli. Ég ætla að reifa lítillega hvar ég tel að ábyrgðin liggi á því máli og spyrja hæstv. ráðherra, sem málið varðar, nokkurra spurninga.

[16:30]

Nú er það þannig, herra forseti, að ég hef aldrei verið frekur á ráðherra og mér kemur ekki til hugar að láta reka þá hér eins og dilka til réttar. Hins vegar er það þannig að í umræðunni í dag og í umræðu um fjárlagafrv. á dögunum blandast efnahagsmálin og stjórn efnahagsmála. íslenska ríkisins eðlilega mjög inn í málið. Hér hefur hv. þm. Einar Már Sigurðarson flutt góða tölu þar sem hann hefur einmitt reifað hvernig ríkisfjármálin tengjast stjórn efnahagsmála og hvernig við í Samfylkingunni teljum að á undangengnum árum hafi verið gerð töluverð mistök í þeim efnum. Hv. þm. Jón Bjarnason og flokksbróðir hans, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, gerðu þetta allir.

Um daginn þegar við ræddum fjárlagafrv. varpaði ég allmörgum spurningum til hæstv. fjmrh. Ég hygg að það sé einsdæmi sem þá gerðist að við þá umræðu varpaði hæstv. fjmrh. ekki fram einni einustu setningu. Hæstv. fjmrh. var áberandi sökum fjarveru sinnar. Þó var það þannig að fjölmörgum spurningum var varpað til hæstv. fjmrh. Ég ætla ekki að óska eftir því að hæstv. fjmrh. verði færður með valdi í salinn. Ég ætla hins vegar að leyfa mér í tengslum við þá þróun sem menn hafa rætt varðandi efnahagsmálin að beina örfáum spurningum til hæstv. ráðherra og geri þá ráð fyrir því að þeir fulltrúar hans sem hér eru staddir í salnum, önnum kafnir við að rita niður hugleiðingar sínar, muni koma þeim spurningum á framfæri. Ég mun þá ef ekki tekst í þessari ræðu, herra forseti, að særa fram svör, notfæra mér rétt minn til þess að halda fleiri ræður og minni síðan á að hægt er að halda langar ræður við 3. umr. fjárlaga. En mér finnst ekki hægt, herra forseti, þegar menn ræða þá þróun og þær blikur sem eru á lofti á himnum efnahagsmála þá skuli hæstv. fjmrh. bókstaflega fela sig.

Herra forseti. Menn hafa rætt þá þróun sem hefur orðið á allra síðustu vikum og mánuðum varðandi efnahagsmálin. Það hefur komið fram að allt það sem við í Samfykingunni höfum sagt að mundi gerast, hefur gengið eftir. Stundum er erfitt, herra forseti, að vera spámaður og jafnvel erfitt að vera spámaður í eigin föðurlandi. Við þingmenn Samfylkingarinnar sögðum það fyrir fyrir allmörgum missirum að þróun efnahagsmála mundi verða með þeim hætti að viðskiptahallinn mundi aukast. Ég hef margsinnis rifjað það upp og hæstv. fjmrh. hefur jafnoft og við höfum haldið þessu fram með gildum rökum neitað því staðfastlega. Hæstv. fjmrh. hélt því fram langt fram á þetta haust að ekkert væri að í efnahagsmálum og engin hætta stafaði af viðskiptahallanum. Nú er það svo að hæstv. fjmrh. er auðvitað vorkunn. Hæstv. forsrh. hefur margsinnis sett fram þá fullyrðingu að viðskiptahallinn væri ekki eins og viðskiptahallinn var í gamla daga, ekki illkynja heldur góðkynja halli sem stafaði ekki af fjárfestingum hins opinbera, heldur stafaði hann af einkaneyslu og fjárfestingum fyrirtækja. Ábyrgðin lægi þess vegna annars staðar en hjá íslenska ríkinu. Nú er það hins vegar þannig, herra forseti, að það þarf alltaf að fjármagna viðskiptahalla. Við þurfum með einhverjum hætti að geta orðið okkur úti um gjaldeyri til að fjármagna viðskiptahallann.

