Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 18:58:20 (2656)

2000-12-04 18:58:20# 126. lþ. 39.9 fundur 310. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001# (breyting ýmissa laga) frv. 174/2000, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[18:58]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. nefndi að þetta væri pólitískt mál og það eru flest mál sem hingað koma. En hann nefndi það í því samhengi að mönnum þætti óþægilegt að lenda í því að þurfa að skerða framlög, jafnvel þegar menn væru að auka þau frá ári til árs, væru menn að skerða þau samkvæmt vissum bundnum framlögum. Ég velti því máli fyrir mér í þessu samhengi: Er ekki miklu þægilegra fyrir okkur að einhverjir þingmenn löngu fyrir okkar daga, áður en nokkurt okkar er hingað komið, hafi ákveðið að setja í lög að framlög til fatlaðra skuli fara eftir því hvort efnamenn deyja á tilteknu ári, hvernig erfðafjársjóði víkur við á hverju ári? Er það ekki hið þægilegasta að segja: Það kemur okkur ekki við. Það fer bara eftir því hvernig árar hjá erfðafjársjóði hvað við ætlum að styrkja málefni fatlaðra mikið. Ég tel fullkomlega óeðlilegt að menn taki ekki einmitt pólitíska afstöðu til þess, hver og einn á hverju ári og takist á um það hvað menn ætli að leggja í þetta mikilvæga svið en segi ekki bara: Það voru einhverjir karlar og kerlingar löngu á undan okkur sem fundu það út að framlög til fatlaðra skyldu alltaf tengjast því hvað gengi af fjármunum inn til þessa sérstaka sjóðs, erfðafjársjóðs sem er ekki í neinum tengslum við málefni fatlaðra. Þetta var bara ákveðið svona. Eitthvað skyldi ganga inn í þennan sjóð. Ég segi því ekki að við séum að forðast pólitískar umræður. Þvert á móti er þetta hætt að lúta einhverjum lögmálum sem einhverjir allt aðrir menn ákváðu fyrir langa löngu heldur farið að lúta pólitískum lögmálum og ég hygg að það sé gott fyrir jafnáhugasaman og öflugan pólitískan talsmann eins og hv. þm. sem talaði hér síðast.