Ferjuaðstaða við Bakkafjöru undan Vestmannaeyjum

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 20:22:38 (2674)

2000-12-04 20:22:38# 126. lþ. 39.6 fundur 55. mál: #A ferjuaðstaða við Bakkafjöru undan Vestmannaeyjum# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[20:22]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til síðari umræðu till. til þál. um rannsóknir á ferjuaðstöðu við Bakkafjöru undan Vestmannaeyjum eins og hv. formaður samgn. hefur mælt fyrir.

Eins og fram kemur í nál. rita ég undir það með fyrirvara. Fyrirvari minn er fólginn í því að þær undirbúningsrannsóknir sem þarna þarf að ráðast í kosta fjármagn. Til slíkra rannsókna þarf að ætla fjármagn með eðlilegum hætti á fjárlögum á hverjum tíma en ráðast ekki í þær án þess að veitt hafi verið fjármagn til þess sérstaklega eða þá að Siglingamálastofnun telji að hún geti lagt til af því fé sem hún hefur til umráða.

Ég tek að öðru leyti undir nauðsyn þess að kanna möguleikana á því að ferjur, skip eða bátar, komi þarna að landi. Suðurströndin er hafnlaus eða lélegar hafnir þar á löngum köflum og því er full ástæða til að hugað verði að því hvernig þar megi bæta úr. Gott væri ef hægt væri að koma þar upp ferjuhöfn milli lands og eyja.

Herra forseti. Fyrirvari minn lýtur því að að sjálfsögðu verði ekki ráðist í þessar rannsóknir nema til þeirra sé ætlað fjármagn. Annars er þetta hið besta mál.