Staðan á fiskimjölsmörkuðum í Evrópu

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 13:38:30 (2676)

2000-12-05 13:38:30# 126. lþ. 40.94 fundur 168#B staðan á fiskimjölsmörkuðum í Evrópu# (umræður utan dagskrár), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[13:38]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu hefur verið allmikið í fréttum að undanförnu og sú niðurstaða sem er fengin í því er að okkar mati sú besta mögulega fyrir íslenska hagsmuni miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi. Að vísu er eftir að sjá hvernig Þjóðverjar bregðast við og utanrrn. mun halda áfram að fylgjast með íslenskum hagsmunum gagnvart þeim og það sama á við um Frakka. En sú samþykkt sem gerð var í ráðherraráðinu í gær gerir ráð fyrir að sömu reglur gildi á öllum innri markaðnum þannig að það er þá jafnframt beiðni til þeirra ríkja sem ekki hafa þær reglur að þær fylgi sömu reglum.

Drögin sem voru lögð fyrir ráðherrafundinn í gær í Brussel gerðu ráð fyrir almennu banni og svo virðist sem skjót viðbrögð okkar Íslendinga hafi borið árangur og viðbrögð nokkurra annarra ríkja því að niðurstaða fundarins varð sú að ráðherraráðið samþykkti sex mánaða bann við notkun fóðurmjöls við ræktun jórturdýra en leyfði áframhaldandi notkun fiskimjöls í svína- og kjúklingarækt sem varðar meginhluta útflutnings íslenskra aðila til ESB.

En þó að vel hafi tekist til í þetta sinn og mikilvægir íslenskir hagsmunir varðir, þá er að mínu mati engin ástæða til einhverrar kokhreysti í þessu máli og einhverrar sjálfumgleði. Þetta mál sýnir afskaplega vel hversu skjótt veður geta skipast í lofti og hversu mikilvægum hagsmunum getur verið fyrirvaralaust ógnað þannig að íslensk stjórnvöld eigi erfitt með að hafa stjórn á atburðarásinni. Í þessu tilfelli skipti miklu að fulltrúar Íslands áttu aðgang að fastanefnd framkvæmdastjórnar ESB um dýraheilbrigði og gátu þar komið á framfæri sjónarmiðum Íslands. Þennan aðgang eigum við á grundvelli EES-samningsins en eftir að málið fór til meðferðar í ráðherraráðinu voru fulltrúar Íslands útilokaðir frá frekari umræðu. Í reynd eigum við ekki aðgang að þeirri byggingu sem fundurinn fór fram í nema vegna þess að við höfum gert svokallað Schengen-samkomulag og fulltrúar okkar gátu verið á göngunum þar í húsinu í krafti þess en þeir gátu ekki verið á göngunum í krafti þess að við erum aðilar að innri markaðnum. Þetta sýnir að við þurfum að vera vel undirbúin til að takast á við mál eins og þetta.

Hv. þm. spurði ýmissa spurninga, t.d. að því er varðaði díoxín. Það er alveg rétt að það mál getur komið upp á nýjan leik og við þurfum að undirbúa það vel. Ég get ekki svarað um reglugerð að því er varðar laxaúrgang. Ég get heldur ekki svarað að því er varðar eftirlit. Ég vænti þess að hæstv. sjútvrh. geti svarað því betur en ég, en við þurfum að sjálfsögðu að búa okkur undir þetta mál.

Það er rétt hjá hv. þm. að minni mengun málma hefur mælst við strendur Suður-Ameríku en að meðaltali í Evrópu. Þess vegna er mikilvægt að litið sé á afurðir í Norðurhöfum sérstaklega en hvað sem verður um aukna framleiðslu til manneldis, sem ég get tekið undir, þá liggur alveg ljóst fyrir að fiskimjölsframleiðsla verður mikilvæg á Íslandi á ókomnum árum því að engar líkur eru til þess að við getum alveg á næstunni komið öllu því til manneldis sem nú fer til dýrafóðurs. Við verðum að reka þessi mál á þeim grundvelli og búa okkur undir það sem fram undan er með þeim hætti.

Ríkisstjórnin ákvað að bregðast mjög hart við í þessu máli og það virðist hafa tekist a.m.k. að verulegu leyti og ríkisstjórnin mun halda áfram að taka þessi mál af mikilli alvöru og undirbúa næstu skref í samræmi við það hvort sem við erum að tala um það díoxín-mál sem hv. þm. nefndi eða áframhaldandi aðgerðir að því er varðar bann sem er í gildi bæði í Frakklandi og Þýskalandi eins og nú standa sakir.