Nú blasir við að íslenska bankakerfið hefur fengið sér ákaflega mikið af lánum á erlendri grund sem hefur leitt til þess að einstakar stofnanir eru vafalaust komnar að endimörkum lánagetu sinnar þar og að því kemur að íslenska ríkið, þ.e. Íslendingar sem samfélag, mun líka komast að takmörkum lánagetu sinnar. Þá spyr ég, herra forseti: Hvernig eigum við þá að fjármagna viðskiptahallann?

Það gerðist í umræðu um daginn, herra forseti, að ég átti orðastað við hv. þm. og formann fjárln., Jón Kristjánsson. Hv. þm. sagði þá í fyrsta skipti og raunar fyrstur stjórnarliða að viðskiptahallinn væri óviðunandi og hv. þm. Jón Kristjánsson, formaður fjárln., sagði jafnframt að viðskiptahallinn væri beinlínis skaðlegur. Nú er það þannig, herra forseti, að í þessum sal er enginn fulltrúi Sjálfstfl., enginn ráðherra og raunar enginn fulltrúi Framsfl. heldur. Það er eins og þeir kinoki sér við að sitja undir ræðum af þessu tagi þar sem verið er að benda á það sem þeim hefur mistekist.

En út af þeim orðum sem ég hef rifjað upp og féllu af vörum hv. þm. Jóns Kristjánssonar vil ég spyrja hæstv. fjmrh. sem ég veit að er í húsinu: Er hæstv. fjmrh. sammála þeim orðum hv. þm. Jóns Kristjánssonar, formanns fjárln., að viðskiptahallinn sé beinlínis skaðlegur? Ef hæstv. fjmrh. er þeirrar skoðunar, er hann þá ekki um leið að taka undir með þeim varnaðarorðum Samfylkingarinnar sem ráðherrarnir allir hafa hingað til skellt skollaeyrum við?

Í umræðum um ríkisfjármál og stjórn efnahagsmála hafa þingmenn, bæði stjórnarliðsins og stjórnarandstöðunnar, kastað á milli sín skoðunum á því hvað veldur þeim blikum sem nú sjást á himni íslenskra efnahagsmála. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárln., var búinn að finna sektarlamb. Sektarlambið að hans mati, herra forseti, var Seðlabankinn. Er það þannig að Sjálfstfl. og forusta Sjálfstfl. séu þeirrar skoðunar að það sé Seðlabankanum að kenna að nú er líklegt að til tíðinda geti dregið í íslenskum efnahagsmálum á næstunni?

Það er nauðsynlegt, herra forseti, að þetta komi fram, ekki síst vegna þess að yfirmaður Seðlabankans er formaður Sjálfstfl.

Í úttekt sem Efnahags- og framfarastofnun Evrópu gerði kom í ljós að íslenski Seðlabankinn var í 70. sæti yfir þá seðlabanka í heiminum sem voru ósjálfstæðastir. Með öðrum orðum er íslenski seðlabankinn ekki sjálfstæð stofnun, hann starfar undir ráðherra. Enginn maður þarf að halda því fram að Seðlabanki Íslands taki ákvarðanir um vexti og vaxtahækkanir án þess að það sé borið undir ríkisstjórnina.

Þess vegna er nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. svari því í þessari umræðu hvort hann sé sömu skoðunar og talsmaður Sjálfstfl. í efnahagsmálum í þessum sal, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, um að stefna Seðlabankans í vaxtamálum sé orsök þess efnahagsvanda sem nú blasir við? Þetta er nauðsynlegt að komi fram.

Herra forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson gerði að umræðuefni þá skýrslu sem forsrn. óskaði eftir að gerð yrði um framkvæmdir við Þjóðmenningarhúsið. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson fór lauslega yfir það mál. Það sem er e.t.v. merkilegast við það af hálfu okkar þingmanna Samfylkingarinnar er sú staðreynd að við sem sitjum í fjárln., þrír þingmenn Samfylkingarinnar, höfðum ekki hugmynd um að á miðju sumri hafði hæstv. forsrh. beðið um sérstaka úttekt af hálfu Ríkisendurskoðunar á framkvæmdum við Safnahúsið í þeim tilgangi eins og segir, með leyfi forseta, í inngangi Ríkisendurskoðunar í skýrslunni: ,,... var óskað rannsóknar á því hvað fór úrskeiðis þannig að læra mætti af mistökunum.`` Ekki er ofmælt í þessari skýrslu að hér sé um mistök að ræða og er nauðsynlegt að ræða það.

