Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 16:51:37 (2635)

2000-12-04 16:51:37# 126. lþ. 39.1 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv. 145/2000, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[16:51]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur lög að mæla. Það var ekki um neitt annað að ræða en tilraun til að fela þessar staðreyndir sem lágu þó fyrir. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að þegar þessi mál komu til umræðu í fjárln. þá gat þess ekki nokkur maður að búið væri að skrifa heila skýrslu um þann skandal sem í þessu felst. En hver skyldi skýringin vera, herra forseti? Ég er algjörlega sannfærður um að ekki voru félagar okkar úr stjórnarliðinu að leyna okkur skýrslunni. Þeir vissu ekki um hana.

Herra forseti. Það sem hér er að gerast er einfaldlega það að í ágúst var gerð skýrsla um þetta hneyksli þar sem farið var 100 millj. fram úr þeirri heimild sem var fyrir þetta ár, þar sem ein tiltekin framkvæmd við eitt af gæluverkefnum ríkisstjórnarinnar fór 100 millj. kr. fram úr greiðsluáætlun. Fyrir liggur skýrsla um málið og enginn fær að vita um það. Það er ekki fyrr en fjárlaganefndarmenn krefjast rækilegra skýringa á framvindu málsins að minnisblað kemur fram þar sem minnst er á skýrsluna. Þá fyrst kemur fram í dagsljósið að Ríkisendurskoðun er búin að gera skýrslu um þetta. Og þegar sú skýrsla er lesin, þá auðvitað skilst það vel af hverju menn vilja ekki ræða þetta fyrir opnum töldum fyrr en við höfum knúið það fram núna. Það er auðvitað vegna þess að þar kemur það fram svart á hvítu að ef forsrn. hefði farið eftir þeim reglum sem það sjálft setti þá hefði þetta aldrei gerst.