Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 18:31:57 (2649)

2000-12-04 18:31:57# 126. lþ. 39.9 fundur 310. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001# (breyting ýmissa laga) frv. 174/2000, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[18:31]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þegar ég kom í félmrn. var, ef ég man rétt, 40% af fé framkvæmdasjóðsins varið til rekstrar. Ég beitti mér fyrir því að þarna yrðu gerð skil og rekstrarverkefnum létt af framkvæmdasjóðnum og það sem merkt væri framkvæmdasjóði færi að langmestu leyti til framkvæmda.

Á þeim tíma sem ég hef verið félmrh. hefur enginn málaflokkur í félmrn. fengið meira fé eða vaxið hraðar en málefni fatlaðra. Það fé sem varið er til málefna fatlaðra nú er miklu meira en það var þegar ég tók við.

Gerðar hafa verið nákvæmar úttektir. Kostnaðarnefnd hefur gengið frá niðurstöðu sem ég er með hér í höndum. Hún er dagsett í október þessa árs. Í kostnaðarnefndinni sátu Sturlaugur Tómasson deildarstjóri í félmrn., sem var formaður, Hallgrímur Guðmundsson í fjmrn. og Karl Björnsson bæjarstjóri á Selfossi. Þeir kostnaðarmátu það frv. sem hér liggur fyrir Alþingi um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Jafnframt liggur fyrir skýrsla starfshóps um biðlista eftir þjónustu svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra. Formaður í þeirri nefnd var Sturlaugur Tómasson, deildarstjóri í félmrn. Aðrir í nefndinni voru Björn Sigurbjörnsson, forstöðumaður Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra í Reykjavík, Hallgrímur Guðmundsson í fjmrn., Þór Þórarinsson, sem er forstöðumaður svæðisskrifstofunnar á Reykjanesi og Bragi Mikaelsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi.

Mat þeirra er að um 0,5% íbúa landsins þurfi á sérhæfðri þjónustu að halda og mat kostnaðarnefndarinnar er að kostnaður vegna þjónustu við fatlaða og rekstur húsnæðismála þeirra verði tæplega 4,1 milljarður, þ.e. að til viðbótar þurfi 565 milljónir frá núverandi fjárveitingum til þess að veita öllum þá þjónustu sem lögin gera ráð fyrir. Þar að auki eru önnur kostnaðaráhrif í frv., m.a. þjónusta við langveik börn, metin á 300 milljónir. Þetta eru samtals 4,4 milljarðar eða 1,16% af útsvarsstofninum.

Nú er staðan sú að á sambýlum búa 877 einstaklingar eða í sjálfstæðri búsetu með frekari liðveislu eða á vistheimilum. Þeim hefur fjölgað um 42 frá árslokum 1997. Íbúum á sambýlum hefur fjölgað um 55, þeim sem njóta frekari liðveislu hefur fjöglað um 16. En aftur á móti hefur fækkað á vistheimilum um 29 og þar koma til útskriftir af Kópavogshælinu.

Nú vantar 134 búsetu á sambýlum og 75 frekari liðveislu. 17% þeirra sem eru á biðlistum eftir búsetu í Reykjavík njóta skammtímavistunar reglulega og 30% á Reykjanesi. Það er rétt að árétta það að margir þeirra sem skráðir eru á biðlista njóta dagþjónustu eða skammtímaþjónustu.

Ef við lítum á hvaða fólk er á biðlistunum og í mestri þörf, þá eru í þyngsta fötlunarflokknum, eldri en 21 árs, þrír einstaklingar. Sjö einstaklingar eru í fötlunarflokki sex, eldri en 21 árs. Samtals tíu þyrftu því að komast á sambýli, eldri en 21 árs, í tveimur þyngstu flokkunum. Þar að auki eru 18 einstaklingar í fimmta flokki, eldri en 21 árs.

Í Reykjavík eru án dagþjónustu í dag 29. Þar af búa á sambýlum 14. Innan skamms verður hægt að bjóða upp á dagþjónustu fyrir alla sem á henni þurfa að halda í Reykjavík. Á Reykjanesi eru 11 án dagþjónustu og þar af búa fjórir á sambýlum. Án þjónustu á þessum svæðum eru 22 einstaklingar.

Við Helgi Hjörvar, formaður hússjóðs Öryrkjabandalagsins, undirrituðum sameiginlega viljayfirlýsingu í fyrradag. Eins og umræður hafa þróast hér tel ég rétt að lesa hana, með leyfi forseta. Hún hljóðar svo:

,,Félagsmálaráðuneytið og hússjóður Öryrkjabandalagsins hafa ákveðið að hefja formlegt samstarf í húsnæðismálum. Markmiðið er að mæta þörf fatlaðra fyrir sambýli í samræmi við skýrslu starfshóps félagsmálaráðuneytisins frá nóvember 2000 um búsetu fatlaðra.

Samstarf aðilanna verður fólgið í því að hússjóður Öryrkjabandalagsins lætur í té húsnæði fyrir sambýli sem Íbúðalánasjóður veitir lán til að hluta og félmrn. tekur að sér að reka. Hússjóður Öryrkjabandalagsins verður eigandi húsnæðisins en félmrn. annast allan rekstur sambýla, þar með talda greiðslu leigu. Stefnt er að því að þörf fyrir sambýli verði mætt á næstu fimm árum.

Flytjist málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga hinn 1. janúar 2002 gerir hússjóður Öryrkjabandalagsins ekki athugasemdir við að sveitarfélögin taki við rekstri umræddra sambýla, þar með talda greiðslu leigu.

Þörfin fyrir ný sambýli er nú nánast eingöngu í Reykjavík og á Reykjanesi og mun samstarf aðilanna taka mið af því.``

Undir þetta skrifuðum við Helgi Hjörvar, formaður hússjóðs Öryrkjabandalagsins, og ég.

Vinnuferlið verður það að samningar verða gerðir um hvert sambýli og það er von okkar að fyrstu samningarnir líti dagsins ljós alveg á næstu dögum. Við munum að sjálfsögðu fylgjast með þessum byggingarframkvæmdum, en útboð eru á valdi Öryrkjabandalagsins. Hvernig þeir fara að því að byggja húsin er á þeirra valdi. Hins vegar geri ég ráð fyrir því að yfirleitt muni þeir fara útboðsleiðina.

Í morgun kynnti ég þessa viljayfirlýsingu á fundi með stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, það var samráðsfundur ríkis og sveitarfélaga í morgun, og það voru síður en svo gerðar neinar athugasemdir þar við þennan gjörning og ég held að flestir fagni honum. Varðandi Landssamtökin Þroskahjálp þá hafa þeir þroskahjálparmenn fylgst með þróun málsins og verið mjög hvetjandi þess að þessi leið yrði farin. Ég tel að hér sé verið að stíga mikið heillaspor. Öryrkjabandalagið er alveg örugglega áhugasamt um að leysa þetta verkefni vel og myndarlega af hendi og ég tel að það sé veruleg trygging fyrir því að okkur takist að komast fyrir biðlistana vegna þessa samnings.