Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 18:50:30 (2655)

2000-12-04 18:50:30# 126. lþ. 39.9 fundur 310. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001# (breyting ýmissa laga) frv. 174/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[18:50]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það á við um tilteknar stofnanir og málaflokka að þeim hefur verið afmarkaður ákveðinn tekjustofn með lögum til að standa straum af ákveðnum verkefnum. Svo að dæmi sé tekið hefur verið til Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins en hann hefur haft tekjur af aðflutningsgjöldum sjónvarpstækja, ef ég man rétt, og eins og nafnið ber með sér hefur sjóðurinn verið hugsaður til að standa straum af tilkostnaði við húsbyggingar Ríkisútvarpsins. Þetta frv. fjallar ekki um þennan sjóð. En ég er að nefna þetta sem dæmi um afmarkaða tekustofna.

Þetta frv. fjallar hins vegar um tvo tiltekna sjóði, um framlög til Framkvæmdasjóðs fatlaðra, sem hefur haft lögbundna tekjustofna, erfðafjárskatt og erfðafé, sem hefur runnið til sjóðsins og síðan er það Endurbótasjóður menningarstofnana sem hefur fengið til ráðstöfunar sérstakan eignarskatt og hefur honum verið ætlað að standa straum af kostnaði við endurbætur á húsakosti menningarstofnana og fleira.

Þetta frv. gengur út á tvennt í reynd: Að skerða núna framlög til þessara sjóða og afnema síðan með lögum þessa sjálfvirkni. Menn segja sem svo að það sé bókhaldslega eðlilegt að gera þetta þannig enda sé staðreyndin sú að framlag til þessara sjóða hafi verið skert árlega af Alþingi og hvers vega ekki ganga götuna til enda og afnema þessa millilendingu og hafa lögin í samræmi við framkvæmdina. Bókhaldslega séð kunna að vera nokkur rök fyrir þessu.

Síðan má líta á málið frá öðrum sjónarhóli og spyrja hvort það hafi verið snjallt að hafa þetta fyrirkomulag við að tryggja þessum málaflokkum framlag, Framkvæmdasjóði fatlaðra af erfðafjárskatti og erfðafé og Endurbótasjóði menningarbygginga af eignarskattinum. Ég held að nokkur rök séu fyrir því að halda sig við þetta fyrirkomulag.

Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur verið skertur árlega eins og ég nefndi áðan og við umræðuna hefur komið fram að hann hefur verið skertur um 1.500 millj. kr. á síðustu fimm árum. Er það vegna þess að ekki sé þörf á þessu framlagi til að reisa sambýli og aðrar stofnanir fyrir fatlaða? Nei, það er þörf á þessu framlagi og það hefur komið m.a. fram í máli hæstv. félmrh. og ég hygg að það sama eigi við um hinn sjóðinn einnig, Endurbótasjóð menningarbygginga. En hvers vegna er ríkisstjórninni umhugað um að gera þessa lagabreytingu? Það er vegna þess að þetta kallar á mjög óþægilega umræðu á hverju ári. Hún verður að hafa fyrir því að skerða framlagið til þessara sjóða og það er svolítið erfitt að horfast í augu við Alþingi og þjóðina og samtök fatlaðra sem verða fyrir þessum skerðingum eða þessar skerðingar bitna harðast á. Þetta frv. er því ekki bara bókhaldslegt frv., þetta snýst ekki bara um bókhald og skynsemi í bókhaldi. Þetta er pólitískt frv. Þetta er frv. sem er sett fram til að ríkisstjórnin komist út úr pólitískum erfiðleikum sem hún þarf að horfast í augu við á ári hverju þegar hún skerðir framlag til þessara málaflokka. Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri sem hafa fjallað um þetta mál að áður en við tökum endanlega afstöðu til þess þurfum við að skoða málið heildstætt, við þurfum að skoða málin með tilliti til verkefna þessara sjóða. Fyrr getum við ekki tekið endanlega afstöðu til málsins.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta á þessu stigi. Þetta frv. mun fara til efh.- og viðskn. og fá þar umfjöllun. Ég á þar sæti og mun taka þátt í þeirri umfjöllun.

Aðeins örfá orð um samkomulagið sem félmrn. og Öryrkjabandalagið hafa gert. Einnig það þarf að skýra nánar. Mér finnst ekki alveg ljóst hvað er að gerast en eftir því sem ég fæ skilið orð hæstv. félmrh. og fréttir af þessu samkomulagi --- og reyndar las hæstv. félmrh. samkomulagið eða hluta af því upp hér áðan --- mun það vera svo að hússjóði Öryrkjabandalagsins er lánað fé. Samkvæmt formúlum sem unnið er eftir núna verður þetta fé væntanlega á markaðsvöxtum en síðan mun félmrn. leigja sambýlin eða húsnæði sem Öryrkjabandalagið kemur til með að reisa fyrir þetta fé eða öllu heldur hússjóður Öryrkjabandalagsins. Þá fer maður að spyrja sig um þessa vegferð fjármagnsins, hverjir eru kostir og gallar á því að láta peningana fara alla þessa leið og hver komi til með að verða tilkostnaður ráðuneytisins og ríkisins þegar upp er staðið. Það er eins með þetta samkomulag og þetta frv. Þetta kallar á nánari skoðun og umfjöllun í nefndum en við eigum eflaust eftir að fá síðan nánari umræðu um samkomulagið sem hæstv. félmrh. og aðrir hafa gert að umræðuefni.