En áður vil ég fordæma að við þingmenn stjórnarandstöðunnar óskuðum eftir því að skýrslan kæmi í hendur okkar fyrir 2. umr. um frv. til fjáraukalaga. Þá fyrst urðum við þess áskynja, þegar okkur var fengið í hendur minnisblað frá forsrn. um þessar framkvæmdir, að ráðuneytið hafði óskað eftir því að Ríkisendurskoðun gerði skýrslu um málið. Við, eins og ég sagði, herra forseti, óskuðum eftir því að fá skýrsluna í hendur fyrir umræðuna, hér væri um lykilgagn að ræða. Hins vegar fór svo að ekki var orðið við bón okkar, við fengum ekki skýrsluna í hendur fyrr en þeirri umræðu var lokið. Það þykja mér ekki góð vinnubrögð, herra forseti. Mér þykja það ekki heldur góð vinnubrögð að skýrslu af þessu tagi sé í reynd stungið undir stól því ekki er hægt að segja annað en henni sé stungið undir stól þegar fjárln. Alþingis fær ekki einu sinni að vita af henni og einstakir nefndarmenn sem í henni sitja eiga ákaflega erfitt með að verða sér út um skýrsluna og þurftu nánast að toga hana út með töngum.

Herra forseti. Það er spurning hvernig þingið á að fara með skýrslur af þessu tagi. Þarna er um að ræða framkvæmd sem fór algerlega úr böndunum. Þarna er um að ræða framkvæmd sem var klárlega á forræði forsrn. Þarna er því um að ræða framkvæmd sem við þurfum að læra af. Við þurfum að sýna það svart á hvítu hvers vegna þessi mistök urðu. Við þurfum að læra hvernig við getum komið í veg fyrir að þau gerist aftur. Spurningin er hvaða tök hið háa Alþingi hefur til þess að gera það.

Nú liggur þessi skýrsla fyrir og eins og ég sagði, henni var nánast stungið undir stól. Ég vil því spyrja hv. þm. Jón Kristjánsson, formann fjárln., hvort hann muni verða við þeirri bón sem á morgun mun koma fram í fjárln. frá þingmönnum Samfylkingarinnar um að skýrslan verði rædd í nefndinni og að síðan, að lokinni umræðu í nefndinni, verði gefið út nál. sem verði tekið til umræðu á hinu háa Alþingi. Ég tel að það sé algerlega nauðsynlegt.

Þegar maður les skýrsluna og reynir að grafast fyrir um hvað fór úrskeiðis er alveg ljóst að deila má ábyrgðinni í þrjá staði. Í fyrsta lagi á hússtjórnina, í öðru lagi á Framkvæmdasýslu ríkisins og í þriðja lagi á forsrn. Nú ætla ég, herra forseti, að færa rök fyrir þessu.

Hússtjórnin var klárlega sá aðili sem átti að sjá um kaup verka og var þess vegna ábyrg formlega gagnvart ráðuneyti sínu, þ.e. forsrn. Hins vegar er það þannig að hússtjórninni er nokkur vorkunn. Það er einfaldlega þannig að í skýrslunni kemur fram að hússtjórnin óskaði eftir því að sett yrði á laggir sérstök byggingarnefnd. Það kemur líka fram í skýrslunni að samkvæmt þeim reglum sem settar hafa verið um opinberar framkvæmdir í sérstakri handbók þar að lútandi er hefð að þegar um framkvæmdir af þessu tagi er að ræða á að setja niður byggingarnefnd og þá er það jafnan starfsmaður og eftirlitsmaður Framkvæmdasýslunnar sem er ritari nefndarinnar. Þetta hefur gefist ákaflega vel. Ég spyr því annaðhvort hæstv. fjmrh., sem er staddur einhvers staðar í húsinu, eða hv. formann fjárln.: Hver var það sem hafnaði þeirri bón hússtjórnarinnar að sett yrði á laggir byggingarnefnd? Ef sú nefnd hefði verið sett á laggir er alveg ljóst að upplýsingaflæðið, milli Framkvæmdasýslunnar og hins vegar verktakanna á annan vænginn og hinn vænginn hússtjórnarinnar, hefði verið miklu betra. Þá hefði mátt koma í veg fyrir þessi mistök.

