Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 17:34:19 (2641)

2000-12-04 17:34:19# 126. lþ. 39.1 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv. 145/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[17:34]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bara mótmæla því að það eigi að gera skýran greinarmun á því annars vegar þegar um er að ræða fjárveitingar til forréttindahluta samfélagsins sem alltaf má keyra fram úr öllum áætlunum og það er alltaf bætt upp, alltaf komið með viðbótarfjármagn, þ.e. annars vegar á þessum hluta samfélagsins, skjólstæðingum ríkisstjórnarinnar og svo hins vegar öryrkjum og þeim sem eiga í erfiðleikum í húsnæðismálum eða í heilbrigðiskerfinu. Ég mótmæli þessu. En auðvitað er þetta ákveðin pólitísk stefna sem við hljótum að takast á um í næstu kosningum sem því miður eru ekki fyrr en eftir allt of langan tíma.

Hv. þm. Jón Kristjánsson vék sérstaklega að framlagi til barnabóta og barnafólks. Það er undarlegt hve duglegir framsóknarmenn eru að halda þessari firru fram. (JónK: Ég talaði um fæðingarorlof.) Staðreyndin er sú að framlag til barnafólks er minna nú, bæði í krónum talið og sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, en það var fyrir aðeins örfáum árum.

Hv. þm. Jón Kristjánsson leiðréttir mig og segir að ég hafi misheyrt þetta, að hann sé að tala um framlag til fæðingarlofsmála og undir það skal ég taka. Það er rétt. Það hefur verið bætt og þar hefur verið samþykkt löggjöf sem er vissulega mikið framfaraskref. Undir það tek ég.