Staðan á fiskimjölsmörkuðum í Evrópu

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 13:43:52 (2677)

2000-12-05 13:43:52# 126. lþ. 40.94 fundur 168#B staðan á fiskimjölsmörkuðum í Evrópu# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[13:43]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það tókst að afstýra því að settar yrðu reglur sem fella fiskimjöl undir beina- og kjötmjöl og þar með að það yrði bannað til skepnufóðurs í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Það tókst að þessu sinni. Utanríkisþjónustan okkar stóð sig vel og í Brussel fundu menn vel fyrir fulltrúum landsins á meðan togast var á um þetta atriði. Það var ekkert einfalt því að ýmsir sáu hagsmuni í því að banna fiskimjölið og mikil pólitísk undiralda var í þessu máli. En þrotlaus vinna og virkjun annarra til vinnu fyrir okkur og málstað okkar leiddi til þeirrar niðurstöðu að vísindalegu rökin höfðu betur en hin pólitísku.

Þetta mál segir okkur, herra forseti, hversu vakandi við þurfum að vera fyrir hagsmunum okkar. En þessi sigur var bara áfangasigur hvað varðar fiskimjölið því eins og hér hefur komið fram er fram undan barátta vegna díoxíns. Þar þurfum við að berjast fyrir viðurkenningu á þeirri sérstöðu að minna díoxín er í fiski af Íslandsmiðum en úr Norðursjó. Þá sérstöðu þurfum við að styðja órækum vísindalegum gögnum sem vandaðar rannsóknir þarf til að staðfesta. Í því liggja gríðarlegir efnahagslegir hagsmunir sem, herra forseti, geta tengst útflutningi okkar á fiskafurðum yfirleitt í framtíðinni.

Þetta mál og sú mikla barátta sem þurfti til að vekja athygli á málstað okkar og hagsmunum vekur auðvitað upp hugsun um það hve veik staða það er að þurfa að eftirláta öðrum að taka ákvarðanir um hagsmunamál okkar. Staða okkar í þessu tilfelli og öðrum sambærilegum hefði getað verið önnur ef við hefðum sjálf getað verið við borðið.

Að þessu sinni urðu hin vísindalegu rök ofan á. Engu er þó að treysta hvað það varðar til framtíðar. Þar reynir á okkur sjálf og þá sem vilja vera vinir okkar.