Staðan á fiskimjölsmörkuðum í Evrópu

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 13:57:02 (2683)

2000-12-05 13:57:02# 126. lþ. 40.94 fundur 168#B staðan á fiskimjölsmörkuðum í Evrópu# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[13:57]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Undanfarna daga hefur grúft yfir einni mikilvægustu atvinnugrein okkar, fiskimjölsiðnaðinum, mjög alvarlegur skuggi vegna fyrirhugaðs banns Evrópusambandsins á notkun fiskimjöls í fóður. Það er ljóst, eins og rækilega hefur komið fram í þessari umræðu, að þetta bann hefði haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðarbúið og líklega lagt fiskimjölsiðnaðinn í landinu í rúst. Sem betur fer er búið að afstýra þessari vá. Það kom fram á fundi sjútvn. í morgun, þar sem fulltrúar fiskimjölsiðnaðarins sátu, að það var einmitt fyrir frumkvæði íslenskra stjórnvalda að þetta tókst. Ekki var nokkur vafi í þeirra huga að hefðu Íslendingar ekki brugðist svo hart við og skynsamlega og skipulega, þá stæðum við í allt öðrum sporum í dag.

Ég held að ástæða sé til að vekja athygli á því að þau mál sem hér hafa verið gerð að umræðuefni, þ.e. hugmyndir um bann við notkun á fiskimjöli og enn fremur díoxínmálið sem menn hafa rætt hér, eru hvort tveggja mál sem eiga rætur sínar að rekja til misnotkunar og jafnvel glæpsamlegs athæfis, t.d. kveikjan að þessu díoxínmáli, og allir þekkja. Það er ástæða til að halda þessu til haga.

Það er líka ástæða fyrir okkur til að vekja athygli á því að díoxíninnihald í afurðum sem framleiddar eru í okkar fiskimjölsverksmiðjum er miklu lægra en gengur og gerist í Evrópu. Enn fremur er ástæða til þess að minna á að fiskimjölsverksmiðjur okkar hafa allar gengið í gegnum mikla fjárfestingu og endurbætur og þær vinna eftir viðurkenndu gæða- og stýrikerfi sem Evrópusambandið viðurkennir og er þess vegna trygging fyrir því að hægt sé að sýna fram á rekjanleika afurðanna sem skiptir öllu máli.

Virðulegi forseti. Ég held að þetta mál sýni okkur fyrst og fremst að mjög mikilvægt er að vanda til þessarar framleiðslu og þar reynir á atvinnulífið sjálft sem hefur sýnt og sannað að það stendur undir þeirri ábyrgð, en síðan á árvekni og gott samband af hálfu íslenskra stjórnvalda sem kom glögglega fram í þessu máli.