Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 19:03:06 (2659)

2000-12-04 19:03:06# 126. lþ. 39.9 fundur 310. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001# (breyting ýmissa laga) frv. 174/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[19:03]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Í grundvallaratriðum er ég ekki ósammála hæstv. forsrh. en út frá hagsmunum fatlaðra er ég honum hins vegar ósammála. Það er rétt sem hann bendir á að þessi tekjulind hefur verið hagstæð trygging fyrir fatlaða upp á síðkastið. Einmitt þess vegna spyr maður hvort rétt sé að nema úr gildi og skera á þessa hagstæðu tryggingu sem fatlaðir hafa notið. Ég er að mótmæla því.

Ríkisstjórninni hefur hins vegar fundist óþægilegt að standa frammi fyrir því á ári hverju að skerða þetta lögboðna framlag til málefna fatlaðra. Þess vegna segi ég að þetta frv. sé pólitískt í eðli sínu. Ríkisstjórnin vill koma málum þannig fyrir að hún geti skorið niður framlag til þessara málaflokka án þess að mikið fari fyrir því og ég mótmæli þeirri aðferð.