Eftirlit með útlendingum

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 19:33:50 (2670)

2000-12-04 19:33:50# 126. lþ. 39.10 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv., ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[19:33]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Á fundi þingflokksformanna um hádegisbilið í dag var ákveðið að þegar liði á daginn mundu þingflokksformenn koma saman til fundar til að ræða þinghaldið og m.a. þá ósk sem fram hafði komið frá einum þingflokksformanni um að hér yrði kvöldfundur. Aðrir þingflokksformenn gerðu athugasemdir við það og líka við þau mál sem sett höfðu verið á dagskrá. Fyrir stundu var vakin á þessu athygli undir þessum sama dagskrárlið.

Ég kveð mér nú hljóðs um fundarstjórn forseta. Ég skildi hæstv. forseta, sem þá sat í forsetastól, þannig að gert yrði hlé til að ræða þessi mál og þingflokksformenn kæmu saman til að ræða um framhald þingsins. Við höfum nú lokið alllangri umræðu um ríkisfjármálin og sú ósk hefur komið fram frá formanni þingflokks Samfylkingarinnar, hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, og ég tekið undir það sjónarmið, að nú verði gert hlé á þinghaldinu, að við komum aftur saman til fundar í fyrramálið en ekki verði framhald á umræðunni hér.