En eins og ég sagði þótt hússtjórnin beri klárlega sinn hlut af ábyrgðinni er ekki hægt annað en vorkenna henni svolítið vegna þess að hún gerði sér grein fyrir vanmætti sínum og reynsluleysi í þessum efnum og óskaði eftir því að sett yrði á byggingarnefnd. Þeirri ósk var hafnað. Spurt er: Hver var það sem tók ábyrgðina á því að hafna því?

Það er líka ljóst að Framkvæmdasýslan ber töluvert stóran hluta ábyrgðarinnar. Það var hins vegar þannig að Framkvæmdasýsla ríkisins framseldi í raun arkitektastofu hér í bæ umboð sitt sem eftirlitsaðili, þannig að fenginn var einkaaðili til að fylgjast með framkvæmdinni og sjá um þá upplýsingagjöf sem þurfti milli allra þeirra sem tengdust framkvæmdinni. Það er ákaflega fróðlegt að lesa það að verklýsing þessa eftirlitsaðila var tiltölulega nákvæm. Þar kemur t.d. fram að eftirlitsaðilinn átti að halda reglulega verkfundi með verktaka og hönnuðum. Eftirlitsstofan átti jafnframt að undirbúa skriflega viðbótarsamninga milli verktakanna og hússtjórnarinnar og bera þá undir hússtjórnina eða verkkaupandann til samþykktar. Sá aðili átti jafnframt að sjá til þess að magn og umfang einstakra þátta í framkvæmdinni og kostnaður væri í samræmi við verksamninginn. Það var alveg skýrt tekið fram í verklýsingunni að ekki mátti samþykkja reikninga vegna vöru, þjónustu og ýmissa verka nema eftirlitsstofan væri búin að gefa samþykki sitt. Það var sem sagt alveg ljóst að þarna var um að ræða þann aðila sem átti að annast milligöngu á milli verktaka vegna þeirra miklu breytinga sem urðu á verkinu meðan á framvindu þess stóð og átti jafnframt að skýra útboðsgögnin.

Nú er það þannig að í verklýsingunni kemur líka fram að það yrði að gera viðbótarsamninga um allar breytingar sem reyndist nauðsynlegt að gera. En ekki eru til nein skrifleg gögn um slíka samninga, né heldur um þær ákvarðanir sem þessu tengjast. Þarna hefur eftirlit verið algerlega í molum og fram kemur að arkitekt hússins var sá aðili sem í reynd réð framvindu breytinga en hann telur jafnframt samkvæmt þeirri skýrslu sem Ríkisendurskoðun hefur lagt fram að eftirlitsstofan úti í bæ hefði alltaf fengið fullnægjandi upplýsingar um ákvarðanir sem voru teknar varðandi breytingar. Með öðrum orðum er alveg ljóst að þarna hefur ábyrgðinni verið svo þunnt smurt að enginn hefur vitað hvað annar var að gera.

[16:45]

Þegar maður les þetta þá er í fyrsta lagi alveg ljóst að Framkvæmdasýsla ríkisins ber ábyrgð á mistökum þessarar eftirlitsstofu. En ég vil hins vegar spyrja hæstv. fjmrh.: Þegar maður les þessa sorgarsögu, þegar maður les að Ríkisendurskoðun telur að eftirlitsstofan sem fengin var til þess að annast þessa hluti hafi brugðist illilega, á þá ekki ríkið skaðabótakröfu á hendur þessum eftirlitsaðila? Ég held að það sé nauðsynlegt að þetta liggi skýrt fyrir, herra forseti. Og ef hæstv. fjmrh. getur ekki svarað því þá tel ég að hér séu komin ærin rök fyrir því að við þingmenn sem sitjum í fjárln. fáum þetta mál tekið fyrir í nefndinni til rækilegrar umfjöllunar.

Ég tel að það geti varla verið að einkaaðila úti í bæ sé fengið svona viðamikið hlutverk og væntanlega greitt fyrir það ærið fé sem mistekst jafn hrapallega og hér er rakið í þessari skýrslu, án þess að það sé alveg ljóst að hann hlýtur að bera einhvers konar ábyrgð gagnvart skattborgurunum sem greiða honum féð í gegnum framkvæmdarvaldið. Ég tel að ef ekki er tekið á þessu máli, a.m.k. kannað hver staða ríkisins sé gagnvart þessu, þá sé verið að gefa ákaflega slæmt fordæmi.

Herra forseti. Það kemur líka fram í þessari skýrslu að hússtjórnin var ábyrg gagnvart forsrn. Og forsrn. bar auðvitað að kanna stöðu mála hjá þessari stjórn, ekki síst eftir að það var fram komið að ljóst var að framkvæmdin var að fara úr böndum og kostnaður var orðinn miklu meiri en menn gerðu ráð fyrir. En eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson rakti í framsögu sinni, þá var það a.m.k. í byrjun þessa árs sem það var ljóst.

Herra forseti. Forsrn. sendi bréf til hússtjórnarinnar þar sem henni var falin yfirumsjón með verkinu og samkvæmt því átti ráðuneytið að fá árlega skýrslu um stöðu verksins. Hins vegar liggur fyrir að engin slík skýrsla var gerð. Ríkisendurskoðun segir að ef slík skýrsla hefði verið gerð hefði það kallað á reglulegt kostnaðaruppgjör, mat á greiðslustöðu og af sjálfu leiðir þá að menn hefðu skynjað miklu fyrr hvert stefndi.

Ríkisendurskoðun tekur svo djúpt í árinni, herra forseti, að hún segir, með leyfi forseta:

,,Líklegt er að ef þessar upplýsingar hefðu legið fyrir árlega hefði fyrr verið tekið á fjárhagsvanda verksins. Forsætisráðuneytið kallaði ekki eftir þessum upplýsingum á verktímanum sem það sjálft hafði ákveðið að ættu að vera fyrir hendi.``

Herra forseti. Þarna liggur stærstur hluti sakarinnar í þessu efni. Ábyrgðin liggur að stærstu leyti hjá forsrn. Hér kemur það fram í rannsókn Ríkisendurskoðunar að forsrn. setur sjálft ákveðnar reglur til hússtjórnarinnar. Samkvæmt þessum reglum á að gefa skýrslu um stöðu verksins. Slík skýrsla hefði leitt til þess að menn hefðu getað fylgst reglulega með kostnaðinum. Ríkisendurskoðun er þeirrar skoðunar að ef forsrn. hefði kallað eftir þessum upplýsingum sem það hafði sjálft skipað hússtjórninni að gera, þá hefði þetta ekki gerst.

Herra forseti. Þetta snýst um aga, ekki agavald, heldur aga. Þetta snýst um það að við sem erum í forustu setjum öðrum gott fordæmi. Við höfum hér hv. þm. á Alþingi haldið margar ræður um nauðsyn þess að ýmsar stofnanir og ýmsir forstöðumenn fari að fjárlögum. Svo gerist það að æðsti yfirmaður framkvæmdarvaldsins, hæstv. forsrh., bilar í þessu efni. Hann fer ekki eftir sínum eigin reglum.

Herra forseti. Hvernig getum við krafist þess af forstöðumönnum stofnana, hvernig getum við krafist þess af stofnununum sjálfum að þær fylgi fjárlögunum, að þær fylgi þeim reglum sem settar eru, þegar forsrn. sjálft gerir það ekki einu sinni?